Unnur Long Thorarensen fæddist í Reykjavík 24. janúar 1936. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 3. nóvember 2024.

Foreldrar hennar voru Þórir Long trésmiður, f. 2. júní 1907, d. 18. júní 1983, og Sigurlín Unnur Ármann Sigurðardóttir Long, f. 3. nóvember 1913, d. 27. desember 1998

Systkini: Erla Ingibjörg, f. 28. desember 1933; Jónína Sigrún, f. 3. mars 1937, d. 9. október 2018; Anna Birna, f. 10. júní 1938, d, 19. desember 2009; Einar, f. 2. september 1958.

Unnur giftist 27. nóvember 1958 Oddi C.S. Thorarensen lyfjafræðingi og apótekara í Laugavegs apóteki, f. 26. apríl 1925, d. 20. desember 2011.

Börn þeirra eru: 1) Ragnheiður Katrín, f. 10. mars 1959, maki Ragnar Heiðar Kristinsson, d. 18.8. 2011. 2) Elín, f. 10. apríl 1964, maki Úlfar Örn Friðriksson, synir þeirra eru Jóhann Oddur og Unnar Bjarni, maki Carli Anne. 3) Unnur Alma, f. 1. maí 1969, maki Sindri Sveinbjörnsson (skilin), synir þeirra eru Steinar og Ragnar. Fyrir átti Unnur soninn Þóri Long, f. 3. mars 1955, d. 30.7. 1973, barnsfaðir hennar var Leifur Steinar Halldórsson, f. 15. febrúar 1934, d. 9. febrúar 2011. Dóttir Þóris er Þórunn Hildur.

Stjúpsynir Unnar eru Stefán, f. 21.2. 1952, maki Ástríður Thorarensen og Baldvin Hafsteinn, f. 9.5. 1953, maki Ásta Michaelsdóttir, þeir eiga sjö börn og barnabörnin eru 14.

Unnur ólst upp í Reykjavík og bjó lengst af í Laugarneshverfinu eftir að fjölskyldan þurfti að rýma húsnæði sitt á Hörpugötu árið 1940 vegna byggingar Reykjavíkurflugvallar. Hún gekk í Laugarnesskóla og kláraði unglingapróf frá Skógaskóla 1952. Unnur vann á sumrin sem barnfóstra og vinnukona í sveit frá níu ára aldri, bæði í Fljótshlíð á Suðurlandi og í Ísafjarðardjúpi. Hún var mikil íþróttakona á sínum yngri árum og æfði fimleika, sund og frjálsar hjá íþróttafélaginu Ármanni.

Unnur vann lengst af við verslunarstörf og byrjaði að vinna í verslun strax eftir unglingapróf þótt hana langaði að mennta sig meira, en aðstæður leyfðu það ekki. Hún vann fyrst í Bókabúð Norðra í Hafnarstræti en flutti sig fljótlega í Bækur og ritföng á Laugavegi 100. Síðar vann hún í vefnaðarvöruversluninni Jacobsen í Austurstræti. Unnur sinnti húsmóðurstörfum og barnauppeldi í nokkur ár eftir að hún giftist Oddi en árið 1975 hóf hún störf í Laugavegs Apóteki þar sem hún sá um rekstur snyrtivörudeildarinnar í fjölmörg ár eða þar til apótekið var selt í febrúar 1997.

Útför Unnar fer fram frá Garðakirkju í dag, 14. nóvember 2024, og hefst athöfnin kl. 15.

Hlekk á streymi má nálgast á https://mbl.is/andlat/

Elsku mamma, nú er komið að kveðjustund. Þótt aldurinn færðist yfir barstu hann svo vel að eftir því var tekið og enginn trúði að þú værir komin hátt á níræðisaldur. Þú varst alla tíð glæsileg kona og mikil skvísa og hvar sem við komum, alveg þar til undir það síðasta, var viðkvæðið ætíð: „Mikið er móðir þín falleg, glæsileg og yndisleg kona.“ Þú kvaddir með stæl eins og þinn var siður, lagðist óvænt inn á spítala með smá krankleika og kvaddir okkur sátt aðeins 13 dögum síðar. Fram á síðustu stund varstu að spyrja hvernig aðrir hefðu það og hafa áhyggjur af heilsu þinna nánustu, alltaf svo umhugað um aðra.

Ég er svo þakklát fyrir öll árin sem við fengum með þér og að ósk þín um að geta búið ein og séð um þig sjálf þar til þú yfirgæfir þessa jarðvist rættist. Andlegur styrkur þinn er þú lærbrotnaðir í hitteðfyrra, kraftur og ákveðni í að komast aftur á fætur var aðdáunarverð og mjög lýsandi fyrir þrautseigju þína, ákveðni og þrjósku sem oft kom þér vel í lífinu, sem var ekki alltaf dans á rósum.

Það er gott að eiga margar minningar frá ljúfum samverustundum í gegnum árin um hátíðir, á tyllidögum eða bara í sófanum heima. Símtöl yfir hafið um allt milli himins og jarðar voru líka ófá og gefandi enda fylgdist þú vel með öllum og öllu og hafðir svo mikinn áhuga á samfélagsmálum og stjórnmálum bæði hér heima og erlendis. Gott er að hugsa til baka til allra ferðalaganna sem við fórum í saman í gegnum árin bæði innanlands og erlendis. Vikurnar sem við áttum saman á Kanarí síðustu ár eftir að pabbi kvaddi okkur gáfu einnig fjölmargar góðar minningar um notalega sólardaga og ljúft líf. Gæðastundir uppi í sumarbústað eru mér og strákunum minnisstæðar, þér leið alltaf svo vel þar og fannst gott að láta stjana smá við þig og fá góða steik. Þér þótti svo vænt um strákana okkar Úlla og tókst svo vel á móti Carli er hún kom inn í líf okkar, þau munu sakna þín mjög mikið. Jólin í ár verða tómleg án þín, elsku mamma.

