Mikið verk beið starfsmanna Vegagerðarinnar við birtingu í gærmorgun þegar moka þurfti aurskriðum af veginum til að opna fyrir umferð milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Raðir bíla voru langar báðum megin við skriðusvæðið, en hið minnsta þrjár skriður féllu úr Eyrarhlíð á þriðjudag. Mikil umferð er alla morgna milli byggðanna og í gærmorgun var engin breyting þar á.
Sigurður Guðmundur Sverrisson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir aurnum hafa verið mokað út í sjó. „Þetta er rosalega mikið. Þegar við vorum að reyna að opna veginn í gær – það var reyndar utar, nær Hnífsdal – þá vorum við búnir að hreinsa hann tvisvar til þess að hleypa umferð í gegn, en við náðum aldrei að hleypa neinum bíl í gegn því það kom alltaf meira niður,“ segir Sigurður.
Hann segir um 200 metra tanga nú ná út í fjörðinn eftir að skriðurnar féllu. sonja@mbl.is