Athygli vekur hve hratt Samfylkingin hleypur þessa dagana frá þeim sjónarmiðum sem formaður hennar og frambjóðendur hafa kynnt til þessa um áformaðar tekjuskattshækkanir. Í hlaðvarpi í ágúst, áður en boðað var til kosninga, sagði Kristrún Frostadóttir formaður að litlu skattstofnarnir dygðu ekki til að stoppa upp í gatið sem útgjaldaáform flokksins sköpuðu. Hún sagði að horfa þyrfti til stóru skattstofnanna og nefndi tekjuskattinn sérstaklega í því sambandi.
Á sömu nótum talaði frambjóðandi flokksins og formaður framkvæmdastjórnar, Guðmundur Ari Sigurjónsson, sem sagðist ítrekað hafa lagt til hækkun útsvars á Seltjarnarnesi, þar sem hann situr í bæjarstjórn, og að hann sæi engan mun á því og tekjuskattinum til ríkisins.
Síðan hefur komið fram hjá oddvitanum Jóhanni Páli Jóhannssyni að það væru röng skilaboð inn í kosningabaráttuna að boða hækkun tekjuskatts. Formaðurinn er nú bersýnilega orðinn sömu skoðunar en hefur þó ekki getað útskýrt hvernig eigi að stoppa í gatið án slíkrar hækkunar.
Þá reynir hún að útskýra að hún hafi ekki verið að lýsa yfir vilja til tekjuskattshækkunar áður, aðeins að hún geti ekki útilokað slíkt, ekki frekar en að hún geti útilokað eldgos! Hvers konar málflutningur er þetta hjá flokki sem telur sig eiga að leiða næstu ríkisstjórn?!