Eins og margir þekkja hefjast Paralympics skömmu eftir Ólympíuleika en þessi tvö risamót hafa nú um allnokkra hríð verið haldin saman sem eitt risaíþróttaverkefni og það allra stærsta í heiminum fjórða hvert ár.
Ísland átti fjóra keppendur í sundi á Paralympics en það voru þau Róbert Ísak Jónsson, Már Gunnarsson, Thelma Björg Björnsdóttir og Sonja Sigurðardóttir. Þá keppti Ingeborg Eide Garðarsdóttir í kúluvarpi. Róbert Ísak Jónsson keppti í 100 m flugsundi S14 og komst í úrslit. Í undanrásum setti hann Íslandsmet í 50 m flugsundi á millitímanum 26,45 sek. og í úrslitum bætti hann svo 100 m metið er hann synti á 57,92 sek. og hafnaði í 6. sæti.
Glæsilegur árangur
Ingeborg Eide var önnur í rásröð keppenda en hún var á sínum fyrstu Paralympics. Ingeborg kastaði kúlunni lengst 9,36 metra og hafnaði í 9. sæti í flokki F37. Íslandsmet Ingeborgar er 9,83 m í greininni svo hún var aðeins frá sínu besta en fyrstu leikar hvers íþróttamanns geta verið snúnir.
Már Gunnarsson og Thelma Björg áttu sviðið 1. september. Bæði komust í úrslit og þar hafnaði Thelma í 7. sæti og það gerði Már líka þegar hann kom í bakkann á nýju Íslandsmeti í 100 m baksundi á tímanum 1:10,21 mín.
Sonja Sigurðardóttir rak svo smiðshöggið á þátttöku Íslands á leikunum en hún komst í úrslit í 50 m baksundi og endaði sjöunda á nýju Íslandsmeti á tímanum 1:07,82 mín. Lokagrein Sonju var svo 3. september en þá keppti hún í 100 m baksundi þar sem hún missti naumlega af sæti í úrslitum.
Forsetinn kíkti við
Það voru því fjögur Íslandsmet sem féllu við leikana að þessu sinni en ekki hafðist það að vinna til verðlauna. Ísland hefur frá árinu 1980 unnið til 98 verðlauna á Paralympics og hafa Íslendingar jafnan telft fram öflugu íþróttafólki við leikana í næstum hálfa öld.
Vert er að staldra við þá staðreynd og þakka kærlega öllum þeim er hafa varðað leiðina með íþróttafólkinu okkar, frá fjölskyldum, vinum, íþróttafélögum, þjálfurum og samstarfsaðilum. Þakkarlistinn er langur og verður seint fullþakkaður allur sá velvilji sem íþróttir fatlaðra hafa notið hérlendis í gegnum áratugina. Íslenski hópurinn fékk góða gesti í heimsókn meðan á veru hans stóð í París en frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands fór þá í sína fyrstu utanlandsferð sem forseti landsins. Stjórn og starfsfólk Íþróttasambands fatlaðra vill þakka forseta innilega fyrir komuna og stuðninginn í Frakklandi. Einnig heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra hópinn í París og fær kærar þakkir fyrir stuðninginn.
Nú er hafinn nýr Paralympic-hringur. Það má því með sanni segja að næstu fjögur árin verða viðburðarík hjá íþróttafólkinu okkar við að slípa til sína hæfileika og freista þess að vinna sér inn þátttökurétt á Paralympics í Los Angeles sem haldið verður árið 2028.
Áfram Ísland!