Steinn Leó Sveinsson fæddist í Reykjavík 1. júlí 1957. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 30. október 2024.

Foreldrar Steins voru Sveinn Steinsson, f. 8. sept. 1929, d. 21. maí 2021, og Pálína Anna Jörgensen, f. 9. sept. 1935, d. 5. apríl 2015.

Eftirlifandi systur hans eru Erla Hrönn, f. 1955, og Birgitta Sveinsdóttir, f. 1968, gift Stefáni G. Indriðasyni.

Fyrri eiginkona Steins er Ágústa Sigurðardóttir, f. 7. maí 1961, þau skildu. Börn Steins og Ágústu eru: 1) Sigríður Halla, f. 29. mars 1980. Eiginmaður hennar er Gunnlaugur M. Sigurðsson, börn þeirra eru Jökull Logi, Freyja Ísold og Katla Katrín. 2) Íris Dröfn, f. 19. sept. 1981. Sambýlismaður hennar er Guðni P. Sigurjónsson, börn þeirra eru Hildur María, Sölvi Steinn og Haukur Hrafn. 3) Sveinn, f. 26. feb. 1987. Barnsmóðir Hafdís G. Þórsdóttir, dóttir þeirra er Alexandra Ósk. Eiginkona Sveins er Vanessa Magnúsdóttir, dóttir þeirra er Marta María Alexandre.

Steinn giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Dís Kristjánsdóttur, f. 17. sept. 1973, þann 7. sept. 2013. Börn þeirra eru Ragnheiður Anna og Kristján Leó, fædd 29. júní 2009.

Steinn Leó ólst upp á Sólheimum í Grímsnesi fyrstu ár ævi sinnar. Hann fluttist svo að Geitagerði í Skagafirði ásamt foreldrum sínum og bjó þar til fullorðinsára.

Steinn stundaði nám við Vélskóla Íslands og lauk 2. stigi í vélstjórn árið 1979. Árið 1986 fluttist Steinn með fjölskyldu sinni til Horsens í Danmörku þar sem hann stundaði nám í byggingartæknifræði. Hann útskrifaðist frá Ingeniørhøjskolen Horsens Teknikum árið 1990.

Að loknu námi starfaði Steinn hjá Vegagerðinni á Ísafirði og í Reykjavík. Steinn var búsettur í Sisimiut á Grænlandi á árunum 1996 til 1999. Þar starfaði hann fyrir Permagreen Konsortiet og stýrði þar byggingu flugvallar og vegagerð. Hann fluttist aftur til Íslands árið 1999 og starfaði hjá Vegagerðinni í Reykjavík til ársins 2001. Þá hóf Steinn störf hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða og var það vinnustaður hans í tæp 20 ár. Fyrst sem verkefnastjóri en árið 2012 tók hann við sem framkvæmdastjóri og sinnti hann því starfi til ársins 2020. Steinn fluttist þá í Skagafjörð og hóf störf sem sviðsstjóri veitu og framkvæmdasviðs hjá sveitarfélagi Skagafjarðar þar sem hann starfaði til æviloka.

Steinn var mikill fjölskyldumaður og naut þess að eyða tíma með fólkinu sínu. Hann var mjög tónelskur og spilaði á gítar og bassa hvenær sem færi gafst. Hann var í ýmsum hljómsveitum sem ungur maður og tók upp tónlistariðkun á ný eftir flutninga í Skagafjörð og veitti það honum mikla ánægju. Steinn var mikill náttúruunnandi og leið hvergi betur en uppi á fjalli eða á traktor úti á túni þar sem hann gat sameinað ástríðu sína fyrir vinnu og náttúru.

Steinn var ákaflega farsæll í lífi sínu og störfum og er sárt saknað af fjölskyldu, vinum og samferðamönnum.

Útförin fer fram í Fossvogskirkju í dag, 14. nóvember 2024, klukkan 15. Streymt verður frá útförinn og má nálgast hlekk á streymi á
http://mbl.is/andlat/

Elsku besti pabbi minn, nú ertu kominn í sumarlandið til ömmu og afa langt fyrir aldur fram. Það er svo óskaplega erfitt að kveðja þig og manni finnst lífið bara svo ósanngjarnt. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa átt svona góðan pabba þegar ég var að alast upp. Margar minningar af þér að lesa fyrir okkur íslenskar bækur fyrir svefninn þegar við bjuggum í Danmörku, þú að spila fyrir okkur á gítar og kenna okkur öll gömlu íslensku lögin. Það voru ekki margir átta ára krakkar sem kunnu texta eins og „Konan sem kyndir ofninn minn“ eða „Slysaskot í Palestínu“ en þetta kenndir þú okkur enda fannst þér fátt skemmtilegra en að syngja og spila á gítar. Þú kenndir okkur bænirnar og útskýrðir fyrir okkur hvað hver og ein setning þýddi og hafðir endalausa þolinmæði til að aðstoða okkur og kenna okkur þegar við ekki skildum. Þú hafðir óbilandi trú á okkur systkinum og lést okkur trúa því að við gætum gert hvað sem okkur langaði til í lífinu. Það hefur komið okkur langt enda áttum við góða fyrirmynd sem aldrei gafst upp og var með óendanlega þrautseigju. Minningarnar frá tímanum þegar þú komst að heimsækja mig og mína fjölskyldu til Nýja-Sjálands eru nú ómetanlegar. Börnunum mínum fannst svo yndislegt að fá að sýna þér skólana sína og landið sem við búum í. Þú naust þín í fjallgöngum í góða veðrinu og varst ótrúlega ánægður með þig að hafa komist á toppinn.

