Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Tindur Mount Everest, hæsta fjalls heims, stendur í um 8.849 metra hæð yfir sjávarmáli. Gengið er á hann frá Tíbet í norðri og Nepal í suðri svo grunnbúðir er að finna beggja vegna. Um 800 manns reyna við tindinn á ári hverju en tveimur þriðju tekst að jafnaði að komast alla leið. Tólf Íslendingar hafa toppað Everest frá árinu 1997.
Mun fleiri ganga í grunnbúðirnar eða 30 til 40 þúsund manns á ári hverju. Jafnan er annars vegar gengið að vori, frá mars og fram í maí, og hins vegar að hausti, frá september og fram í nóvember. Algengara er að Íslendingar fari að hausti.
850 þúsund króna ævintýri
Auglýst ferð á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu kostar um 580 þúsund krónur á manninn. Innifalinn er akstur til og frá flugvelli í Katmandú, skoðunarferð um borgina, flug frá Katmandú til Lukla og til baka, þyrluflug frá Dingboche til Lukla, matur að mestu leyti, þjóðgarðsgjöld, leiðsögu- og burðarmenn úr röðum innfæddra og íslensk fararstjórn.
Flug til og frá Katmandú er ekki innifalið en það kostar um og yfir 200 þúsund krónur á manninn. Þá eru nauðsynlegar tryggingar ekki innifaldar en skv. upplýsingum Morgunblaðsins nema þær um 30 þúsund krónum. Göngufólk þarf þá sjálft að reiða fram 25-30 þúsund krónur vegna þjórfjár fyrir leiðsögu- og burðarmenn og rúmar sjö þúsund krónur vegna vegabréfsáritunar.
60 manns og fer fjölgandi
Knútur Óskarsson hefur gefið út vegabréfsáritanir frá 2020 sem kjörræðismaður Nepals á Íslandi. Hann segir erfitt að henda reiður á hversu margir fari héðan í grunnbúðaferð því einnig séu gefnar út vegabréfsáritanir á flugvellinum í Katmandú og Nepalar hér á landi ferðist gjarnan á þessum árstíma. Knútur telur þó að um 60 manns fari frá Íslandi í slíkar ferðir á ári og sýnist honum ferðunum hafa frekar fjölgað með árunum.
Guðmundur Þ. Egilsson bókbindari fór í sína fimmtu ferð á þetta svæði í haust en hann hefur þrisvar heimsótt grunnbúðir Everest. Segir hann að almennt gangi fólk í átta daga um 12 km dagleiðir um það sem hann kallar nepalskar jafnsléttur, og vísar þar til þeirra hæða og lægða sem er að finna í landslaginu. Segir hann gönguna viðráðanlega fyrir flesta en daglega komi fjandi stífir kaflar þar sem fólk gangi í nokkrum bratta.
Guðmundur stiklar á stóru í ferðatilhögun hefðbundinnar grunnbúðaferðar. „Þú flýgur til Katmandú sem er í um 1.340 metra hæð yfir sjávarmáli og þaðan kemur maður sér til Lukla.“ Það segir hann vandasamt en flugvöllurinn í Lukla er talinn einn hættulegasti flugvöllur heims. „Þetta er bara hilla uppi í fjalli í um 2.850 metra hæð,“ segir Guðmundur og hlær dátt.
Hefð er fyrir því að ganga fyrsta legginn til Phakding samdægurs. „Það er bara þriggja tíma þægileg 8 km ganga niður í 2.610 metra.“ Gist er í Phakding og haldið til Namche Bazaar daginn eftir. Gangan þangað er um 10 km löng í hæðum og lægðum en að mestu leyti upp í mót. Göngufólk gistir jafnan í Namche Bazaar, höfuðstað sjerpanna, í tvær nætur til að aðlagast hæðinni en bærinn stendur í 3.440 metrum.
Gengið er upp í munkaþorpið Tyangboche og segir hann að í botni þeirrar 13 km löngu göngu sé 3-4 km bratti upp að þorpinu, sem er í 3.870 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er gengið um 11 km í þorpið Dingboche í 4.410 metra hæð en þar gistir fólk almennt í tvær nætur til að aðlagast. Frá Dingboche er gengið upp til Lobuche, lítils þorps í um 4.940 metra hæð en á þeirri leið er ansi stíf brekka upp í skarð þar sem er að finna minjar um fólk sem farist hefur á Everest.
Í snertingarfjarlægð
Á áttunda degi er loks gengið frá Lobuche og í grunnbúðirnar. Gengið er upp í þorp sem heitir Gorakshep en það stendur í 5.160 metrum. Þar kemur göngufólk sér fyrir og fær sér í svanginn en þangað er komið um hádegisbil.
Eftir matinn strunsar fólk upp í grunnbúðir. „Það er bara 200 metra hækkun og þá eru menn komnir í um 5.360 metra,“ segir Guðmundur. Daginn eftir er gjarnan farið upp á Kala Patthar, útsýnisfjall í 5.640 metra hæð. Guðmundur segir það ekki sérlega flókna leið en hún taki verulega í. Þar sjái fólk Everest og yfir grunnbúðirnar ásamt fjalli sem heiti Pumori. „Það verður í svona snertingarfjarlægð.“
Leiðin til baka til Lukla er svo gjarnan gengin á þremur löngum dagleiðum að sögn Guðmundar. Hann segir stíga á leiðinni frá Lukla til grunnbúða almennt góða og gert hafi verið stórátak í að breikka þá. Meiri sjarmi hafi verið yfir þeim gömlu og þeir nýju séu túristalegri en Guðmundur viðurkennir að úrbóta hafi verið þörf enda fari auk göngufólks nautgripahjarðir um stígana sem og asnahjarðir sem borið geti allt mögulegt.
Tindurinn togar ekki
Uppáhaldsleið Guðmundar í grunnbúðirnar er þegar komið er við í Gokyo, litlu þorpi sem stendur við hið fallega Gokyo-vatn. „Þá er fjórum dögum bætt við sem gerir ferðina strembnari,“ segir hann.
Guðmundur segir það að ganga í grunnbúðir Everest eitt af því sem menn geri til þess að tikka í boxið, en þrátt fyrir að hafa gengið þangað þrisvar togar tindurinn ekki í hann og hefur aldrei gert. „Þá þurfa menn að búa í grunnbúðunum í nokkrar vikur til að aðlagast aðstæðum,“ útskýrir hann og nefnir matvendni sína sem eitt af því sem fæli hann frá.
Gönguleiðin í grunnbúðir Everest er feikivinsæl en þegar mest lætur leggja um 500 manns af stað á dag í þennan 65 kílómetra langa leiðangur um hæðir og lægðir Himalajafjallanna.