Knattspyrnudeild ÍA hefur verið sektuð um 75.000 krónur af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vegna viðtals Jóns Þórs Haukssonar, þjálfara karlaliðs félagsins, við mbl.is eftir tap ÍA gegn Víkingi úr Reykjavík í 26. umferð Bestu deildarinnar. Leiknum lauk með sigri Víkinga, 4:3, á Akranesi þann 19. október en Jón Þór var allt annað en sáttur með Elías Inga Árnason, dómara leiksins, eftir leikinn og lét hann heyra það í viðtali vð mbl.is.
Knattspyrnumaðurinn Ósvald Jarl Traustason, leikmaður Leiknis úr Reykjavík, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Ósvald, sem er 29 ára gamall, hefur leikið samfleytt með Leikni frá árinu 2017. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki en hefur einnig leikið með Fram og Gróttu á ferlinum. Alls á hann að baki 32 leiki í efstu deild.
Þór Andersen Willumsson, yngsti sonur heilbrigðisráðherrans Willums Þórs Þórssonar, er nú staddur á Ítalíu þar sem hann æfir með ítalska knattspyrnufélaginu Hellas Verona. Þór, sem er fæddur árið 2009, leikur með 3. flokki Breiðabliks í dag en eldri bræður hans, þeir Willum Þór og Brynjólfur Andersen, eru báðir í íslenska landsliðinu í dag.
Knattspyrnukonan Amelía Rún Fjeldsted er gengin til liðs við uppeldisfélag sitt Keflavík. Amelía, sem er tvítug, kemur til félagsins frá Fylki þar sem hún lék í sumar. Hún missti af stærstum hluta tímabilsins vegna meiðsla og kom aðeins við sögu í einum leik með liðinu í Bestu deildinni. Alls á hún að baki 57 leiki í efstu deild með Keflavík og Fylki þar sem hún hefur skorað fimm mörk.
Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Rodrigo Bentancur er að öllum líkindum á leið í sjö leikja bann vegna rasískra ummæla sem hann viðhafði um liðsfélaga sinn Son Heung-min hjá Tottenham. Bentancur kom sér í vandræði í sjónvarpsviðtali í sumar þar sem hann hélt því meðal annars fram að allir frá Asíu litu eins út.
Tómas Johannessen, leikmaður AZ Alkmaar í Hollandi, tryggði Íslandi sigur á Aserbaísjan, 2:0, í fyrsta leiknum í undankeppni Evrópumóts U19-ára karla í knattspyrnu í Chisinau í Moldóvu í gær. Tómas kom Íslandi yfir á 25. mínútu og innsiglaði svo sigur Íslands með marki á 89. mínútu. Ísland mætir Moldóvu í öðrum leik riðilsins á laugardaginn og síðan Írlandi í lokaumferðinni á þriðjudaginn.