Þorsteinn Hörður Sigurðsson fæddist 23. ágúst 1950 í Reykjavík. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands Akranesi 4. nóvember 2024.

Foreldrar hans voru Sigurður Steindórsson, f. 29. júní 1918, d. 8. janúar 1985, og St. Margrét Sigurðardóttir, f. 14. október 1919, d. 23. febrúar 2008.

Þorsteinn var 10. barn foreldra sinna af 13. Elst var stúlka, f. 1938, d. sama ár, Ásmundur, f. 1940, Sævar, f. 1941, d. 1984, Gunnar eldri, f. 1942, d. 1945, Sonja og Svanhvít tvíburar, f. 1944, Gunnar yngri, f. 1945, d. 2023, Erla Hafdís, f. 1946, Jenný, f. 1948, d. 2022, Stefnir Páll og Matthías tvíburar, f. 1954, Sigurður, f. 1956, auk þess uppeldissystir, Kristín, f. 1963.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Laufey Gerður Vilhjálmsdóttir Hjaltalín, f. 6. nóvember 1949. Þau giftust 4. nóvember 1978.

Laufey átti einn son fyrir sem Þorsteinn gekk í föðurstað, Vilhjálm Hjaltalín, f. 24. júlí 1974. Sambýliskona hans er Vala Björk Víðisdóttir, f. 31. júlí 1977. Þau eiga tvo syni, Bjarka Frey, f. 15. júní 2009, og Brynjar, f. 22. febrúar 2012.

Saman áttu svo Þorsteinn og Laufey Steindór Hjaltalín Þorsteinsson, f. 21. júlí 1978, eiginkona hans er Anna Kurzeja, f. 10. júní 1976 og eiga þau tvö börn; Sigurð Maciej, f. 11. nóvember 2003, og Kristjönu Ósk, f. 14. janúar 2008.

Þorsteinn verður jarðsunginn frá Stykkishólmskirkju í dag, 14. nóvember 2024, klukkan 14.

Stytt slóð á streymi:
https://mbl.is/go/49hd8

Nú er afi horfinn frá okkur. Afi sem var okkur svo blíður og góður.

Það var alltaf tilhlökkun að fara til ömmu og afa í Stykkishólmi. Afi beið okkar oft í dyragættinni. Hjá ömmu og afa máttum við leika okkur að vild, ærslafullir og glaðir. Frá því að fyrstu lokkarnir fóru að vaxa sá afi um að klippa hár okkar af vandvirkni. Afi var alltaf til staðar fyrir okkur og gaf sér tíma fyrir okkur. Margar stundir áttum við saman við eldhúsborðið að tala um allt milli himins og jarðar. Afi hlustaði alltaf af þolinmæði og áhuga á allt sem við höfðum að segja. Hann miðlaði af sinni þekkingu og reynslu. Við fengum hann oft til að fara með okkur í búðina þar sem við fengum að kaupa allt sem hugurinn girntist. Mamma sagði eitt sinn við hann að hann mætti segja nei við okkur. Þá sagði afi að hann færi ekki að segja nei við afastrákana sína. Á sumrin fór hann með okkur niður á bryggju að kaupa ís og á veturna fór hann með okkur í bíltúr um bæinn að skoða fallegu jólaljósin.

Þegar við vorum litlir keyrði afi í vetrarbyl eldsnemma að morgni um miðjan þorrann til að geta mætt í pabba- og afamorgunkaffi í leikskólanum.

Hann keyrði landshluta á milli til að fara á fótboltamót og horfa á afastrákinn sinn spila hvern leikinn á eftir öðrum hvernig sem viðraði. Oft var hann eini afinn sem kom og horfði á leikina. Þegar fótboltamót vannst eitt sumarið og langþráður bikar fékkst var svo gaman að koma heim til afa og sýna honum bikarinn. Hann samgladdist innilega því hann vissi hvað þetta var mikils virði fyrir fótboltastrákinn hans.

