Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Sautján verkefni fengu úthlutun úr Styrktarsjóði geðheilbrigðis á þessu ári og fór afhending fram í gær á Nauthóli. Alls bárust 36 umsóknir um styrki upp á 95 milljónir króna, en sjóðurinn hafði 20 milljónir umleikis og því þurfti að takmarka valið.
Í valinu í ár var sérstaklega horft til þess að verkefnin væru valdeflandi fyrir notendur og aðstandendur, að verkefnin stuðluðu að mannréttindum og jafnrétti og að þau stuðluðu að nýsköpun. Þrjá hæstu styrkina í ár hlutu verkefnin Okkar heimur, eða 3.500.000 kr., Matthildarteymið sem fékk 3.000.000 kr., og Afstaða 2.800.0000 kr.
Okkar heimur heldur úti vefsíðu með upplýsingum fyrir foreldra með geðræna sjúkdóma og fagaðila, en verkefnið er þegar með síðu sem styður sérstaklega við börn fólks með geðrænan vanda.
Matthildarteymið er sérhæft teymi sem veitir lágþröskulda skaðaminnkandi þjónustu, heilbrigðisaðstoð og sálrænan stuðning til einstaklinga í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi. Vettvangsteymi Afstöðu býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf, hópmeðferðir og fræðslu sem miðar að því að styrkja fanga til að taka ábyrgð á eigin lífi og framtíð.
Þá fengu einnig verkefni styrk sem styrkja fanga í að taka ábyrgð á eigin lífi og framtíð; aðstoð eftir afplánun; fræðsluefni um geðheilsu á auðlesnu máli fyrir einstaklinga með þroskahömlun; námskeið fyrir ungt fólk af erlendum uppruna; styrkur fyrir fótboltafélagið FC Sækó, svo aðeins fátt sé talið.