Sunna Sigurðardóttir
Fyrir hverjar kosningar tek ég mér tíma til að skoða frambjóðendur og fara yfir stefnumál stjórnmálaflokkanna. Mannauður okkar Íslendinga er mikill og frambærilegir einstaklingar eru á öllum listum en auðvitað ólíkar áherslur og hugmyndafræði á milli flokka.
Í gegnum tíðina hef ég séð mig sem frjálslynda hægri manneskju, ég er hlynnt því að einstaklingar geti blómstrað í því sem þeir taka sér fyrir hendur og fengið stuðning til þess, sama hver bakgrunnurinn er. Mér finnst líka að skattlagning eigi að vera í hófi til að hún dragi ekki úr frumkvæði og krafti í nýsköpun og atvinnulífi, heldur styðji við það. Hæfileg og rétt framkvæmd skattlagning er samt nauðsynleg til þess að við getum rekið velferðarsamfélag þar sem við höfum aðgang að fyrsta flokks menntun og heilbrigðisþjónustu líkt og er hér á Íslandi. En eins og á öllum heimilum þarf reksturinn að standa undir sér og það þarf að forgangsraða rétt. Stærsta hagsmunamál okkar allra núna er áframhaldandi lækkun vaxta og við verðum að standa rétt að hlutunum næstu mánuði svo það takist og til þess þarf reynslu og stöðugleika.
Eftir sjö ár í flóknu stjórnarsamstarfi skil ég mjög vel að sumir sjálfstæðismenn og -konur séu ósátt við málamiðlanir sem gerðar hafa verið og finnist að hlutir hafi átt að vera gerðir á annan hátt eða aðrar ákvarðanir teknar. Það má vel vera og ég get viðurkennt að vera í þeim hópi með sum málefni en er þrátt fyrir það mjög þakklát okkar ágæta forystufólki sem staðið hefur vaktina. Margt hefur verið virkilega vel gert og þar ber helst að nefna að hjálpa þjóðinni í gegnum heimsfaraldur og rýmingu heils sveitarfélags. Þessar áskoranir voru risavaxnar og það er ekki hægt að horfa framhjá þeim þegar síðustu ár eru gerð upp.
Ég vona að þið komist að sömu niðurstöðu og ég að treysta Sjálfstæðisflokknum til þess að vinna fyrir okkur héðan í frá eins og hingað til. Látið ekki glepjast af innantómum gylliboðum og ábyrgðarlausum loforðum flokka sem hafa ekki sýnt að þeir hafi neina burði til þess að geta framkvæmt það sem þeir tala um. Við vitum öll að það er ekki auðvelt að standa í stafni í flóknu umhverfi innanlands og utan, það er miklu einfaldara að gagnrýna frá hliðarlínunni og láta sig líta vel út án þess að hafa borið ábyrgð eða þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Gleymum því samt ekki að hliðarlínustjórnendurnir gera í raun ekki neitt, alveg sama hverju þeir halda fram.
Mín niðurstaða er því sú að halda áfram að treysta Sjálfstæðisflokknum til þess að vera það leiðandi afl og kjölfesta í ríkisfjármálum og framtíðarsýn sem hann hefur verið hingað til. Ég vona að þið hin gerið það sama.
Höfundur er deildarstjóri og skipar 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.