Það verður erfitt að aðlagast lífinu án þín elsku pabbi. Í hvern hringjum við nú þegar bíllinn bilar eða ef við erum með spurningar um öll heimsins vandamál? Þú varst jú maðurinn sem virtist vita allt um allt og þurfum við nú að fara að finna út úr lífinu sjálf. Ég er óendanlega þakklát fyrir tímann okkar saman síðastliðið ár eftir að þú veiktist. Við náðum að fara til Danmerkur saman, eyða tíma saman í bústað og svo þær ótal heimsóknir á Landspítalann þar sem við gátum spjallað um allt mögulegt. Þetta eru minningar sem eru mér svo dýrmætar í dag og verða um ókomna framtíð.

Við munum passa upp á Ragnheiði og Kristján sem eru að missa pabba sinn allt of ung og munum styðja við þau eins og við best getum. Þín verður sárt saknað elsku pabbi, bið að heilsa ömmu og afa.

Þín

Halla.

Orðin sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa um þig elsku pabbi eru hlýja, umhyggjusemi, tónlist og gleði. Frá því ég man eftir mér hef ég verið pabbastelpa, þegar ég var yngri fannst mér hvergi betra að vera en sitjandi í fanginu á þér eða að skríða upp í holuna til þín þegar ég fékk martraðir. Þú varst svo hlýr og góður og fangið stóð alltaf opið ef ég þurfti á því að halda. Eftir því sem ég varð eldri þá hætti ég nú að skríða upp í en pabbaknús voru áfram þau bestu. Ég mun sakna þess að geta ekki hringt í þig til að spjalla eða fá ráð. Ég mun sakna þess að kíkja norður í heimsókn og fara í skíðaferðir líkt og við höfum gert undanfarin ár og það sem ég mun sakna mest er að hitta þig og knúsa. Elsku besti pabbi minn, takk fyrir allt sem þú varst mér, nú hefur þú fengið friðinn eftir erfiða baráttu sem þú mættir af miklu æðruleysi. Þetta rúma ár sem við fengum saman eftir að þú veiktist gaf okkur svo dýrmætar samverustundir sem ég mun ávallt minnast með þakklæti og hlýju.

Þú kvaddir þegar blómin fóru að falla

og fölva haustsins sló á sumarskraut.

Þú hafðir gengið götu þína alla

og gæfu notið hér á lífsins braut.

Það syrtir að og söknuðurinn svíður,

hann svíður þó að dulin séu tár

en ævin okkar eins og lækur líður

til lífsins bak við jarðnesk æviár.

Og tregablandin hinsta kveðjan hljómar

svo hrygg við erum því við söknum þín,

í hugum okkar stjarna lífs þíns ljómar,

sem ljós á vegi í brjóstum okkar skín.

Við biðjum að þér ljóssins englar lýsi

og leiði þig hin kærleiksríka hönd

í nýjum heimi æ þér vörður vísi,

sem vitar inn í himnesk sólarlönd.

Þér sendum bænir upp í hærri heima

og hjartans þakkir öll við færum þér.

Við sálu þína biðjum guð að geyma,

þín göfga minning okkur heilög er

(Guðrún Elísabet Vormsdóttir)

Knús og þar til við sjáumst næst,

Íris, Guðni, Hildur, Sölvi
og Haukur Hrafn.

Ég sit hér heima og er að fara í gegnum allar okkar minningar. Þær eru svo ótal margar og erfitt að velja úr. Það sem situr eftir í kollinum á mér er hversu heppinn ég er að eiga hjálpsaman og ástríkan föður.

Þú hefur alltaf hjálpað mér með allar mínar stóru hugmyndir. Allt frá framkvæmdum heima, hjálp með stærðfræðina eða þegar ég hef þurft að taka stórar ákvarðanir í mínu lífi. Ég hef alltaf getað hringt í þig og fengið þau svör sem ég leitaði að, jafnvel þótt ég vissi svarið en til að vera alveg viss.

Ég hef oft skammað þig fyrir að eyða of miklum tíma í vinnunni, fyrir að vera aldrei heima eða gera þig ómissandi í starfi en þegar ég lít í eigin barm þá erum við ekki svo ólíkir.

