Þórður Pétursson fæddist 18. maí 1938. Hann lést 21. október 2024.

Útför hans fór fram 1. nóvember 2024.

Hugurinn reikar 59 ár aftur í tímann að upphafi veiðiævi minnar í júlí 1965, er veiðigyðjan hreif mig í faðm sinn í Háfholu, neðan Æðarfossa í Laxá í Aðaldal. Sat þar áhugalítill, að dorga með maðk, einn míns liðs, meðan faðir minn Jón Sigtryggsson þurfti að skjótast upp í veiðihús á hlaðinu á Laxamýri. Allt í einu er rifið í færið, svo harkalega að við lá að ég steyptist á hausinn í fljótið mikla, stórlax stekkur og veður upp úr hylnum, en ég stend frosinn, laxinn kemst ekki upp á brotið, veltur niður, gerir aðra tilraun, fer á sömu leið, tekur ofsafegna hringi í hylnum og dembir sér niður á næsta pall og áfram niður á Flös á leið til hafs, en ég stend ennþá frosinn, er 40 punda línan slitnar eins og tvinni og smellur í andlitið á mér.

Ég hlammaðist á rassinn á 1900 ára gamalt hraunið, skalf og nötraði og hjartað barðist í brjósti mér, ég held ég hafi farið að snökta, ég skildi ekki hvað hafði gerst. En mitt í angist minni heyri ég hlýja rödd og finn hönd á öxl: „Hann var ansi vænn þessi, eigum við ekki að vita hvort hann á förunaut í hylnum.“

Þarna var kominn Þórður Pétursson, hafði verið við veiðar á Mjósundi fyrir ofan mig og séð aðfarirnar. Ég hafði aldrei heyrt af þessum góðviljaða manni, enda aldrei komið að laxveiðiá áður og ekki haft mikið álit á mönnum sem gátu staðið daginn út og daginn inn með stangarprik, enda sjálfur gamall togarasjómaður.

Eins og hendi væri veifað breytist ég á þessu augnabliki í einn af þessum mönnum og þessi álög stóðu í 50 ár þar til gyðjan sleppti mér úr fanginu. Á þessu augnabliki eignaðist ég líka vin til æviloka, sem átti gríðarstóran þátt í veiðiævi minni og Orra Vigfússonar veiðifélaga míns og besta vinar.

Doddi og Heimir heitinn á Tjörn voru guðfeður okkar við Laxá og við sugum í okkur alla þeirra þekkingu eins og svampar. Doddi var hins vegar leiðsögumaður okkar árum saman og hann og Dirra tengdust fjölskyldum okkar hlýjum og umfram allt glaðværum böndum. Það var svo gaman og partíin maður þegar þau komu suður. Sögurnar maður, óteljandi. Einu sinni var hann að gæda okkur á Óseyri, en vöðlurnar hans fóru skyndilega að leka. Doddi var ekki lengi að redda því, bjó til kerfi á staðnum um að nota ljósin og stefnuljósin á Willysnum „með bar í“ til að stýra okkur. Ekki að sökum að spyrja, fengum báðir lax.

Við Ragnheiður Sara og Unnur Kristinsdóttir ekkja Orra sendum Dirru og börnum og allri fjölskyldu Dodda innilegustu samúðarkveðjur, Dodda þökkum við ævintýrastundirnar við Laxá og samgleðjumst með ferðalagið í veiðilendurnar eilífu, þar verða margir til að fagna töframanninum við Laxá.

Ingvi Hrafn Jónsson.