Sigurður Jakob Arnórsson fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1953. Hann lést á heimili sínu 1. nóvember 2024.
Foreldrar hans voru Jónína Einþórsdóttir, f. 4. júlí 1924, d. 2. febrúar 1990, og Arnór Kristján Sigurðsson, f. 3. júní 1923, d. 5. september 1993.
Systkini eru Guðni Þór, f. 11. apríl 1956, og Þorgerður, f. 25. október 1943.
Hinn 19. júlí 1980 kvæntist Sigurður Þóru Flygenring kennara, f. 10. apríl 1955. Hún er dóttir Guðbjargar Flygenring og Ágústar Flygenring sem bæði eru látin. Synir þeirra eru Guðmundur, f. 16. september 1982, og Arnór, f. 31. ágúst 1985.
Sigurður ólst upp í Hafnarfirði frá tveggja ára aldri og bjó þar síðan. Hann var í sveit á Mýrum í Skriðdal hjá afabróður sínum og fjölskyldu hans og var þar í mörg sumur. Sigurður gekk í Öldutúnsskóla, Reykholtsskóla í Borgarfirði og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla. Eftir það lauk hann námi frá Iðnskólanum í Hafnarfirði í vélvirkjun 1974 og rafvirkjun 1983.
Sigurður starfaði lengst af við rafvirkjun hjá Rafboða í Garðabæ og Ljósabergi í Hafnarfirði. Síðustu starfsárin hafði hann umsjón með björgunarskipum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.
Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. nóvember 2024, klukkan 13.
Elsku pabbi.
Nú ertu farinn frá okkur. Við þökkum þér fyrir öll árin sem við fengum með þér.
Takk fyrir allt það sem þú kenndir okkur, allt það stóra og smáa. Takk fyrir að hjálpa okkur í bílaviðgerðum þótt þú hafir stundum verið óþolandi vandvirkur og smámunasamur. Takk fyrir öll ferðalögin um landið okkar bæði í byggð og óbyggðum, í góðu veðri og vondu. Takk fyrir allar stundirnar í sumarbústaðnum, sem var þinn sælureitur.
Mannlífsins bratta bára
ber okkur milli skerja.
Víðfeðmar okkur velur
vegleiðir stundu hverja.
Markandi mannsins tíma
meitlandi spor í grundir,
mótandi margar götur
misjafnar ævistundir.
Lokið er vöku langri
liðinn er þessi dagur.
Morgunsins röðulroði
rennur upp nýr og fagur.
Miskunnarandinn mikli
metur þitt veganesti.
Breiðir út ferskan faðminn
fagnandi nýjum gesti.
Nú er vík milli vina
vermir minningin hlýja.
Allra leiðir að lokum
liggja um vegi nýja.
Við förum til fljótsins breiða
fetum þar sama veginn.
Þangað sem bróðir bíður
á bakkanum hinum megin.
(Hákon Aðalsteinsson)
Hvíl í friði elsku pabbi.
Guðmundur og Arnór.
Ég kveð Sigurð Arnórsson, mág minn, eða Siggi mág með hlýju og þakklæti. Hann kvaddi þennan heim skömmu fyrir sjötugasta og fyrsta afmælisdag sinn. Siggi kom inn í líf mitt þegar ég var unglingur og alla tíð síðan höfum við átt fallegt og gott samband. Ég var ekki komin með bílpróf þegar Siggi og Þóra systir mín bjuggu einn vetur á Kleppjárnsreykjum þar sem Þóra kenndi í grunnskólanum og Siggi vann við bifreiðasmíði. Það var ævintýri fyrir mig að fara með rútunni í Borgarfjörðinn að heimsækja þau um helgar.
