Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Bakvörður dagsins fékk bestu fréttir ársins á dögunum þegar honum var tjáð að hann væri á leiðinni til Spánar að fylgja íslenska karlalandsliðinu í fótbolta í nóvember. Spánn í nóvember hljómar mun betur en Ísland í nóvember.
Íslenska liðið hefur æft á Spáni undanfarna daga til að æfa við bestu mögulegu aðstæður fyrir leik liðsins gegn Svartfjallalandi ytra í Þjóðadeildinni á laugardaginn kemur.
Á glæsilegu hóteli íslenska liðsins í næsta bæ við Alicante er allt til alls; sundlaugar, nudd og golfvöllur. Ég skil vel hvers vegna landsliðsfyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson gifti sig á sama hóteli.
Bakvörður dagsins var ekki með hlý föt í huga þegar hann pakkaði í tösku fyrir ferðina. Stuttbuxur og léttir bolir ættu nú að duga á Spáni, er það ekki?
Annað kom á daginn og skalf bakvörður dagsins úr kulda allan tímann sem hann fékk að fylgjast með æfingu íslenska liðsins í gær. Það var þungskýjað, lágt hitastig og rigning (og þrumur og eldingar) á köflum.
Starfsfólk og jafnvel leikmenn hlógu aðeins að bakverði og hann átti það fyllilega skilið. Hann hefði sennilega hlegið að öðrum undir sömu kringumstæðum.
Ekki gefst mikill tími til að versla í vinnuferð sem þessari en hlý peysa er á innkaupalista bakvarðar. Hann flýgur til Svartfjallalands í dag og svo tekur við ferðalag til Wales eftir leikinn í Niksic í Svartfjallalandi.
Ef það er kalt á Spáni í nóvember verður væntanlega jólaveður í Wales í nóvember. Bakvörður fylgist betur með veðurspá fyrir næstu ferð.