Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Fullt var út úr dyrum á fundi íbúasamtaka Grafarvogs sem haldinn var síðdegis sl. þriðjudag og taldist viðstöddum til að þar hefðu verið ríflega 600 Grafarvogsbúar samankomnir. Hefur ekki fjölmennari íbúafundur verið haldinn í hverfinu í annan tíma. Fundarefnið var fyrirhuguð þétting byggðar í hverfinu sem og áform borgaryfirvalda um uppbyggingu í Keldnalandi, en mikil andstaða íbúa við áformin kom fram á fundinum.
„Þessi fundur sýndi enn og aftur hve mikil samstaða er meðal Grafarvogsbúa gegn þessum árásum á hverfið eins og íbúasamtökin kjósa að nefna þetta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið, en hann sat fundinn og hefur verið búsettur í hverfinu um árabil.
„Á bak við þennan fund liggur gríðarleg vinna sem er aðdáunarvert. Þarna var fólk í sjálfboðavinnu að afla gagna og koma upplýsingum til íbúa hverfisins sem er í raun hlutverk borgarinnar,“ segir hann.
„Eitt er það að fara í þessar aðgerðir, sem bæði ég og Diljá Mist Einarsdóttir höfum lengi vakið athygli á og eru í besta falli mjög vanhugsaðar, en annað eru viðbrögð borgaryfirvalda og borgarstjóra á fundinum sem eru einfaldlega fyrir neðan allar hellur,“ segir Guðlaugur Þór. Þar vísar hann m.a. til ummæla Einars Þorsteinssonar borgarstjóra þess efnis að maður hefði farist í eldsvoða í Höfðahverfi, þar sem hann bjó í iðnaðarhúsnæði, ósamþykktu til íbúðar.
Borgin ber ábyrgð sjálf
„Það er fráleitt að segja við íbúa Grafarvogshverfis að verði ekki gengið á grænu svæðin, þá beri þeir ábyrgð á hræðilegum slysum sem orðið hafa og rekja má til húsnæðisvanda í borginni,“ segir Guðlaugur Þór, enda beri borgaryfirvöld ábyrgð á honum sjálf.
„Það er ekki boðlegt að bjóða íbúum sem benda á að ætlunin sé að skerða lífsgæði þeirra mjög og fara þvert á það sem fólk vænti þegar það fluttist í hverfið,“ segir hann og bendir á skerðingu grænna svæða í hverfinu sem skilgreint sé sem fullbyggt skv. gögnum borgarinnar. Það séu lífsgæði að geta notið grænna svæða í hverfinu, enda sé hverfið vel skipulagt.
Guðlaugur Þór segir að þau gögn sem kynnt voru á fundinum séu frá borginni komin og segir hann fráleitt af fyrirsvarsmönnum borgarinnar að vera að hártoga málflutning íbúanna og gera lítið úr honum og segja að fjölgun íbúa í hverfinu verði ekki jafn mikil og íbúasamtökin haldi fram.
„Það finnst mér dapurt. Það eru dæmi um annað í hverfinu. Til dæmis má nefna að fjöldi íbúa við Móaveg í Spöng er 30% meiri en borgin hefur gefið upp. Jafnvel þótt fjölgunin í hverfinu yrði eitthvað minni yrði samt um gríðarlega fjölgun að ræða. Þéttingin sem fyrirhuguð er yrði ekki í neinu samræmi við Grafarvogshverfið eins og það er. Fólk tók sér þar bólfestu vegna þess að það vildi njóta þeirra lífsgæða sem hverfið hefur upp á að bjóða,“ segir Guðlaugur Þór.
Afleiðing af stefnunni
„Málflutningur borgarstjóra er fyrir neðan allar hellur. Jafnvel þótt hans tölur væru réttar yrði um gríðarlega fjölgun í hverfinu að ræða. Tölulegar upplýsingar íbúasamtakanna eru fengnar frá borginni,“ segir hann og bendir á að í dæminu um Móaveg búi um þriðjungi fleiri en borgin gefi upp.
„Ég held að óhætt sé að bæta þriðjungi við þær tölur sem borgarstjóri nefndi,“ segir Guðlaugur Þór, en borgarstjóri nefndi 11 þúsund íbúa í Keldnalandi í stað 18 þúsund og 400 íbúðir á þéttingarreitum í stað 600.
Hann nefnir að fólk hafi líka áhyggjur af áhrifum á umferð sem þétting byggðarinnar mun hafa í för með sér, sem og áformum um að fyrirhuguð Sundabraut klippi hverfið í sundur á tveimur stöðum.
Fundurinn sem haldinn var á þriðjudag var annar fundurinn í hverfinu vegna þessara mála, en á hinn mættu um 300 manns og segir Guðlaugur Þór að af því megi ráða hver hugur íbúa í hverfinu sé í þessu máli. Mikill fjöldi neikvæðra umsagna um þéttingaráform borgaryfirvalda á grænum svæðum í hverfinu sé og til marks um það.
„Þetta er afleiðingin af stefnu þessara flokka sem mynda meirihlutann í borgarstjórn, Samfylkingar, Viðreisnar, Framsóknarflokks og Pírata, um að fara í ofurþéttingu hvar sem þeir sjá grænan blett, í stað þess að brjóta nýtt byggingarland sem nóg er til af. Þessi þéttingarstefna er í gangi um alla borg og ég held að almennt sé fólk búið að fá nóg af þessari hræðilegu stefnu. Það kom berlega í ljós á fundinum að allir viðstaddir voru sammála í andstöðu sinni við þéttinguna, ef undanskildir eru þeir pólitísku fulltrúar sem hafa staðið fyrir þessari stefnu og bera á henni ábyrgð,“ segir Guðlaugur Þór.
Ekki náðist í Einar Þorsteinsson borgarstjóra við vinnslu fréttarinnar.
Mikil áhrif þéttingar byggðar í Grafarvogi
Íbúafjöldi meira en tvöfaldast
Íbúasamtök Grafarvogs leituðu eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um áætlaðan fjölda íbúa á þéttingarreitunum í hverfinu, en fengu þau svör að borgin gæti ekki veitt þær. Þá sendu samtökin borginni þær forsendur sem samtökin notuðust við til að áætla fjöldann og hugðust kynna á fundinum, en fengu engin viðbrögð.
Við mat á líklegum fjölda íbúa í Keldnalandi var gert ráð fyrir að þrír byggju að jafnaði í hverri þeirra 6.000 íbúða sem ætlunin er að byggja þar og íbúafjöldi áætlaður 18.000 manns. Gert var ráð fyrir fjórum íbúum í 77 einbýlis-, par- og raðhúsum á þéttingarreitunum og þremur íbúum í hverri íbúð í fjölbýlishúsum. Mun íbúum í hverfinu fjölga um ríflega 2.100 manns þegar þéttingarreitirnir verða fullbyggðir. Með Gufunesi bætist við annað eins, 2.100 manns.
Íbúar í Grafarvogi eru rúmlega 18.200 talsins, en með þéttingu og Keldnalandi mun íbúafjöldinn í hverfinu meira en tvöfaldast, verður rösklega 38.200 manns.