Pétur Örn Jónsson, húsasmíðameistari á Akranesi, fæddist á Siglufirði 14. desember 1945. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 6. nóvember 2024.
Foreldrar hans voru Jón Gunnlaugsson, f. 15. nóvember 1915, d. 12. apríl 1984, og María Njálsdóttir, f. 7. maí 1917, d. 10.janúar 2003. Samfeðra bræður hans Péturs eru Friðbjörn G., f. 1936, og Hreinn, f. 1939, d. 2009. Sammæðra systkini hans eru Guðný Þórðardóttir, f. 1937, d. 2018, og Pétur Sighvats Þórðarson, f. 1940, d. 1945.
Hinn 1. desember 1979 kvæntist Pétur Sigrúnu Birnu Skarphéðinsdóttur, f. 1. ágúst 1950. Hún er dóttir Ragnheiðar Björnsdóttur, f. 3. september 1926, d. 27. ágúst 2010, og Skarphéðins Árnasonar, f. 31. mars 1924, d. 27. desember 2010. Synir Sigrúnar og fóstursynir Péturs eru Guðmundur Steinar Jónsson, f. 9. júlí 1972, og Héðinn Ragnar Jónsson, f. 18. febrúar 1974. Faðir Jón Sigurður Guðmundsson. Sameiginleg börn Péturs og Sigrúnar eru María Pétursdóttir Nilsson, f. 16. apríl 1980, og Friðbjörg Pétursdóttir Justesen, f. 20. nóvember 1985.
Börn Guðmundar eru Björn Andersson, Freyja Luid, og Gústaf Máni Guðmundsson. Fósturdóttir Héðins er Hulda Steinunn Óladóttir, og sonur Héðins og Borghildar Bjarnadóttir, f. 8. nóvember 1978, er Heiðar Breki. Fósturbörn Maríu og börn Andreasar Nilsson, f. 31. mars 1977, eru Amelie, Antonio, Bella, Jino og Elsa Nilsson. Börn Friðbjargar eru Pétur Kristian Martinsson Justesen, Per Kristin Martinsson Justesen og Sigrún María Martinsdóttir Justesen.
Pétur lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akraness. Hann stundaði trésmíðanám við Iðnskólann á Akranesi, lauk því 1967 og fékk meistararéttindi 1972. Hann vann við smíðar af ýmsu tagi eftir útskrift. Hann vann í 15 ár hjá Trésmiðjunni Akri. Næstu 10 ár sem eigin atvinnurekandi bæði einn og rak ásamt öðrum Trésmiðjuna Jaðar í nokkur ár. 1988 flutti fjölskyldan til Svíþjóðar og bjó þar í 17 ár.
Þar vann Pétur við smíðar og viðhaldsvinnu í byggingum Háskólans í Lundi og íþróttahúsum á vegum Malmöborgar og Malmö Stadion. Þau hjónin fluttu heim árið 2005 og vann hann þá hjá Trésmiðju Akraness við innréttingasmíði og tímabundið sem smíðakennari hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands.
Pétur deildi áhuga föður síns á tónlist og sungu þeir feðgar saman um áratuga skeið í Karlakórnum Svönum og kór Akraneskirkju. Pétur söng með ýmsum kórum bæði innanlands og erlendis alla ævi, t.d. sinfóníukórnum í Malmö og Óperukórnum í Reykjavík. Samkórinn Hljómur og endurreistur karlakórinn Svanir eru kórarnir þar sem hann skilaði sínum síðustu kórsöngvum. Hann hafði einnig mikinn áhuga á stangveiði, minntist oft á góðar veiðiferðir í hinar ýmsu ár og vötn með sínu fólki.
Útför Péturs fer fram frá Akraneskirkju í dag, 14. nóvember 2024, kl. 13. Streymi:
https://www.akraneskirkja.is/
Vertu sæll vinur, voru þau orð sem komu í huga minn við fregnina af andláti mágs míns, Péturs Arnar Jónssonar. Það var þó ekki svo að það hefði komið mér á óvart eftir þau langvarandi erfiðu veikindi sem hann var búinn að ganga í gegnum.
Pétri kynnist ég þegar þau rugluðu saman reytum Pétur og Sigrún Birna systir mín. Hún með tvo unga og fjöruga drengi frá fyrra hjónabandi, Guðmund Steinar og Héðin Ragnar, sem hann gekk í föðurstað og er ánægjulegt að heyra hversu vænt þeim þótti um hann og minnast hans með mikilli hlýju. Saman eignuðust þau dæturnar Maríu og Friðbjörgu.
Pétur var húsasmíðameistari og vann sem slíkur alla sína starfsævi meðan heilsan leyfði, bæði hér á landi og í Svíþjóð. Var hann mjög fær og faglegur á því sviði.
