Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Áætlað er að 170 bein störf, auk fjölda afleiddra starfa, skapist verði magnesíumverksmiðja Njarðar Holding ehf. á Grundartanga að veruleika á næstu árum.
Stefán Ás Ingvarsson forstjóri Njarðar segir í samtali við Morgunblaðið að Grundartangi sé einn af þeim lóðarkostum sem verið sé að skoða innan Evrópu. Hann segir stofnun magnesíumframleiðslu á Íslandi vera skynsamlega ákvörðun og einstakt tækifæri fyrir land og þjóð. Stefnt er að fyrstu skóflustungu árið 2026.
Félagið hefur kynnt sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar og bæjarstjórn Akraness áformin.
Áætluð stærð verksmiðjunnar er 45 þúsund fermetrar og lóðin 58.600 fermetrar. Áætlaður uppbyggingarkostnaður er 200 milljónir evra, jafnvirði tæpra 30 milljarða íslenskra króna.
Starfar í Kaliforníu
Stefán segir reynslumikla aðila standa að verkefninu. Sjálfur er Stefán rafmagnsverkfræðingur með rannsóknaraðstöðu við Stanford-háskóla í Kaliforníu, þar sem hann býr og starfar.
Skandinavíska verkfræðistofan AFRY sér um hönnun en stofan hefur áratugareynslu í hönnun og ráðgjöf við uppbyggingu málmverksmiðja.
Silfurberg ehf. leiðir fjármögnun en innan fyrirtækisins er að sögn Stefáns mikil reynsla við uppbyggingu iðnfyrirtækja.