Útflutningur Linda Björk segir að mikil vinna fari í það hjá eldisfyrirtækjum að koma ferskum fiski á markaði víða um heim og það sé þrælflókið.
Útflutningur Linda Björk segir að mikil vinna fari í það hjá eldisfyrirtækjum að koma ferskum fiski á markaði víða um heim og það sé þrælflókið. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Arnarlaxi, hélt erindi í síðustu viku á Sjávarútvegsráðstefnunni, þar sem hún fór yfir hvernig laxaafurðir eru sendar til viðskiptavina. „Mikil vinna hjá eldisfyrirtækjum fer í að…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Arnarlaxi, hélt erindi í síðustu viku á Sjávarútvegsráðstefnunni, þar sem hún fór yfir hvernig laxaafurðir eru sendar til viðskiptavina.

„Mikil vinna hjá eldisfyrirtækjum fer í að koma fiskinum til viðskiptavina; hvort það á að senda afurðina með flugi eða skipi. Það getur verið þrælflókið að skipuleggja flutninga hvort sem er á laxi eða ferskum fiski,“ segir Linda í samtali við Morgunblaðið.

Samkeppni við önnur ríki

Linda segir erindið hafa snúið að þeim spurningum sem hún hafi fengið í gegnum tíðina um hvernig best sé að haga útflutningi frá landinu.

„Þessi bransi er þannig að við erum í mikilli samkeppni við aðrar þjóðir eins og Noreg og Skotland. Þess vegna verðum við að nýta allar þær flutningsleiðir sem eru í boði frá Íslandi. Til að mynda notum við siglingar Eimskips til Bandaríkjanna, sem gefur okkur samkeppnisforskot á Noreg þar sem einfaldlega er styttra að sigla frá Íslandi,“ útskýrir Linda.

Hún segir að skoða verði flutningstímann út frá því hver hillutími (e. shelf life) fisksins er. Iðulega taki sjö daga að sigla með fiskinn til Ameríku frá Íslandi og hillutíminn á afurðinni er 24 dagar.

„Það þýðir að þegar búið er að flytja fiskinn út er enn nægur tími eftir af hillutímanum fyrir viðskiptavini okkar til að selja fiskinn á markaði í Bandaríkjunum og fiskurinn er í frábæru standi allan tímann. Þarna höfum við samkeppnisforskot á Norðmenn, þar sem ódýrara er að flytja fisk sjóleiðina en með flugi,“ útskýrir Linda.

Nota allar leiðir frá landinu

Hún segir ákjósanlegt ef Íslendingar gætu bara notað flutningsskip til þess að flytja út vörur en málið sé ekki svo einfalt.

„Við verðum líka að sinna mörkuðum á vesturströnd Bandaríkjanna og það gerum við bara með flugi. Asía er líka orðin mjög stór markaður af okkar flutningum og flug er í raun eini raunhæfi kosturinn til að koma vörum okkar þangað,“ segir Linda.

Aðspurð segir hún að flutningskostnaður hafi allt að segja með samkeppnishæfni og framlegð hjá fyrirtækjum.

„Ég er búin að starfa lengi í flutningabransanum og kom að stofnun Smyril Line sem hóf siglingar frá Þorlákshöfn. Það var gert til þess að búa til fleiri leiðir fyrir ferskar vörur frá landinu. Við erum með 90 sendingar á viku og það gefur því augaleið að við verðum að nota allar þær flutningslausnir sem eru í boði,“ útskýrir Linda.

Hún hrósar flutningafélögunum á Íslandi og segir þau framúrskarandi í að finna lausnir, hvort heldur sem er með skipi eða flugi.

„Það sem skiptir öllu máli í þessu samhengi er flutningsverð og flutningshraðinn. Nú á dögum standa til boða margar fjölbreyttar leiðir. Við erum að nota flug með Icelandair og notum einnig flutningsmiðlara, bæði innlenda og erlenda, til þess að koma vörum okkar með flugi á markaði. Við erum sífellt að leita leiða til að koma vörum okkar á markaði með sem hagkvæmustum hætti og á réttum tíma, sem skiptir öllu máli í þessum geira,“ segir Linda að lokum.