Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Í endurmati á afkomuhorfum ríkissjóðs eftir að frumvarp til fjáraukalaga ársins var lagt fram í seinasta mánuði er nú gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkisins verði rúmlega 75 milljarðar kr. á yfirstandandi ári eða 1,7% af vergri landsframleiðslu í stað 68 milljarða halla sem spáð var þegar frumvarpið kom fram.
Þessi lækkun á afkomuhorfum ríkissjóðs frá fyrra mati nemur sjö til átta milljörðum og er hún rakin til lægri tekna en áður var áætlað. Verði þetta niðurstaðan verður afkoma ríkissjóðs á þessu ári rúmlega 24 milljörðum kr. lakari en gengið var út frá í fjárlögum yfirstandandi árs.
Meirihluti fjárlaganefndar gerir nokkrar tillögur um viðbótarútgjöld fyrir aðra umræðu um fjáraukalagafrumvarpið. Þar á meðal er tillaga um 800 milljóna kr. hækkun framlaga til að fjármagna skattfrjálsa eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega til samræmis við eingreiðslur í desember síðastliðin ár. Lagt er til 100 milljóna króna framlag til Kvikmyndasjóðs sem er ætlað að gera sjóðnum kleift að taka þátt í verkefnum sem annars væri ekki unnt að ráðast í á árinu og gerð er tillaga um 110 milljóna króna framlag til Landhelgisgæslunnar.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu 24. október lagði fjármálaráðherra fjáraukalagafrumvarpið fram með tillögum um ýmsar breytingar á fjárlögum ársins sem fólu í sér að útgjöld ríkissjóðs á yfirstandandi ári aukast um 24,5 milljarða kr. Framlög af ýmsum toga hækki um 9,9 milljarða en þyngst vega aukin vaxtagjöld ríkissjóðs sem hækka um 14,6 milljarða eftir endurmat.
150 milljónir vegna kostnaðar í tengslum við myglu á Hlíð
Fjárlaganefnd hefur nú lokið umfjöllun um frumvarpið fyrir aðra umræðu og leggur meirihluti nefndarinnar til nokkrar viðbótarbreytingar eins og fyrr segir. Lagt er til að veittar verði 20 milljónir kr. til að fjármagna tvö stöðugildi við landamæragæslu á Akureyrarflugvelli.
Í upphaflegu frumvarpi ráðherra var lagt til að veitt yrði 350 millj. kr. framlag til Landhelgisgæslunnar vegna viðgerðar á hreyflum TF-SIF. „Vegna viðgerðarinnar reyndist ekki unnt að taka þátt í haustverkefni á vegum Frontex með flugvélinni og er gert ráð fyrir að stofnunin hafi fyrir vikið orðið af áætluðum 110 m.kr. rekstrarafgangi. Gerð er tillaga um að Landhelgisgæslunni verði bætt sú fjárhæð,“ segir í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar.
Meirihlutinn leggur einnig til að veitt verði 150 milljóna kr. framlag vegna kostnaðar í tengslum við myglu á hjúkrunarheimilinu Hlíð og kostnaðarauka sem Sjúkrahúsið á Akureyri hefur orðið fyrir vegna tíu öldrunarsjúklinga sem eiga að vera á Hlíð en komast ekki í viðeigandi úrræði vegna myglunnar.
Þá er lagt til 83 millj. kr. framlag til að kaupa nýjan skyggniröntgenbúnað á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Öll nefndin gerir tillögu um 80 milljóna kr. framlag til að tryggja að rekstur Ljóssins verði í jafnvægi á árinu og um 200 millj. kr. viðbótarframlag til að fjármagna 25% kostnaðarhlutdeild ríkisins vegna NPA-samninga. Loks leggur meirihlutinn til að millifærðar verði 150 milljónir kr. af fjárfestingu yfir á rekstur vegna Stuðla. Upphaflega var gert ráð fyrir að fjárfest yrði í úrræðum á Stuðlum en horfið hefur verið frá því vegna áforma um að leigja þess í stað tímabundnar vistunareiningar.