Loftmynd Byggingar Rafmagnsveitunnar við Suðurlandsbraut á fyrri árum. Hús hafa vikið fyrir þéttingu byggðar.
Loftmynd Byggingar Rafmagnsveitunnar við Suðurlandsbraut á fyrri árum. Hús hafa vikið fyrir þéttingu byggðar. — Ljósmynd/www.mats.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verið er að rífa eldri byggingar Rafmagnsveitu Reykjavíkur í Ármúla í Reykjavík og hverfur með því eitt helsta kennileitið í Múlunum. Fyrrverandi höfuðstöðvar Rafmagnsveitunnar við Suðurlandsbraut verða hins vegar endurgerðar

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Verið er að rífa eldri byggingar Rafmagnsveitu Reykjavíkur í Ármúla í Reykjavík og hverfur með því eitt helsta kennileitið í Múlunum. Fyrrverandi höfuðstöðvar Rafmagnsveitunnar við Suðurlandsbraut verða hins vegar endurgerðar.

Byggingin í Ármúla 31 var reist á árunum 1970-1972 en byggingin við Suðurlandsbraut á árunum 1980-1984.

Athafnasvæði Rafmagnsveitunnar myndaði gróið og samfellt svæði eins og sýnt er á loftmynd hér til hliðar. Svæðið hefur verið endurskipulagt og verður byggingin við Suðurlandsbraut hluti af 436 íbúða hverfi. Búið er að selja ríflega helming íbúða í fyrsta fjölbýlishúsinu en það næsta kemur í sölu á næsta ári.

Fjallað var um áðurnefndar byggingar Rafmagnsveitunnar í húsakönnun sem unnin var af Önnu Maríu Bogadóttur, arkitekt hjá Úrbanistan, árið 2019. Þar sagði meðal annars:

„Báðar byggingarnar eru reistar eftir teikningum Guðmundar Kr. Kristinssonar arkitekts og er eldri byggingin við Ármúla samstarfsverkefni hans og Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts og sú yngri samstarfsverkefni Guðmundar og Ferdinands Alfreðssonar arkitekts. Byggingin við Ármúla er klædd stálgrindarbygging á steyptum kjallara og var reist sem verkstæðis- og lagerbygging Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Tengdar saman

Byggingin við Suðurlandsbraut er steinsteypt þjónustu- og skrifstofubygging, fimm hæðir á kjallara og sjötta hæðin inndregin. Hún var reist sem höfuðstöðvar Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Milli bygginganna er steinsteypt einnar hæðar bygging á kjallara, sem tengist byggingum við Ármúla og Suðurlandsbraut um steinsteypta, glerjaða tengiganga,“ sagði í umsögn Önnu Maríu en margir muna eflaust eftir þessum tengigöngum sem voru nýttir við sýnatöku í farsóttinni.

Agi og fínleiki

Anna María skrifaði í húsakönnun sinni að byggingin í Ármúla 31 væri látlaust og vandað atvinnuhúsnæði í anda módernisma eftirstríðsára sem bæri höfundarverki Gunnlaugs Halldórssonar og Guðmundar Kr. Kristinssonar gott vitni.

„Í byggingunni fer saman einfaldleiki og öguð formhugsun sem og fínleg og nákvæm útfærsla smáatriða. Hluti af heild verkstæðis- og skrifstofubygginga á reitnum. Mikilvægur hluti innviða- og orkusögu borgarinnar og með betri dæmum um módernískt iðnaðarhúsnæði sem enn má finna í Reykjavík. Húsið hefur gildi fyrir umhverfið og gefur mikilvægan tón í anda staðarins m.t.t. sögu og fjölbreytileika. Lagt er til að húsið njóti verndar í rauðum flokki,“ skrifaði Anna María.

Nú er byggingin í Ármúla 31 sem áður segir að mestu horfin.

Fluttu úr Hafnarhúsinu

Sumarið 1972 auglýsti Rafmagnsveitan flutning í nýja bækistöð í Ármúla 31. Auglýsing í Morgunblaðinu 30. júní 1972 varpar ljósi á starfsemina í þá daga: „Eftirtalin starfsemi verður í Ármúla: Framkvæmdadeild, birgðavarzla og verkstæði, áður að Barónsstíg 4 og Lækjarteig. Verkáætlanir og teiknistofa, áður í Hafnarhúsi. Í Hafnarhúsi verður áfram: Aðalskrifstofa, fjárvarzla og bókhald, viðskiptadeild (greiðsla reikninga), innlagnadeild (afgreiðsla heimtauga og rafmagnseftirlit), verkfræðideild og innkaup,“ sagði þar orðrétt.

Sameinuðust í Orkuveituna

Fyrrverandi höfuðstöðvar Rafmagnsveitunnar á Suðurlandsbraut voru í síðari tíð kallaðar Orkuhúsið og var svæðið nefnt Orkureiturinn í minningu þess.

Fjallað var áformaða uppbyggingu á Orkureitnum í Morgunblaðinu hinn 10. janúar árið 2019. Við það tilefni var rifjað upp að Hitaveita Reykjavíkur var með bækistöðvar á lóð hinum megin við Grensásveg.

„Þessi tvö fyrirtæki sameinuðust árið 1999 undir heitinu Orkuveita Reykjavíkur. Orkuveitan reisti höfuðstöðvar við Bæjarháls í Árbæjarhverfi. Þær voru teknar í notkun árið 2003 og eignirnar við Suðurlandsbraut og Grensásveg voru þá seldar,“ sagði þar m.a.

Um milljarður króna

Fjallað var um þau viðskipti í Morgunblaðinu 26. mars árið 2000 en þar sagði að Tækniakur, nýstofnað eignarhaldsfélag í eigu Símans og Landsafls, fasteignafélags Íslenskra aðalverktaka, hefði undirritað kaupsamning við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á lóð og fasteignum Orkuveitunnar við Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 31. Kaupverð væri um milljarður króna eða sem svarar 3,2 milljörðum á núvirði. Landssíminn átti þá í viðræðum við borgina um að byggja 12 þúsund fermetra hús á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar. Þórarinn V. Þórarinsson, þá forstjóri Landssímans, reiknaði með að Orkuhúsið yrði í almennri útleigu í framtíðinni en hugmyndin var að skapa áhugavert umhverfi fyrir fyrirtæki til að starfa í nálægð við Símann.

Þessi áform urðu ekki að veruleika. Tíðarandinn hefur breyst og rís nú íbúðahverfi á svæðinu sem tengja á við fyrirhugaða borgarlínu.

Höf.: Baldur Arnarson