Pútín varpar fólki í fangelsi fyrir engar sakir til að þagga niður gagnrýni

Í Rússlandi ríkir andrúmsloft þöggunar og ógnar um þessar mundir. Gagnrýni á stefnu stjórnvalda er ekki liðin og orð sem falla í tveggja manna tali geta jafnvel leitt til þungra fangelsisdóma.

Á þriðjudag var Nadésda Bújanova barnalæknir dæmd í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að breiða út „falsupplýsingar“ um rússneska herinn. Ummælin á hún að hafa látið falla við fyrrverandi konu hermanns, sem féll í Úkraínu. Konan sagði að hún hefði gagnrýnt þátt rússneskra stjórnvalda í stríðinu.

Bújanova, sem er 68 ára gömul, var handtekin í febrúar. Hún hélt fram sakleysi sínu í réttarhöldunum, en vitnisburður konunnar og sjö ára sonar hennar dugði dómnum til sakfellingar.

Á mánudag tapaði Ksenia Karelína áfrýjun 12 ára fangelsisdóms fyrir landráð. Hennar glæpur var að gefa úkraínskum hjálparsamtökum sjö þúsund krónur. Karelína er með rússneskan og bandarískan ríkisborgararétt. Sennilega sjá Rússar fyrir sér að hún gæti orðið skiptimynt í fangaskiptum síðar meir.

Annað dæmi er Daníl Kljúka, sem var kennari í smábænum Dankov. Hann var handtekinn fyrir að senda úkraínska hernum peninga, en segir að peningarnir hafi verið sendir úkraínskum frænda hans. Hann telur að yfirkennarinn í skólanum hafi sagt til sín vegna þess að hann teiknaði horn og skegg á menn á ljósmyndum í dagblaði og skildi eftir í kennarastofunni. Kljúka er 28 ára. Hann var dæmdur í 20 ára fangelsi.

Rússnesku mannréttindasamtökin Memorial telja að umfang ofsókna rússneskra yfirvalda á hendur gagnrýnendum og andófsmönnum sé stórkostlega vanmetið. Samtökin hlutu á sínum tíma friðarverðlaun Nóbels og hafa verið bönnuð í Rússlandi. Á mánudag kom fram að Memorial væri með lista yfir 778 pólitíska fanga, en það væri aðeins toppurinn á ísjakanum. Þau telja að líklega séu tíu þúsund manns í fangelsi í Rússlandi af pólitískum ástæðum.

Framganga rússneskra stjórnvalda sýnir óttann við orðið. Pútín kann að virka valdsmannslegur og sjálfsöruggur, en hann er ekki öruggari með sig en svo að hann lætur varpa öldruðum læknum og kennurum í smábæjum í fangelsi fyrir engar sakir.