Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Vatnslitafélag Íslands er ótrúlega skemmtilegt samfélag og það er ákveðinn hópur hérna á höfuðborgarsvæðinu sem hittist vikulega yfir vetrartímann og málar saman,“ segir Anna Ólafsdóttir Björnsson, ein 45 listamanna sem sýna 62 listaverk á sýningunni Árstíðir sem hefst í dag í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi og stendur til 7. desember nk.
Félagið var stofnað fyrir rúmlega fimm árum og þetta er sjötta árssýning félagsins og þemað í ár er árstíðir. Félagsmenn eru út um allt land og hægt er að senda inn 1-3 myndir á þessa stærstu sýningu ársins, þar sem dómnefnd skipuð valinkunnum listamönnum, íslenskum og erlendum, velur verkin á sýninguna.
Ljóð og vatnslitir
Allir félagsmenn hafa síðan tækifæri til að sýna verk sín, því stundum eru smærri „pop-up“-sýningar haldnar. Þá er boðið upp á námskeið kennara á heimsmælikvarða á hverju ári.
„Ég hef sjálf verið í ýmsum listamannahópum, en andinn hérna er alveg einstakur. Ég var að lesa nýjustu bók rithöfundarins Salmans Rushdie þar sem hann lýsir heiminum í kringum konuna sína, sem er ljóðskáld. Þessar lýsingar voru eitthvað svo kunnuglegar og hann talaði um að í samanburði við samfélag rithöfunda væri samfélag ljóðskálda miklu nánari heimur – alveg einstakt samfélag. Þessi lýsing fannst mér eiga svo vel við vatnslitasamfélagið að ég póstaði þessu á Facebook-síðu hópsins og það voru sko fleiri sem könnuðust við þetta, einkum fólk sem hefur verið í öðrum myndlistargeirum.“
Í félaginu er fólk með alls konar bakgrunn. „Það er mikil breidd í hópnum, bæði fólk sem hefur starfað við myndlist alla ævi og aðrir sem koma úr öðrum listgreinum. Svo höfum við verið að fá eina og eina manneskju inn með minni bakgrunn í myndlist og það fólk hefur alveg verið að blómstra.“
Tónninn er óútreiknanlegur
Anna segist sjálf hafa fengist við myndlist alla ævi en misákaft þó, og meira í annars konar myndlist. „Vatnsliturinn var alltaf mikil ögrun, en þegar ég gekk í Vatnslitafélagið sogaðist ég alveg inn í þetta samfélag og hef verið mjög virk síðan, enda félagsskapurinn svo skemmtilegur,“ segir Anna og bætir við að félagsmenn hafi einnig tekið þátt í samsýningum erlendis og þar sé líka þessi samheldni eins og hér.
„Tónninn í vatnslitunum er óstýrilátur og óútreiknanlegur að það er alltaf upphaf á ákveðnu ævintýri að byrja á nýrri mynd. Stundum fer myndin í þá átt sem þú átt von á, en af því að þú ert að vinna með vatn og lit og ýmis blæbrigði þá þarf maður stundum að vera opinn fyrir því sem gerist í vinnslunni og vinna með það hvert vatnsliturinn leiðir þig.“