Besta deildin
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Gylfi Þór Sigurðsson miðjumaður Vals bar af eldri leikmönnum Bestu deildar karla í knattspyrnu árið 2024, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni. Þar koma til greina leikmenn sem eru orðnir 34 ára gamlir og eldri, þ.e þeir karlar sem fæddir eru árið 1990 og fyrr.
Gylfi Þór, sem er 35 ára gamall, var í lykilhlutverki hjá Val á tímabilinu og lék alls 19 leiki með liðinu í Bestu deildinni á tímabilinu og skoraði í þeim 11 mörk. Hann fékk samtals 19 M í einkunnugjöf blaðsins.
Gylfi Þór gekk nokkuð óvænt til liðs við Valsmenn fyrir yfirstandandi tímabil. Hann lék með Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni frá því í ágúst árið 2023 fram í janúar árið 2024 þegar hann rifti samningi sínum við félagið vegna meiðsla. Til stóð að hann myndi snúa aftur til Lyngby að endurhæfingu lokinni en ekkert varð úr því þegar Freyr Alexandersson lét af störfum sem þjálfari Lyngby. Í staðinn skrifaði Gylfi undir tveggja ára samning við Valsmenn í mars þegar hann hafði náð sér góðum af meiðslunum.
Þetta var fyrsta heila tímabil Gylfa Þórs síðan hann sneri aftur á knattspyrnuvöllinn í september árið 2023 eftir tveggja ára hlé frá fótbolta. Gylfi hefur einnig leikið með Reading, Shrewsbury, Crewe Alexandra, Swansea, Tottenham og Everton á Englandi og Hoffenheim í Þýskalandi á atvinnumannsferlinum.
Þrír Valsarar í liðinu
Valur á þrjá leikmenn í úrvalsliði eldri leikmanna sem er byggt á M-gjöfinni, þar af tvo í byrjunarliðinu. Auk Gylfa Þórs er næstelsti leikmaður deildarinnar, bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson, einnig í byrjunarliðinu en hann fékk alls 14 M í sumar og verður fertugur eftir tæpa viku. Hólmar Örn Eyjólfsson fékk 8 M og er á varamannabekknum.
Gylfi Þór er einnig sá leikmaður sem var oftast allra í úrvalsliðinu eða sjö sinnum alls, af eldri leikmönnum deildarinnar. FH-ingurinn Björn Daníel Sverrisson varð annar, ásamt Framaranum Kennie Chophart en bæði Björn Daníel og Kennie fengu 16 M í sumar. Þá var Björn Daníel sex sinnum í úrvalsliðinu en Kennie var þrisvar í úrvalsliðinu.
KA á flesta fulltrúa í byrjunarliðinu eða þrjá talsins. Íslandsmeistarar Breiðabliks eiga einn fulltrúa í byrjunarliðinu og einn á varamannabekknum. Þá á silfurlið tímabilsins, Víkingur úr Reykjavík, einn fulltrúa, Pablo Punyed sem sleit krossband um mitt tímabil, en hann er á varamannabekknum.