Stefán Einarsson fæddist 19. ágúst 1949 í Reykjavík. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 4. nóvember 2024.
Faðir Stefáns var Einar Einarsson, f. 1. júní 1925, d. 14. ágúst 2014. Móðir Stefáns er Ólöf Stefánsdóttir, f. 22. febrúar 1927. Systkini hans eru Anna Vilborg, gift Árna Bragasyni og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn. Ólöf Ragnheiður, gift Herberti Haukssyni og eiga þau fjögur börn og 11 barnabörn. Einar, kvæntur Bryndísi Bragadóttur og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn.
Stefán gekk í Laugarnesskóla og Réttarholtsskóla og þaðan lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann lauk stúdentsprófi 1969. Stefán var góður námsmaður og hafði góð tök á raungreinum og átti einnig auðvelt með að læra tungumál. Hann valdi að fara til Vestur-Berlínar þar sem hann var við nám í Tækniháskólanum og útskrifaðist með meistaragráðu í efnaverkfræði. Stefán fór síðar til náms við Tækniháskólann í Þrándheimi og lauk þaðan doktorsprófi í áhættugreiningu 1999, þar sem viðfangsefnið var áhættumat á flóknum iðnaðarkerfum.
Útför Stefáns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 14. nóvember 2024, klukkan 13.
Elsku sonur minn Stefán er látinn. Ég get varla skrifað þetta orð, svo sárt er það og óvænt. Stefán þjáðist af parkinson-sjúkdómnum sem er erfiður sjúkdómur þar sem passa þarf mikið upp á rétta inntöku lyfja.
Stefán var góður námsmaður og fljótur að tileinka sér nýja þekkingu. Hann var sjö ár við nám í Berlín. Ég hitti Stefán þar og fórum við víða um Þýskaland og Belgíu þar sem Ólöf systir hans og dóttir mín bjó.
Stefán hafði sérstaka ánægju af gönguferðunum með Garðari og voru þeir saman í skákklúbbi sem Stefán naut vel. Til að þjálfa sig enn betur tefldi hann við tölvuna. Ég lagði til tertur eða pönnukökur þegar skákklúbburinn var hjá Stefáni.
Stefán fór nær daglega síðustu árin í Bókhlöðuna eins og hann var vanur. Dagana fyrir andlátið vann hann í Bókhlöðunni að þýðingu úr norskri bók um umferðaröryggismál.
Stefán bjó einn og var nær daglegur gestur hjá mér og nutum við samvistanna. Á sunnudagskvöldinu fyrir andlátið fór bróðir hans, Einar, með mat til hans. Þá var hann sæmilega hress og feginn að sjá bróður sinn og tók við honum þakklátur.
Stefán hugsaði vel um mig. Hann kom oftast í kvöldmat til mín. Ef hann kom ekki þá hringdi hann til þess að vita hvernig dagurinn hefði gengið hjá mér.
Ég sakna hans mikið, við studdum hvort annað í lífinu.
Þín
móðir.
Það var erfiður og mikill sársauki morguninn 4. nóvember síðastliðinn þegar ég fékk símhringingu um að Stefán bróðir minn hefði orðið bráðkvaddur. Hann hafði fundist látinn í íbúð sinni þá um morguninn.
Stebbi bróðir var elstur okkar fjögra systkina og þrátt fyrir 13 ára aldursmun vorum við miklir vinir. Deildum bæði gleði og sorg sem við urðum fyrir í lífinu eins og gengur og gerist hjá flestum okkar.
Það var tími hjá okkur þar sem við hittumst ekki oft þar sem ég bjó í Belgíu og Hollandi og hann í Þýskalandi og Noregi. Auðvitað fengum við fréttir hvort af öðru í gegnum foreldra okkar, síma eða bréfaskriftir.
Stebbi bróðir var mikið og vel menntaður maður og var alltaf að bæta við sig fróðleik alveg fram í andlátið. Hann kenndi lengi vel í nokkrum menntastofnunum landsins við mjög góðan orðstír, hann var vel metinn og góður kennari. Hann varði sína doktorsgráðu við háskólann í Þrándheimi og lokaritgerð hans var um áhættugreiningu hjá fyrirtækjum og vildi hann með sínum fræðum koma í veg fyrir óþarfa slys á fólki eða starfsemi almennt hjá stórum eða smærri fyrirtækjum.
Stebbi heimsótti mig nokkrum sinnum til Belgíu bæði um jól og meðan hann dvaldi um tíma í Aachen í Þýskalandi.
Ómetanleg var ferðin okkar saman til Berlínar þar sem hann var svo sannarlega á heimaslóðum eftir að hafa búið þar við nám og gat leiðsagt mér um alla borgina og áttum við bæði yndislegan tíma saman, hann hitti þar gamla skólafélaga og við heimsóttum óperuhús Berlínar og margt fleira.
Einnig kom hann til okkar Herberts í sveitina okkar í Hrunamannahreppi og dvaldi hjá okkur í nokkra dag og var það okkur báðum bæði skemmtileg og fróðleg samvera.
Ég minnist bróður míns með mikilli virðingu og gleði, hann var fyndinn og oft var stutt í Stebba bróður húmoristann. Honum þótti alltaf mikið vænt um mig og sagði mér alveg frá því og ég vona að hann hafi fundið væntumþykju mína til hans.
Það voru alltof margir erfiðir tímar í hans lífi og allir sem hann þekktu vissu að andleg veikindi og parkinson-sjúkdómurinn smitaði líf hans í nokkuð mörg ár.
