Evrópumót Arnar Pétursson landsliðsþjálfari tilkynnir lokahópinn á fréttamannafundi í höfuðstöðvum Icelandair.
Evrópumót Arnar Pétursson landsliðsþjálfari tilkynnir lokahópinn á fréttamannafundi í höfuðstöðvum Icelandair. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, tilkynnti 18 manna leikmannahóp sinn sem tekur þátt á EM 2024, sem fer fram í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss frá 28. nóvember til 15

EM 2024

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, tilkynnti 18 manna leikmannahóp sinn sem tekur þátt á EM 2024, sem fer fram í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss frá 28. nóvember til 15. desember, í höfuðstöðvum Icelandair á Reykjavíkurflugvelli í gær.

Ísland er í F-riðli með Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu og verður riðillinn leikinn í Innsbruck í Austurríki. 24 lið taka þátt á mótinu þar sem tvö efri liðin í sex riðlum tryggja sér sæti í milliriðli en neðri tvö falla úr leik; liðin sem komast ekki áfram leika ekki um sæti.

Ísland mætir Hollandi 29. nóvember, Úkraínu 1. desember og Þýskalandi 3. desember.

Íslenska liðið tekur þátt á öðru stórmóti sínu í röð og sínu fimmta frá upphafi eftir að hafa unnið Forsetabikarinn á HM 2023 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð fyrir tæpu ári. Liðið tekur nú hins vegar þátt á sínu fyrsta Evrópumóti í 12 ár eða síðan árið 2012 og því þriðja í sögunni.

„Það sem var kannski erfiðast í þessu var að þurfa að skilja eftir leikmenn sem hafa verið með okkur og verið partur af þessu í einhvern tíma. Ég er mjög ánægður með þann hóp sem ég er búinn að velja og þá leikmenn sem taka þátt í þessu með okkur.

Þetta snerist fyrst og fremst um það að þurfa dálítið að skera niður, skilja einhverja eftir. Það var ekki auðvelt,“ sagði Arnar um valið á lokahópnum í samtali við Morgunblaðið í gær.

Bætti hann því við að nokkrir leikmenn væru til taks færi svo að einhverjir heltust úr lestinni áður en mótið hefst. „Já, það eru leikmenn sem eru klárir ef eitthvað kemur upp á,“ sagði Arnar en nefndi þó engin nöfn.

Sandra hefði þurft meiri tíma

Þegar kom að valinu vakti mesta athygli að leikstjórnandinn Sandra Erlingsdóttir, leikmaður Metzingen í þýsku 1. deildinni, væri ekki í leikmannahópnum. Hún er nýfarin aftur af stað eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn, Martin Leo Daníelsson, fyrir fjórum mánuðum.

„Sandra kom inn í verkefnið gegn Póllandi fyrir um þremur vikum, þá þremur mánuðum eftir að Martin Leo kom í heiminn, og leit mjög vel út.

Hún hefur verið gríðarlega dugleg og samviskusöm og auðvitað var markmið hennar að komast inn á þetta mót. Hún hefði þurft aðeins lengri tíma. Á sama tíma er staðan sú að við erum vel mönnuð í þessari stöðu.

Bæði Elín Klara og Elín Rósa hafa verið að spila virkilega vel og eru orðnar virkilega öflugir leikmenn. Það er kannski það góða í þessari þróun að þær hafa verið að stíga mjög sterkar inn,“ útskýrði landsliðsþjálfarinn.

Fullt af svörum gegn Póllandi

Tveir sigrar í vináttulandsleikjum gegn Póllandi í lok október hjálpuðu Arnari við valið.

„Já, engin spurning. Við fengum fullt af svörum í þeim leikjum og flest mjög jákvæð. Þeir leikir, það verkefni, sú vika, reyndist okkur vel og hjálpaði okkur helling við að taka þessar endanlegu ákvarðanir,“ sagði hann.

Íslenski hópurinn kemur saman til æfinga hér heima 18. nóvember og heldur svo til Sviss þremur dögum síðar áður en liðið mætir heimakonum í tveimur vináttulandsleikjum 22. og 24. nóvember.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að fá þessa leiki upp á að keyra þetta saman áður en við förum inn á stórmótið. Að fara út, spila úti, taka svona mesta skrekkinn úr okkur og fínpússa áfram þann leik sem við erum að þróa.

Það skiptir okkur mjög miklu máli. Við mætum þarna hörkuandstæðingi. Sviss hefur verið að vaxa og stíga góð skref í þessum alþjóðlega bolta. Þær hafa verið að gera frábæra hluti í yngri landsliðunum. Það er mjög spennandi og mjög mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Arnar.

Stolt af því að ná markmiðum okkar

Spurður hvort hann hefði viljað fleiri vináttulandsleiki í undirbúningnum fyrir EM sagði Arnar:

„Nei, nei, ég er mjög ánægður með þetta svona. Þetta er mjög hentugt og vel uppsett. Við sendum bestu þakkir til HSÍ fyrir að hafa sett þetta svona vel upp. Við byrjum hérna heima, förum svo til Sviss þar sem er styttri leið til Austurríkis, og spilum tvo leiki í Sviss. Þetta er bara mjög gott.“

Hann viðurkenndi að spennan sé farin að aukast nú þegar rúmar tvær vikur eru í fyrsta leik á EM.

„Já, ég finn alveg fyrir því. Ég skal alveg viðurkenna það. Það fylgir því líka tilhlökkun að fá loksins að takast á við þetta. Við erum búin að vera með þetta fyrir framan okkur í þennan tíma, í næstum fjögur ár.

Það er alltaf gott að ná markmiðum sínum. Við sem lið erum stolt af því og verðum svolítið að loka þessum kafla á jákvæðan hátt og á sama tíma opna þann næsta. Vegferðin er bara rétt að byrja,“ sagði Arnar að lokum við Morgunblaðið.

Leikmannahópur Íslands:

Markverðir

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Aarhus 63/4

Hafdís Renötudóttir, Val 62/4

Aðrir leikmenn

Andrea Jacobsen, Blomberg-Lippe 56/89

Berglind Þorsteinsdóttir, Fram 28/6

Dana Björg Guðmundsdóttir, Volda 2/3

Díana Dögg Magnúsdóttir, Blomberg-Lippe 56/74

Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum 16/45

Elín Rósa Magnúsdóttir, Val 23/49

Elísa Elíasdóttir, Val 17/15

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Kristianstad 19/11

Katrín Anna Ásmundsdóttir, Gróttu 4/10

Katrín Tinna Jensdóttir, ÍR 21/9

Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi 52/110

Rut Jónsdóttir, Haukum 117/244

Steinunn Björnsdóttir, Fram 51/72

Sunna Jónsdóttir, ÍBV 94/78

Thea Imani Sturludóttir, Val 82/178

Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram 140/405

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson