Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Borgaryfirvöld hafa samþykkt að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Geirsnef. Gera á Geirsnef að borgargarði, útivistarsvæði með náttúrulegu yfirbragði.
Með þéttingu íbúðabyggða, bæði í Vogabyggð og í og við Ártúnshöfða, verði Geirsnef sífellt mikilvægara útivistarvæði fyrir íbúa.
Geirsnef varð fyrst til sem uppfylling á náttúrulegum óseyrum Elliðaár, að því er fram kemur í frjálsa alfræðiritinu Wikipediu. Uppfyllingin hófst í borgarstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar (1959-1972) og var hún nefnd eftir honum.
Nálægt Vogabyggð
Svæðið afmarkast af skipulagsmörkum í gildandi skipulagi í austri og suðri. Það er frá Elliðaám í austri og Vesturlandsvegi í suðri. Að skipulagsmörkum Vogabyggðar 5 í norðvestri og að skipulagsmörkum Vesturlandsvegar, Knarrarvogar og Vogabyggðar 3.
Meðal helstu viðfangsefna skipulagsins er að bæta nýtingu svæðisins með gróðursetningu, landmótun og skjólmyndun.
Skoða á möguleika á íþróttaafþreyingu á svæðinu og skilgreina gönguleiðir og hjólastíga. Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir að borgarlína þveri Geirsnef.
Afmarka skal lausagöngu-/æfingasvæði fyrir hunda, en hundaeigendur hafa um árabil komið með hunda sína á svæðið. Í greinargerð með deiliskipulagi, sem samþykkt var 1994, er Geirsnefi lýst sem þjálfunarsvæði fyrir hunda.
Unnin verður umhverfisskýrsla tillögunnar sem hluti af deiliskipulaginu. Skoðaðir verða umhverfisþættir eins og ásýnd, landnotkun, loftgæði, samfélag, mengun, ónæði, aðgengi, slysahætta og fleira.
Samkvæmt skipulagsferli á að kynna drög að deiliskipulagi í apríl 2025. Verða drögin send Skipulagsstofnun og fleiri aðilum til umsagnar. Sömuleiðis getur almenningur sent inn umsögn. Ef áætlanir ganga eftir á að staðfesta nýtt deiliskipulag í október 2025.