Nú er sænska ástandið, sem áður mátti ekki nefna svo, orðið að norrænu ástandi, einnig íslensku

Fyrir nokkrum árum, þegar Donald Trump var forseti í fyrra sinn, þótti í senn hlægilegt og töluvert hneyksli þegar hann talaði um sænska ástandið vegna ofbeldis og glæpa þar í landi. Ýmsir, einkum á Norðurlöndunum, kepptust við að finna að þessum athugasemdum forsetans og töldu jafnvel til marks um hversu illa hann væri áttaður. Fljótlega kom þó á daginn að hann hafði mikið til síns máls og nýjast til marks um það er sameiginleg yfirlýsing allra formanna landssambanda lögreglumanna á Norðurlöndunum.

Í yfirlýsingunni er rætt um sænska ástandið og gengið enn lengra en áður, því að þar segir í upphafsorðum: „Orðræða um sænska ástandið sem lýsing á grófu brotaöldunni í Svíþjóð er notuð einnig í umræðunni á hinum Norðurlöndunum. En að tala um sænska ástandið er orðið úrelt. Í staðinn verður að ræða um norræna ástandið.“

Því næst rekja formennirnir ástandið í löndunum og segja að í Danmörku hafi ástand öryggismála verið alvarlegt lengi og hótunarmál tíð, glæpagengi fremji morð og árásir ungra brotamanna með tengsl við sænska hópa hafi færst í aukana.

Í Noregi sé þróunin ógnvekjandi, ofbeldisglæpir og gróf glæpastarfsemi ungs fólks og fólks á miðjum aldri séu áberandi á sama tíma og ógnanir gegn borgurum magnast. Þá séu í Finnlandi að störfum glæpahópar frá Svíþjóð og Eystrasaltsríkjunum og í Svíþjóð sé horft upp á barn sem myrði barn, auk barsmíða og sprenginga. Hótanir og ógnanir sem fylgi skipulagðri glæpastarfsemi aukist stöðugt, líkt og í hinum ríkjunum.

Hér á Íslandi hafi „metfjöldi manndrápsmála komið upp undanfarið. Jafnframt hafa komið upp mjög stór mansalsmál, auk þess sem hótanir og átök milli glæpahópa setja almenning í hættu. Loks hafa lögreglumenn í vaxandi mæli orðið fyrir hótunum og eignaspjöllum.“

Fram kemur í yfirlýsingunni að þetta séu aðeins nokkur dæmi um það sem norræn lögregla fáist við og að starfsumhverfið verði sífellt erfiðara. Ástandið sé ekki hægt að fegra og brotastarfsemin orðin slík að umfangi að ekki sé lengur hægt að vinna þessi mál með sama hætti og gert hafi verið.

Formennirnir gera í framhaldi af þessum ískyggilegu lýsingum kröfur um fleiri lögreglumenn og bættan aðbúnað að ýmsu leyti til að takast á við ástandið. Þetta sænska ástand, sem nú er orðið norrænt ástand og teygir anga sína einnig til Íslands, er grafalvarlegt. Það kallar á að ríkin nái tökum á landamærum sínum, efli löggæsluna og auki samstarfið til að kveða niður þá óværu sem hleypt hefur verið inn til þessara landa og leyft að smita út frá sér, vaxa og dafna allt of lengi.