Er lít ég yfir liðin ár

mér ljóst í hjarta skín,

þú þerraðir, móðir, trega tár

og traust var höndin þín.

Þú gafst mér allt, sem áttir þú

af ástúð, von og trú.

Og því er nafn þitt, móðir mín,

í mínum huga nú.

Þú leiddir mig, sem lítið barn

og léttir hverja þraut.

Við blómskreytt tún og hrímhvítt hjarn

ég hjá þér ástar naut.

Nú þegar lífs þíns lokast brá

frá langri ævi stund.

Er gott að hvílast Guði hjá

og ganga á Drottins fund.

(Einar Steinþórsson)

Þín dóttir,

Elín (Ellý).

Elsku mamma mín. Mikið á ég eftir að sakna þess að fá að koma í hlýja yndislega faðminn þinn og sjá yndislega bjarta brosið þitt. Minningarnar hrannast upp þegar hugurinn reikar til baka: þú í eldhúsinu í Blikanesi að kenna mér að gera ommelettur, á ferköntuðu pönnunni sem var sett ofan á rafmagnshellu. Ommelettur eins og við fengum okkur alltaf á Spáni. Þú að sýna mér hvernig á að gera bestu brauðsneið í heimi, með þykkum sneiðum af Camembert-osti og svo sólberjasultu ofan á. Þú standandi á bak við glerafgreiðsluborðin í snyrtivörudeildinni í Laugavegs Apóteki, að leggja mér lífslexíurnar: alltaf að vera kurteis við kúnnann, alltaf hjálpsöm, alltaf brosa, og alltaf byrja á því að heilsa fólki á íslensku. Stundum þurfti ég nú að hlaupa á bak við og öskra inni í fataskáp eftir erfiða kúnna, með alla varaliti regnbogans upp eftir handleggnum öðrum megin og límbönd með naglalakkslitum hinum megin og svo keypti fólk ekkert. En þú brostir bara: „Hún kaupir eitthvað næst.“ Og það stóðst nefnilega oft. Sjarminn þinn og meðfæddu sölumennskuhæfileikarnir gerðu það einmitt að verkum að við áttum stóran hóp fastakúnna sem nutu þess að koma og láta glæsikvendi stjana við sig í smástund. Það var einmitt það sem fólk sagði svo oft við mig: Hún mamma þín, hún er svo glæsileg kona. Og hún var það, en hún var líka svo miklu miklu meira. Hún gat verið þrjósk, þver og skapstór og það er einmitt eitt af því sem bjargaði mér. Þegar ég fæddist með minn bæklaða hrygg voru skilaboðin frá læknunum skýr: ég myndi aldrei ganga, aldrei sitja upprétt og væri sennilega líka fáviti, eins og það var kallað þá. En þá kom upp þrjóskan í mömmu og hún neitaði að gefast upp. Hún gerði æfingar með mér á hverjum degi, enda vön íþróttakona. Hrein og bein ungbarnasjúkraþjálfun, nokkuð sem þekktist ekki á 6. áratugnum, ásamt ást, umhyggju og mikilli hvatningu. Dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Og litla ég styrktist og fór að sitja, ganga, hlaupa. Fór að eiga eðlilegt líf eins og hinir krakkarnir. Allt vegna mömmu. Án hennar væri ég líklega rúmliggjandi inni á einhverri stofnun og örugglega orðin snarklikkuð. Ég hef oft reynt að þakka þér fyrir þetta og þú verður alltaf jafn hissa. Þér fannst þetta svo sjálfsagt. Að berjast. Gefast ekki upp. Það er svo mikið þú, elsku mamma mín. Ég gæti örugglega skrifað heila bók með skemmtilegum og skrautlegum minningum af lífinu með þér, en þú værir nú ekki par hrifin af því held ég. Takk fyrir allt sem þú gafst mér og allt sem þú kenndir mér. Takk fyrir óendanlega ást og umhyggju elsku mamma mín. Bið að heilsa pabba.

Alma.

Elsku Unnur amma mín, það er svo sárt að vita til þess að þú sért farin frá okkur og skrýtið að hugsa til þess að ég muni ekki hitta þig aftur. Mér líður enn eins ég geti komið í heimsókn og fengið stórt faðmlag. Nærvera þín var alltaf svo góð og mér þykir verulega vænt um hversu mikinn kærleika þú sýndir mér alltaf.

Þú varst mér mikil fyrirmynd og ein sterkasta manneskja sem ég þekki. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir í gegnum árin kvartaðir þú aldrei og þú tókst á við síðustu áskorun lífsins með mikilli reisn, eins og þér einni var lagið.

Ég minnist þess þegar ég var lítill að þú hafðir einstaka hæfileika til að sjá hlutina með öðrum augum og þér fannst oft gaman að segja skemmtilegar sögur. Ég skildi ekkert hvernig þú gast vitað svona ótrúlega hluti en sögurnar vöktu alltaf jafn mikla kátínu hjá okkur fjölskyldunni.

Á þessari stundu er dýrmætt að hafa bæði átt margar góðar stundir með þér nýverið sem og í gegnum árin. Þú munt lifa áfram í minningum mínum og ég mun ávallt sakna þín!

Þinn besti,

Jóhann Oddur.