Stórfjölskyldan Á ferðalagi um England árið 2019 þegar Petrea og Kristinn urðu bæði sjötug og fögnuðu 50 ára brúðkaupsafmæli.
Stórfjölskyldan Á ferðalagi um England árið 2019 þegar Petrea og Kristinn urðu bæði sjötug og fögnuðu 50 ára brúðkaupsafmæli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Petrea Ingibjörg Jónsdóttir fæddist 14. nóvember 1949 á Grund á Akranesi, og ólst þar upp og að hluta til í Reykjavík. „Ég bjó í Leicester á Englandi 1969-1975 þar sem eiginmaður minn var við nám í textíltæknifræði

Petrea Ingibjörg Jónsdóttir fæddist 14. nóvember 1949 á Grund á Akranesi, og ólst þar upp og að hluta til í Reykjavík.

„Ég bjó í Leicester á Englandi 1969-1975 þar sem eiginmaður minn var við nám í textíltæknifræði. Árið 1975 fluttumst við á Vallarbraut 6 á Seltjarnarnesi og höfum búið í sama húsi síðan þrátt fyrir að hafa flust tvisvar þá innan hússins. Nú er það fjögurra kynslóða hús þar sem ásamt okkur hjónum býr Guðjón sonur okkar ásamt fjölskyldu í annarri íbúð og í þriðju íbúðinni Dagur sonur hans ásamt fjölskyldu.“

Petrea gekk í Barnaskóla Akraness til 11 ára aldurs og fór þá í Melaskóla og eitt ár í Hagaskóla og fór þaðan í Kvennaskólann í Reykjavík. „Það var mikið gæfuspor. Eftir kvennaskólapróf fór ég til Englands í einkaritaraskóla St. Godrics og lærði þar m.a. hraðritun á ensku og aðra skrifstofutækni.“

Petrea hefur lengst af stundað skrifstofustörf. Hún vann í rúm 37 ár hjá Sjálfstæðisflokknum og síðustu árin var hún skrifstofustjóri.

„Tíu ára vann ég við að slíta humar hjá Heimaskaga hf. og vann þar síðan nokkur sumur í fiskvinnslu og eitt sumar á skrifstofu. Ég var einnig í sumarvinnu hjá Umferðarráði. Ég vann í kjörbúð SS á Akranesi og á skrifstofu Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi. Í Leicester vann ég hjá Robert Rowley ltd. sem einkaritari 1972-1975.“

Petrea var bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi 1990-1998 og formaður íþrótta- og tómstundaráðs 1986-1998. Hún var formaður slysavarnadeildarinnar Vörðunnar um árabil, hún sat einnig í stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sat í fyrstu stjórn Hjúkrunarheimilisins Eirar og er í fulltrúaráði þar. Hún tók þátt í stofnun Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi og sat í stjórn í nokkur ár.

Árið 2018 var Petrea heiðruð af Landssambandi sjálfstæðiskvenna fyrir störf sín hjá Flokknum. „Mér var afhent falleg bók, „Takk Peta“, sem innihélt skilaboð og falleg ummæli til mín frá flokksfélögum um allt land.“

Petrea fékk gullmerki Gróttu fyrir störf sín að íþróttamálum árið 1998 og árið 2023 fékk hún heiðursskjöld Slysavarnafélagsins Landsbjargar fyrir störf innan félagsins.

Petrea hefur mikinn áhuga á almennri útiveru og hreyfingu. „Ég reyni eftir bestu getu að stunda golf og þá á Nesvellinum. Ég er í tveimur gönguhópum, „19. júní“ og „Sjáum til“. Sá fyrri einskorðast við gönguleiðir á Snæfellsnesi og meðlimir hans eru eingöngu konur. Sá síðari er fyrir bæði kyn og hefur gengið í öllum landsfjórðungum. Við gengum eitt árið frá Hornbjargi suður í Bolungavík, sem var einstök upplifun.

Ég hef mikinn áhuga á íþróttum og er mikill stuðningsmaður Manchester United og Leicester City í ensku knattspyrnunni og ÍA hér heima og þeirra félaga sem barnabörnin keppa fyrir hverju sinni. Ég prjóna mikið og þá helst vettlinga. Ég fékk prjónabók með 25 uppskriftum að vettlingum í jólagjöf og stefni að því að klára að prjóna þá alla fyrir áramót.

Við sem fædd erum 1949 á Akranesi teljum okkur besta árgang síðustu aldar og höfum hannað okkar eigin logo, „Top49“. Við vorum tvö í hópnum fædd 14. nóvember, hinn var Arnór Pétursson sem var um tíð formaður Íþróttafélags fatlaðra en hann lést 2011.“

Fjölskylda

Eiginmaður Petreu er Kristinn Guðmundsson, f. 21.4. 1949, textíltæknifræðingur. „Við giftum okkur 19. september 1969 í Akraneskirkju.“

Foreldrar Kristins voru Rafnhildur Katrín Árnadótir, húsfreyja og verkakona, f. 18.11. 1924 d. 3.9. 2015, og Guðmundur Árni Guðjónsson verkstjóri, 9.8. 1921, d. 3.7. 2007. Þau bjuggu á Bergi á Akranesi. „Eftir að þau hættu launaðri vinnu ræktuðu þau átta hektara gróðurreit í Klapparholti á Akranesi sem þau afhentu Akranesbæ eftir sinn dag.“

Börn Petreu og Kristins eru: 1) Guðjón, f. 24.5. 1970 á Akranesi, sölu- og þjónusturáðgjafi og knattspyrnuþjálfari hjá KR. Býr á Seltjarnarnesi. Maki: Þóra Guðný Ægisdóttir ljósmóðir; 2) Jón Árni, f. 15.1. 1975 í Leicester, menningariðnaðarmaður. Býr í Smørum, Danmörku. Maki: Emma Magdalena Svensson hjúkrunarfræðingur; 3) Ingibjörg, f. 9.6. 1978 á Akranesi, sjálfstætt starfandi þjónustuhönnuður. Býr í Tullinge, Svíþjóð. Maki: Elvío Coletinha verkefnastjóri.

Barnabörn eru Karen Guðjónsdóttir, f. 1993; Agnar Guðjónsson, f. 1997; Dagur Guðjónsson, f. 1997; Ragnheiður Ingibjörg Guðjóndóttir, f. 2011; Snæfríður Jónsdóttir, f. 2006, Hekla Jónsdóttir, f. 2010; Ívar Svensson Jónsson, f. 2020; Franklín Andrésson, f. 2006, og Róbert Andrésson, f. 2009. Barnabarnabarn er Ísak Breki Dagsson, f. 2024.

Systkini Petreu: Emilía, f. 3.2. 1934, d. 3.8. 2017, skrifstofumaður, bjó á Akranesi; Þorsteinn, f. 24.9. 1937, d. 26.9. 2019, framkvæmdastjóri, bjó á Akranesi, og Margrét, f. 11.6. 1945, fótaaðgerðarfræðingur, býr í Reykjavík.

Foreldrar Petreu voru Jón Ágúst Árnason alþingismaður, f. 15.1. 1909, d. 23.7. 1977, og Ragnheiður Þórðardóttir húsmóðir, f. 22.8. 1913, d. 20.5. 2002. Þau bjuggu allan sinn búskap á Grund á Akranesi.