Ekkert lát er á borgarastyrjöldinni í Súdan og hefur ástandið þar farið hríðversnandi undanfarnar tvær vikur að sögn Sameinuðu þjóðanna. Hafa bardagar farið mjög harðnandi, en auk þess hafa borist tilkynningar um árásir á óbreytta borgara, sem og kynferðisofbeldi gegn konum og stúlkum í landinu.
Rosemary DiCarlo, varaframkvæmdastjóri SÞ í pólitískum og friðarmálum, sagði í gær að síðustu vikurnar hefðu að mörgu leyti verið þær verstu í Súdan frá því að borgarastríðið braust út í apríl 2023.
DiCarlo sagði að báðar fylkingar í landinu, annars vegar súdanski stjórnarherinn og hins vegar hinar svonefndu RSF-hraðsveitir, bæru ábyrgðina á þeim ofbeldisverkum sem framin hefðu verið á þessum tíma. Þá sagði hún að báðir aðilar virtust vissir um að þeir gætu knúið fram sigur í stríðinu á vígvellinum.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að í Al-Jazira-héraði landsins hafi að minnsta kosti 124 óbreyttir borgarar týnt lífi í átökunum, og um 135.000 manns hafa flúið héraðið til annarra héraða Súdans. Áætlað er að um 11 milljónir manna séu þegar á vergangi vegna stríðsins.
Þeir sem AFP-fréttastofan hefur rætt við vegna ástandsins segja að ekkert vopnahlé eða aðrar pólitískar lausnir séu í sjónmáli, þar sem hinar stríðandi fylkingar hafi engan áhuga á þeim. Þess í stað settu fylkingarnar alla sína orku í að halda átökunum áfram.
Þá saka báðir aðilar hinn um að þiggja stuðning frá erlendum ríkjum til þess að halda átökunum áfram, og hefur Bandaríkjastjórn hvatt önnur ríki til þess að selja ekki vopn til landsins. Þannig hefur stjórnarherinn sakað RSF-sveitirnar um að þiggja stuðning frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, á sama tíma og stjórnarherinn er sakaður um að hafa þegið hergögn frá Egyptalandi.