Pétur var mikill áhugamaður um tónlist og deildi þeim áhuga með föður sínum og byrjar líklega 17 ára að syngja með honum í Karlakórnum Svönum á Akranesi og líklega um sama leyti í Kirkjukór Akraneskirkju. Jón Gunnlaugsson faðir hans var mjög góður söngvari og söng gjarnan einsöng með þeim kórum sem hann starfaði í. Pétur var ekki mikið fyrir að hreykja sér af sínum hæfileikum eða troða sér fram í hæfileikaröðinni en tók við þeim tækifærum sem hann fékk á sviði söngsins og leysti þau verkefni af vandvirkni og eru til með honum nokkrar upptökur á plötum Karlakórsins Svana og Kirkjukórs Akraness frá tíma Hauks Guðlaugssonar. Haukur Guðlaugsson hafði á honum mikla trú sem söngvara og kom því til leiðar að hann fór til Þýskalands í söngnám hjá góðum kennara. Er ég hitt eitt sinn Hauk á kirkjukóranámskeiði sem hann hélt kynnti ég mig fyrir honum og sagði honum tengsl mín við Pétur þar sem ég vissi af þeirra góða sambandi. Var það eins og við manninn mælt að Haukur hóf óbeðinn lofræðu um hans miklu sönghæfileika. Það var ánægjulegt að fá þarna staðfest frá jafn virtum listamanni og Hauki það sem maður taldi sig vita.
Á árunum í Svíþjóð starfaði hann með Íslendingakórnum í Lundi og Sinfóníukórnum í Malmö, nú kór Sinfóníunnar, sem flutti ýmis áhugaverð verk og fékk ég eitt sinn að fylgja honum á æfingu í þeim kór er ég var þar á ferð. Ekki man ég í dag hvað verið var að æfa en greinilegt að þar var metnaður á ferð. Okkar leiðir lágu ekki mikið saman í söngnum enda ekki búsettir á sömu stöðum gegnum tíðina. Við sungum þó saman um nokkra hríð með Garðari Cortes í Óperukórnum í Reykjavík. Það yljar mér alltaf um hjartaræturnar þegar ég lít á myndina af flytjendum 9. sinfóníunnar eftir Beethoven undir stjórn Vladimirs Ashkenazy á fyrstu tónleikunum í Hörpu. Þar stöndum við saman mágarnir og við hina hliðina söngfélagi minn og gamall söngfélagi Péturs úr Kirkjukór Akraness og Karlakórnum Svönum, Ágúst Guðmundsson. Nokkurs konar Skagatenórtríó þar á ferð. Pétur söng í kórum meðan heilsan leyfði.
Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þessum öndvegismanni og eiga oft við hann þær samræður um tónlist sem við báðir höfðum yndi af. Takk fyrir samfylgdina.
Ættingjum öllum og vinum vottum við Maja innilega samúð okkar.
Sigurbjörn Skarphéðinsson.
Elsku Pétur minn, minn besti vinur og mágur, lést síðastliðinn þriðjudag. Það kom engum á óvart en hann fór samt fyrr en við vonuðumst eftir.
Pétur var svo mikið jólabarn. Ég kynntist honum 1967 og strax áttum við skap saman. Það var alltaf uppbyggjandi og miklar gæðastundir áttum við öll þessi ár. Pétur var bróðir Friðbjarnar. Ósjaldan gengu samræður þeirra út á tónlist, Pétur var afar góður söngmaður og söng í virtustu kórum þessa lands um tíma.
Við vorum sem sagt mjög náin, og brölluðum saman öll fjögur nema við Sigrún vorum haldnar eldunaráráttu á tímabili og náðum við miklum árangri í að elda eitthvað sem var nýtt og erfitt. Var hátíð þegar við fórum á Skagann, þar sem þau bjuggu og tengdaforeldrar mínir einnig. Við höfum nú róast með það, og vorum nú ekki með meiri metnað en það að við borðuðum saman siginn fisk.
Fundir okkar undanfarin tvö ár voru mjög langir, við fórum nánast yfir allt, en samt á ég svo mikið ósagt. Ég átti til dæmis eftir að segja takk við hann persónulega fyrir seinustu máltíðina, þá var augljóst hver hans vegferð var í raun.
Við vorum í raun farin að tala um allt, allt líf þeirra bræðra, en þeir ólust ekki upp saman. Þessar umræður voru einstaka sinnum þungar, en þeir báðir höfðu svo milda sýn að það er gott að við gerðum það meðan kraftur var, því Pétur var mjög tilfinningaríkur, og bróðir hans einnig. Við fengum einnig alltaf góð hlátursköst. Ég þekki fáa sem hafa svona mildan, léttan, stundum púkalegan húmor. Við getum ekki sagt við barnabarnið okkar sem spurði: „Hvert erum við að fara? Erum við að fara til konunnar og mannsins sem kunna svo vel að hlæja?“ spurði blessað barnið, það segir eiginlega allt.
Pétur var einn af þeim mönnum sem geta tárast og sagt góðan brandara á sama augnablikinu, hann gat aldrei látið sem ekkert væri, maður bara sá það. Ég þekki engan sem getur það í dag. Hann verður borinn til grafar í dag, og þótt hann væri vel við aldur, og við ekki síður, syrgjum við hann bæði, mér fannst hann ekkert hrörna, nema hann þurfti að hörfa undan þessum harða sjúkdómi.
Ég mun sakna stundanna okkar allra. Pétur verður boðinn velkominn af foreldrum sínum, sem höfðu breiðan og fallegan faðm sem þau gátu dreift til okkar, ég vil hugsa dauðann þannig. Hans verður saknað.
Sólveig J. Hannesdóttir.