Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Félagar í björgunarsveitum hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg syrgja nú góðan félaga eftir banaslysið 3. nóvember þegar Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson lést á æfingu við Tungufljót. Sigurður var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ og hafði komið af miklum krafti inn í starfið, að sögn félaga hans. Hann var 36 ára gamall og lætur eftir sig unnustu og foreldra.
Ekki er ýkja langt síðan Sigurður hóf nýliðaþjálfun hjá björgunarsveitinni Kyndli, eða árið 2020, en hann varð fljótt afar virkur í starfinu. Einn nýliðaþjálfara hans segir Sigurð hafa verið einkar eftirminnilegan. Fyrst vakti athygli þjálfarans hversu brosmildur og jákvæður Sigurður var við fyrstu kynni. Hann segist smám saman hafa tekið eftir því að Sigurður hafi fengið dágóðan skammt af ofvirkni og björgunarsveitin notið góðs af orkunni því Sigurður hafi gengið rösklega í þau verk sem vinna þurfti hverju sinni.
Samkvæmt viðmælendum blaðsins hjá Landsbjörg var mörgum brugðið þegar sú harmafregn barst að Sigurður hefði látið lífið á æfingu. Björgunarsveitarfólki sé boðin áfallahjálp og önnur viðeigandi úrræði til að vinna úr áfallinu. Eins og sjá má hér í dálknum sem fylgir greininni eru banaslys fremur fátíð hjá björgunarsveitunum ef skoðað er tæpa hálfa öld aftur í tímann.
Við útför Sigurðar á mánudaginn kemur, 18. nóvember, munu félagar hans úr björgunarsveitinni standa heiðursvörð en fjölmargir vilja heiðra minningu Sigurðar með einhverjum hætti að sögn viðmælanda blaðsins. Sigurður hafi augljóslega haft mikla ánægju af starfinu og áhugi hans hafi smitað út frá sér hjá Kyndli. „Óhætt að segja að allir í Kyndli eru svo þakklátir fyrir að hafa kynnst þér og erum við betri persónur fyrir vikið,“ skrifaði félagi Sigurðar Kristófers meðal annars í minningarorðum á netinu.
Erfiðar æfingar fylgja þjálfun
Sigurður Kristófer fórst við æfingar í straumfljóti, eins og það er kallað. Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar fer fram ýmiss konar þjálfun til að fólk geti verið í stakk búið til að takast á við þau verkefni sem bíða björgunarsveita. Þau geta verið geysilega krefjandi enda felur starfið í sér að fara út í storminn þegar almennir borgarar fara inn í hlýjuna, eins og björgunarsveitarmaður orðaði það við blaðið. Æfingin við Tungufljót á dögunum mun hafa verið hefðbundin þjálfun í því að bjarga fólki úr straumfljóti en atvikið er enn til rannsóknar.
Í upplýsingum frá Landsbjörg kemur fram að frá árinu 2016 hafi verið haldið vel utan um miðlæga slysaskráningu innan félagsins en fyrir þann tíma hafi verið haldið utan um slysaskráningu hjá hverri og einni björgunarsveit. Ýmis skakkaföll geta orðið á æfingum eða í útkalli sem skiljanlegt er og einnig má nefna að stundum eru notuð kraftmikil tæki eins og vélsleðar. Þar sem stundum þarf að sinna útköllum við afar erfiðar aðstæður er einnig reynt að æfa við slíkar aðstæður.
„Við förum í krefjandi aðstæður en reynum ávallt að forðast að setja okkur í hættulegar aðstæður. Við þurfum að búa okkur undir það sem getur mætt okkur í útkalli. Það þýðir lítið að vera einungis með þjálfun í sólskini. Það eru hættur þar sem við förum en við reynum að lágmarka þá áhættu sem við tökum. Við erum ekki fullkomin og erum alltaf að læra. Við lærum af hverju útkalli og rýnum í þau. Við þurfum að standa okkur betur og betur í öllu sem við gerum. Þar af leiðandi fer fram heiðarleg skoðun á því sem gerðist. Varðandi þetta tiltekna slys þá hefur hópur manna hjá okkur skoðað gaumgæfilega hvað gerðist,“ segir reyndur starfsmaður hjá Landsbjörg.
Fólk ögrar sér meira
Viðmælendur blaðsins nefna að með árunum hafi störf björgunarsveitarmanna orðið erfiðari. Undantekningin er sú að sjóslys eru vitaskuld mun fátíðari en þau voru á 20. öldinni en ýmislegt annað hefur gert starf björgunarsveitanna erfiðara. Má þar nefna að miklu meira er um ferðalög upp á hálendi og á jökla. Slíkt var tæplega flokkað sem algengt áhugamál ef farið er einhverja áratugi aftur í tímann. Auk þess er þekkt að fólk sem gerir út á vinsældir á samfélagsmiðlum gengur gjarnan býsna langt til að ná myndum eða myndskeiðum á áhugaverðum stöðum. Ekki síst erlendir gestir.
„Fólk gerir ýmislegt sem því kom ekki til hugar að gera áður á Íslandi, til dæmis í vetrarsporti. Ýmiss konar breytt hegðun hefur orðið til þess að setja aukna pressu á starf okkar því að verkefni okkar eru orðin harðari,“ sagði einn viðmælenda blaðsins og annar nefndi að slíkt kallaði einnig á meiri búnað.
„Fólk ögrar sér meira en áður og það kallar á nýjar áskoranir fyrir björgunarsveitir. Til að vera viðbúin þeim þarf fleiri öflug tæki eins og vélsleða. Segja má að svona lagað sé í stöðugri þróun og endurskoðun. Drónarnir eru til að mynda gott dæmi um hraðar breytingar og þar verða til öðruvísi hættur en við þekktum áður.“
Banaslys í björgunarsveitarstarfi
Tvö banaslys á þessari öld
Sérstakt átak hefur verið frá árinu 2016 í skráningu frávika í björgunarsveitastarfi. Alls hafa verið skráð um 125 atvik frá 2016, allt frá meiðslum til alvarlegra slysa.
2024 Sigurður Kristófer Óskarsson. Formaður Björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Æfing í straumvatni.
2001 Lárus Hjalti Ásmundsson. Nýliði í Hjálparsveit skáta í Garðabæ.
Æfing á jökli.
1995 Jón Harðarson. Félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Æfing á jökli.
1985 Eyjólfur Ben Sigurðsson. Félagi í björgunarsveitinni Stakki í Keflavík og Njarðvík. Æfing á sjó.
1982 Hannes Óskarsson. Sveitarforingi Hjálparsveitar skáta í Vestmannaeyjum. Útkall vegna strands Pelagus. Þar lést einnig Kristján Víkingsson læknir.
1976 Kjartan Eggertsson. Fjórir björgunarsveitarmenn í Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum hröpuðu í Gígjökli og einn lést. Æfing á jökli.