Bækur
Einar Falur
Ingólfsson
Þann 12. ágúst fyrir rúmum tveimur árum steig hinn heimskunni bresk-indverski rithöfundur Salman Rushdie á svið í Pennsylvaníuríki og hugðist fjalla um öryggi rithöfunda. Málið var honum vissulega skylt þar sem rúmum 30 árum fyrr hafði íranski klerkurinn Ayatollah Khomeini kveðið upp yfir honum dauðadóm, svokallaðan fatwa-úrskurð, vegna meints guðlasts í skáldsögunni Söngvum Satans. Rushdie fór lengi huldu höfði eða var með lífverði. En þegar árin liðu ákvað hann að hætta að vera í felum, hætta að láta fatwa-úrskurðinn stjórna lífi sínu og lifa eins og aðrir höfundar. Og það tókst honum um margra ára skeið, var hamingjusamur í nýju hjónabandi og skrifin gengu vel, þar til þennan morgun í ágúst fyrir tveimur árum. Þá hljóp ungur svartklæddur maður að Rushdie á sviðinu, „eins konar tímaferðalangur, grimmdarleg vofa úr fortíðinni“ (17), og stakk hann ítrekað með hnífi, í augað, bringu, háls og hendur. Rushdie var vart hugað líf og fréttin um hryllilega árásina barst út um heimsbyggðina. Víðast vitaskuld fordæmd en líka fagnað af einhverjum þröngsýnum og ómenntuðum vitleysingum.
Rushdie barðist lengi fyrir lífi sínu. Hann missti sjón á hægra auga og þurfti að ganga gegnum erfiða endurhæfingu. En hann lifði og segir þessa sögu alla í þessari hrífandi, einlægu, djúpvitru og meistaralegu skrifuðu bók. Bók sem hann var byrjaður að skrifa innan við ári eftir árásina og hefur undirtitilinn „Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar“.
Rushdie skiptir frásögninni í tvo hluta. „Engill dauðans“ er yfirskrift þess fyrri og hefst á upplifun hans á árásinni og hugleiðingum um árásarmanninn, sem hann réttilega velur að nefna ekki á nafn, sýna honum ekki þá virðingu, heldur kallar bara A. Seinni hlutinn er svo „Engill lífsins“, sem lesandinn upplifir tákngerðan í Elizu konu Rushdies, og þrá hans til að lifa og halda áfram að skrifa. En árásin breytti lífinu. Hann skrifar að það óþægilegasta við árásina hafi verið að hún breytti honum „aftur í mann sem ég hef reynt af öllum mætti að vera ekki. Í rúmlega þrjátíu ár hef ég neitað að láta fatwa-úrskurðinn skilgreina mig og krafist þess að litið yrði á mig sem höfund bókanna minna – fimm fyrir fatwa-úrskurðinn og sextán eftir hann […] Og nú er ég hér, hef verið dreginn aftur inn í það óumbeðna efni. Ég held núna að ég geti aldrei sloppið frá því. Burtséð frá því sem ég hef þegar skrifað eða kann nú að skrifa verð ég alltaf gaurinn sem varð fyrir stunguárás. Hnífurinn skilgreinir mig.“ Og Rushdie bætir við: „Að lifa var sigur minn. En merkingin sem hnífurinn hafði gefið lífi mínu var ósigur minn“ (162).