Síðustu ár voru samt góð og gleðileg. Þannig ætla ég að minnast elskulegs bróður míns sem ég mun hugsa til og sakna alla daga.
Blessuð sé minning þín elsku bróðir minn og góða ferð í sumarlandið.
Elska þig.
Ólöf Ragnheiður.
Sá Stefán sem ég kynntist þegar ég kom inn í fjölskylduna var kraftmikill húmoristi og vel inni í málefnum líðandi stundar. Hann var í sambúð með enskri konu, Gill, um tveggja ára skeið og síðar íslenskri konu, Grétu, í um fjögur ár. Vegna búsetu okkar Önnu erlendis voru samverustundir okkar með fjölskyldumanninum Stefáni fremur takmarkaðar.
Stefán hóf störf hjá Vinnueftirliti ríkisins fljótlega eftir komuna frá Þýskalandi, en lét af störfum þar árið 1990 eftir að hafa skrifað skýrslu um Áburðarverksmiðju ríkisins þar sem hann varaði við fjölþættri hættu og ónógum vörnum í rekstrinum. Skýrsla Stefáns endaði í skúffu og látið var eins og hún hefði aldrei verið skrifuð og hann var í framhaldinu þvingaður út úr stofnuninni.
Ljóst er að Stefán hafði rétt fyrir sér með hættuna sem stafaði af ónógum vörnum í Áburðarverksmiðjunni, því 11 árum eftir að hann missti vinnuna varð mikil sprenging af völdum vetnis í Áburðarverksmiðjunni.
Samskiptin og atvinnumissirinn sat alla tíð í honum því hann kom alls staðar að lokuðum dyrum þegar hann leitaði réttar síns og uppgjörs vegna starfsloka á Vinnueftirlitinu.
Stefán kenndi efnafræði við MH í nokkur ár en hugurinn var þó alltaf við efnaverkfræðina, áhættumat og öryggismál. Hann fór til náms við Tækniháskólann í Þrándheimi og lauk þaðan doktorsprófi í áhættugreiningu 1999, þar sem viðfangsefnið var áhættumat á flóknum iðnaðarkerfum.
Dr. Stefán vann síðan að fjölmörgum áhættumatsverkefnum varðandi verksmiðjurekstur, útgerð og sjómennsku og umferðarmál í samstarfi við fjölmarga sérfræðinga og naut þess sérstaklega að vinna með dr. Haraldi Sigþórssyni heitnum.
Stefán eignaðist góða vini á námsárunum í Þýskalandi og landið og tungumálið var honum alla tíð hjartfólgið, þangað fór hann oft til að koma „heim“.
Fyrir utan fagið var skákin stóra áhugamálið. Skákklúbburinn sem hittist reglulega í áratugi átti stóran stað í hjarta Stefáns og hann talaði oft af hlýju um góða félaga og uppbyggjandi spjall við þá.
Gönguferðir með Garðari gáfu Stefáni mikla lífsfyllingu og er fjölskyldan Garðari ævinlega þakklát fyrir vinskapinn og ekki síður þann stuðning sem hann veitti Stefáni á erfiðum tímum. Aðrir vinir sem Stefán var þakklátur fyrir að eiga að eru Kristinn og fyrrverandi vinnufélagar hjá Vinnueftirlitinu.
Stefán kom til móður sinnar nær daglega og veitti það þeim báðum félagsskap og lífsfyllingu. Missir Ólafar er því mikill við fráfall sonarins.
Lífið var Stefáni ekki alltaf auðvelt, því hann átti við geðrænar áskoranir að stríða en sem betur fer með góðum hléum á milli. Síðustu árin bættist parkinsonsjúkdómurinn við og var hann farinn að ágerast. Heimaþjónusta Reykjavíkurborgar veitti Stefáni frábæra þjónustu í veikindum hans og er fjölskyldan þakklát fyrir það.
Stefán var alltaf með hugann við faglegu málefnin og ekki kom til greina að svíkjast um, í Þjóðarbókhlöðuna skyldi hann fara þó að það gæti verið áskorun og síðasta ferðin þangað var tveimur dögum fyrir andlátið.
Hvíl í friði kæri mágur.
Árni Bragason.
Stefán Einarsson elskulegur móðurbróðir okkar er fallinn frá.
Stebbi, eins og hann var alltaf kallaður, sýndi okkur börnum systur sinnar, börnum systkina sinna allra, alltaf mikinn áhuga. Hann fylgdist vel með og vildi heyra hvernig gengi hjá okkur í námi, leik og starfi og hvatti okkur áfram til góðra verka. Þegar makar okkar og börn bættust í hópinn þá átti það sama við, Stebbi vildi öllum vel. Hann leyfði okkur að finna hversu stoltur hann var af okkur og hrósaði mömmu og pabba fyrir vel heppnuð börn.
Stebbi var húmoristi og átti fjöruga spretti í fjölskylduboðum þar sem spjallað var vel og lengi um málefni líðandi stundar. Verkfræðingurinn var alltaf með einhver verkefni á takteinunum og vildi ólmur gera samfélagi okkar gagn, byggja öruggt umhverfi til framtíðar og sporna við hlýnun jarðar. Verkefni sem við sem eftir lifum þurfum að halda áfram að vinna að.
Hvíl í friði elsku frændi.
Ólöf Sara, Eva María, Einar Bragi.