Það voru forréttindi að eiga Sigga að og bý ég að fjölmörgum minningum um skemmtilegar samverustundir. Siggi var var frábær fagmaður bæði á járn og rafmagn. Hann lærði vélvirkjun og bætti svo við sig löggildingu í rafvirkjun og vann lengst af við það hjá Rafboða í Garðabæ. Hann var afar bóngóður og vandvirkur og ég held að skemmtilegast hafi honum fundist ef flækjurnar á vandamálinu voru svolítið snúnar.
Sumarbústaðurinn á Syðri-Reykjum var griðastaður þeirra Þóru og Sigga og þar undu þau sér afar vel. Siggi vildi hafa allt upp á tíu innan sem utan bústaðarins og alltaf var hann annaðhvort að mála eða laga eitthvað og svo var heiti potturinn óspart notaður.
Margar skemmtilegar útilegur fórum við Gulli minn og krakkarnir með þeim Þóru, Sigga, Guðmundi og Arnóri. Oft var ákvörðun tekin um hvort fara ætti austur eða norður á bensínstöðinni á Ártúnsholti, þá var hlustað á veðurfréttir og ákvörðun tekin út frá því, hvernig veðrið myndi vera næstu daga.
Svo var góða veðrið elt um landið, stundum farið inn á hálendið eða haldið sig við fáfarnar slóðir. Ekki þótti verra að tjalda við fallegt fjallavatn eða lygna á þar sem renna mætti fyrir fisk, en aflinn var ekki aðalatriðið heldur útiveran og samveran.
Ekki má heldur gleyma uppáhaldinu hans Sigga, en það var að hlusta á framhaldssöguna um Góða dátann Svejk í þessum ferðum oftar en einu sinni og bæði fullorðnir og börn höfðu gaman af.
Blessuð sé minning Sigga mágs míns, sem við fjölskyldan minnumst með hlýju og þökkum fyrir góðar samverustundir.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem)
Unnur Flygenring.
Sem samtíðarmaður Guðmundar sonar Sigurðar frá níu ára aldri í skátunum hef ég lengi kannast við Sigurð Arnórsson. Við Guðmundur byrjuðum um aldamótin síðustu í Björgunarsveit Hafnarfjarðar sem þá varð til úr Hjálparsveit skáta og Björgunarsveitinni Fiskakletti og höfum starfað þar síðan. Guðmundur fetaði þar í fótspor föður síns sem hafði starfað um langt árabil í Hjálparsveit skáta.
Björgunarsveitin keypti síðar gamalt björgunarskip frá Bretlandi sem félagar komu í stand í sjálfboðavinnu. Það er mikil vinna að viðhalda slíku skipi og vantaði á það vélstjóra sem leitað var að. Það varð gæfa okkar félaganna að Sigurður kom þá aftur til starfa og aldrei kallaður annað en Siggi Arnórs. Með fjölþætta menntun og reynslu, m.a. af nýsmíðum og viðhaldi skipa, kom Siggi sterkur inn. Hann náði að halda þessu allt of gamla skipi í nánast óaðfinnanlegu standi og útliti og hélt áfram að bæta það á meðan það var í okkar umsjá.
Þegar Slysavarnafélagið Landsbjörg fékk sérfræðing frá Konunglegu bresku sjóbjörgunarsamtökunum til að taka út ástand á öllum björgunarskipum á landinu skaraði skip sveitarinnar langt fram úr öðrum. Það er ekki vafi á því að þar vó þyngst handbragð og þekking Sigga.
Siggi Arnórs hikaði ekki við að brýna menn til góðrar sjómennsku og umgengni enda held ég að það hafi verið þögult samkomulag um að þetta væri skipið hans Sigga þótt við hin fengjum góðfúslegt leyfi til að sigla því. Verandi aldursforsetinn í hópnum kom hann með mikla reynslu en náði samt að vera góður félagi og jafningi þeirra sem yngri og óreyndari voru.
Ég og félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar þökkum Sigurði Arnórssyni kærlega fyrir samfylgdina og sendum innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.
Kolbeinn Guðmundsson.