Rushdie fjallar á opinskáan hátt um hugsanir sínar og upplifanir á afleiðingum árásarinnar; segir frá martröðum, aðgerðum, sársauka, læknamistökum og vel lukkaðri endurhæfingu. Stuðningur fjölskyldunnar og vina er mikilvægur og hann dregur ekki dul á þá trú sína að ástin hafi verið lykilafl í að koma honum aftur á fætur. En skuggi árásarmannsins hvílir yfir sögunni framan af, reiðin út í hann en ekki síður spurningarnar sem Rushdie langar að spyrja – hann samsamar sig öðrum listamönnum sem hafa orðin fyrir árásum, til að mynda Samuel Beckett sem einnig lést næstum eftir hnífstungu. Og í áhrifaríkum kafla sviðsetur hann skálduð samtöl við árásarmanninn í fangelsinu, þar sem hann reynir að skilja ástæður þess að ungur maður frá New Jersey, sem enginn hafði talið hættulegan, var heilaþveginn og ákvað að fórna eigin lífi við að ráðast á rithöfund á áttræðisaldri sem hann hafði nær ekkert lesið eftir. Þetta samtal höfundarins við árásarmanninn kallast með áhugaverðum hætti á við samtöl í þekktum skáldsögum Rushdies, eins og höfuðverki hans Miðnæturbörnunum og Söngvum Satans. Hann segist nota þetta tækifæri til að tjá sig í síðasta sinn um deiluefni sem hafi sett líf hans á annan endann, deiluna um Guð. Og afstaða hans er skynsamleg og rétt. Hann segist ekki vera trúaður og aldrei hafa haft þörf fyrir trúarlegt traust til að auðvelda sér að skilja og kljást við heiminn. „Ég skil þó að í augum margra eru trúarbrögð siðferðilegt akkeri og virðast ómissandi. Og að mínu áliti kemur einkatrú hvers og eins engum við nema viðkomandi einstaklingi. Ég hef ekkert við trúarbrögð að athuga þegar þau halda sig við þetta einkasvið og reyna ekki að þröngva gildismati sínu upp á aðra. En þegar trúarbrögðin eru nýtt í þágu stjórnmála og vopnvæðast jafnvel, þá koma þau öllum við vegna þess skaða sem þau geta valdið“ (216).
Sem andstæðu kreddufullrar trúar árásarmannsins, og annarra þeirra sem hugsa eða eru mataðir á forpokuðum og grimmum hugmyndum, teflir Rushdie réttilega fram listinni og segir að það mikilvægasta sé að listin skorar rétttrúnaðinn á hólm. Og allir skynsamir menn og víðsýnir geta skrifað undir þá stefnuskrá: „Að hafna listinni eða ófrægja hana vegna þess sem hún gerir það er að misskilja eðli hennar. Listin teflir fram ástríðufullri persónulegri sýn listamannsins gegn viðurkenndum hugmyndum samtímans. Listin veit að viðurkenndar hugmyndir eru óvinir listarinnar […] Klisjur eru viðurkenndar hugmyndir og það eru hugmyndafræðistefnur einnig, bæði þær sem eru grundvallaðar á helgun ósýnilegra himingoða og þær sem eru það ekki. Án listarinnar mundi geta okkar til að hugsa, til að sjá á ferskan hátt og endurnýja heim okkar visna og deyja.“
Og hann bætir við: „Listin er ekki munaður. Hún tilheyrir kjarna mennsku okkar og fer ekki fram á neina sérstaka vernd nema þann rétt að vera til.
Hún sættir sig við deilur, gagnrýni, jafnvel höfnun. Hún sættir sig ekki við ofbeldi.
Og á endanum lifir hún þá sem kúga hana“ (201).
Það var afar vel til fundið að veita Rushdie á dögunum bókmenntaverðlaunin sem kennd eru við Halldór Laxness. Hann er vitaskuld einn af stórmeisturum bókmennta samtímans en ekki síður málsvari og óneitanlega líka orðinn að mikilvægri táknmynd málfrelsis og óháðrar listrænnar sköpunar; hlutverk sem hann kærði sig ekki um en viðurkennir í þessari bók að hann geti nú ekki vikið sér undan.
Hnífur Rushdies hefur réttilega verið kallað hugrakkt verk, og afrek. Þetta er margbrotin frásögn um grimmilega og raunverulega árás, þar sem sá sem fyrir verður hugleiðir af mikilli yfirvegun ástæðurnar fyrir henni. Hann sýnir okkur fram á mikilvægi frjálsrar listsköpunar, og menningarinnar, sem andsvar við forheimskun og grimmd, og ástin, víðsýnin og mannúðin bera hér sigur af illskunni. Árni Óskarsson þýðir Hníf Rushdies af tilhlýðilegri lipurð og snerpu.