Ég er mjög stoltur af þeim eiginleikum sem ég erfði frá þér og hafa þeir komið mér á þann stað sem ég er í dag.

Ég er ekki viss um að ég eigi nokkurn tímann eftir að átta mig á því að þú sért farinn og að þú sért ekki lengur til staðar.

Takk fyrir að gefa mér gítargenin, vinnusemina þína og reynsluna í að flytja búslóðir. Takk fyrir að halda í höndina á mér jafnvel þótt mér fyndist það hallærislegt og pínlegt. Takk fyrir alla hlýjuna sem þú gafst mér og fyrir að vera steinninn í lífi mínu.

Ég get ekki kvatt þig. Farðu vel með þig og heyrumst seinna.

Sveinn Steinsson.

Elsku Steini, tengdapabbi minn.

Það er þungbær raunveruleikinn að þú sért farinn. Allar fallegu minningarnar ylja þó og lifa í hjarta mínu og okkar áfram.

Leiðir okkar lágu fyrst saman á haustmánuðum 1996 en þá var ég nýorðinn 18 ára og hafði verið boðið í mat til að hitta foreldra unnustu minnar. Ég man að ég var stressaður og taugaóstyrkur þann dag er ég gekk upp tröppurnar í Kjarrhólmanum. Þegar inn var komið tókstu vel á móti mér, bauðst mig velkominn, varst góðlegur, brosandi og handtakið var þétt og traust. Hnúturinn í maganum minnkaði umtalsvert, ég fann að ég var velkominn til þín og í líf ykkar Ágústu á þeim tíma. Þú varst áhugasamur um þennan 18 ára strák, hvaðan hann kom, hvað hann var að hugsa og hvaða drauma og þrár hann gekk með í höfðinu. Þessi fyrstu kynni okkar gáfu tóninn fyrir framtíðina og okkar samskipti voru öll með þessum sömu jákvæðu formerkjum alla tíð.

Aðeins einu og hálfu ári eftir okkar fyrstu kynni unnum við saman á Grænlandi við flugvallar- og vegagerð. Það var mikil upphefð fyrir rúmlega 19 ára strák að vera ráðinn inn í slíkt verkefni erlendis. Mín þátttaka í verkefninu var fyrir þína tilstuðlan og var lýsandi dæmi um þá trú sem þú hafðir á mér og þá hvatningu sem þú sýndir alla tíð. Síðar átti ég eftir að feta svipaða braut og þú hvað varðar starfsvettvang, bæði á Íslandi og erlendis. Þau voru ófá skiptin sem hringt var í Steina að utan til skrafs og ráðagerða þegar hlutirnir voru snúnir í einhverju borverkefninu. Þú komst gjarnan að orði: „Það eru alltaf einhverjar flækjur í því.‘. Þú varst alla tíð góður félagi, ráðagóður og fyrirmynd á margan hátt.

Á fyrstu búskaparárum okkar Höllu varstu alltaf fyrstur til að rétta hjálparhönd ef eitthvað þurfti að gera eða lagfæra, hvort sem það var að skipta um eldhúsinnréttingu, mála, flytja búslóð nú eða skipta um heddpakkningu. Þú lagðir áherslu á að vera til staðar og eitt lýsandi dæmi um góðmennsku þína er þegar við fengum að búa hjá þér um nokkurra mánaða skeið meðan við vorum á milli íbúða. Þær ylja minningarnar frá þessum tíma.

Þær eru ófáar minningarnar um jeppaævintýraferðir norður í Skagafjörð eða upp á hálendið þar sem krapi kom við sögu. Í þeim aðstæðum varstu með húmorinn á réttum stað, ráðagóður og góður félagi allra samferðamanna. Það voru þín aðalgildi; góðmennska, ráðdeild, góður félagi og fyrirmynd á margan hátt.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vera hluti af þínu lífi. Þú hvattir okkur Höllu áfram alla tíð með ráðum og dáð í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur hverju sinni. Það er góður eiginleiki sem ég mun gera mitt besta til að bera áfram í mín eigin börn.

Guð geymi þig elsku Steini.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Gunnlaugur Sigurðsson.

hinsta kveðja

Elsku Steini afi okkar.

Farinn ertu jörðu frá

og sárt ég þín sakna,

stundum þig ég þykist sjá

á morgnana þegar ég vakna.

Ég veit þér líður vel, afi minn,

vertu nú hress og kátur,

innra með mér nú ég finn

þinn yndislega hlátur.

Fyrir sál þinni ég bið

og signi líkama þinn,

í von um að þú finnir frið

og verðir engillinn minn.

Hvert sem ég fer

ég mynd af þér

í hjarta mér ber

(JLG, FÍG og KKG)

Jökull Logi Gunnlaugsson, Freyja Ísold Gunnlaugsdóttir og Katla Katrín Gunnlaugsdóttir.