Afi kom oft á tónleika í tónlistarskólanum og hlustaði á okkur spila á píanó. Hann sýndi allri okkar tómstundaiðju áhuga og stuðning.

Afi var ekki mikið gefinn fyrir ketti. Samt tók hann að sér að passa kisuna okkar þegar við fórum í ferðalög. Hann annaðist kisuna svo vel að hún fylgdi honum hvert fótmál og kúrði sig við fætur hans.

Við munum sakna þín sárt elsku afi. Allar fallegu góðu minningarnar um þig munu ylja okkur um ókomna tíð. Við trúum að þú munir vaka yfir okkur, Silla og Kristjönu, barnabörnum þínum, og halda verndarhendi yfir okkur.

Þínir afastrákar,

Bjarki og Brynjar.

Mig langar aðeins að minnast Steina bróður í fáum orðum. Steini lést mánudaginn 4. nóvember 74 ára.

Ég man ekki mikið eftir Steina á yngri árum þar sem hann var sex árum eldri en ég, sex ár eru mörg ár þegar maður er krakki en svo eldist maður og þá eru sex ár enginn tími.

Steini lærði rakaraiðn 18-20 ára hjá Sigurði Runólfssyni í Hafnarstræti og vann þar einhver ár eftir nám, síðan fór hann inn á Laugarnesveg með öðrum Sigga, þá upp í Breiðholt, þar hét stofan því skemmtilega nafni Klippotek (bæði klippt og tekið fyrir það).

Steini kynnist Laufeyju eftirlifandi konu sinni á þessum tíma en svo flytja þau til Stykkishólms þar sem rætur Laufeyjar liggja en hún er frá Brokey á Breiðafirði. Þar setur Steini upp rakarastofu í forstofuherbergi hjá bróður Laufeyjar á Laufásvegi 12, sem varð svo seinna þeirra heimili. Þar klippti hann á kvöldin og um helgar en vann á daginn hjá fiskverkun Sigurðar Ágústssonar.

Skærin og greiða voru alltaf tekin með í ferðir hjá þeim, við bræður og eflaust fleiri fengu oft hársnyrtingu hvort sem var í heimahúsi eða úti á túni í ferðalögum.

Steini var mikill leikari og söngmaður, var í leikfélaginu í Stykkishólmi. Eitt árið söng hann oft „Hver gerði Gerði grikk í sumar“, þá var Laufey ólétt að Steindóri, en fyrir áttu þau Villa. Ég skildi þetta lagaval ekki þá, en fyrir um þremur árum forum við saman til útlanda og þá sá ég um að panta fyrir alla og skrá nöfnin. Þá komst ég að því að Laufey heitir líka Gerður þannig að þetta var bara alveg rökrétt hjá honum að syngja þetta lag!

Einu skipti man ég eftir með söng frá honum þegar við systkinin vorum að fara eitthvað saman að skemmta okkur. Þá var ég í sama leigubíl og Rúrý mágkona og Steini, þau taka dúett og syngja hástöfum í bílnum, þá fékk maður gæsahúð, þetta var svo flott hjá þeim.

Seinni árin ferðuðumst við Sigga með þeim Steina og Laufeyju bæði erlendis sem innanlands. Nokkrar ferðir til Þýskalands, Frakklands o.fl. Í sumar forum við nokkur systkinin ásamt Steina að leita að upprunanum á Ísafirði þar sem einn frændi okkar, sem þar býr, fór með okkur á þá staði sem vildum sjá, þetta var mjög góð ferð í alla staði. Í restina er eitt gott kvæði sem á vel við:

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Steini, takk fyrir allt og allt, farðu í friði vinur minn.

Ég sendi eftirlifandi eiginkonu hans Laufeyju og sonum þeirra Villa og Steindóri ásamt fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þinn bróðir,

Sigurður G. (Siggi).