Heimsleikar Special Olympics fóru fram í Berlín í Þýskalandi í júní 2023 en heimsleikar SOI eru haldnir fjórða hvert ár, sumar- og vetrarleikar. Sú regla gildir við val keppenda frá Íslandi að aðildarfélög fá að tilnefna iðkendur sem hafa mætt vel, sýnt góða félagslega hegðun og lagt sig fram við æfingar. Allir eiga því möguleika á að vera tilnefndir, burtséð frá árangri. Þegar á leikana er komið keppa allir við sína jafningja og blómstra á eigin verðleikum. Það voru 30 íslenskir keppendur sem mættu galvaskir til leiks í Þýskalandi þar sem þau tóku þátt í tíu greinum; áhaldafimleikum, badminton, boccia, borðtennis, frjálsum íþróttum, golfi og golfi unified, keilu, lyftingum, nútímafimleikum og sundi.
Sífellt fleiri tækifæri eru að skapast gegnum Special Olympics-samtökin. Nú hafa um 500 íslenskir keppendur fengið tækifæri til þátttöku í heimsleikum SOI og einnig hafa myndast tengsl milli landa þar sem aðildarfélög ÍF fá boð um að taka þátt í mótum í einstaka greinum. Alþjóðaleikar Special Olympics eru yfirleitt stærsti íþróttaviðburður heims, með um 7.000 keppendur á sumarleikum en vetrarleikar eru mun minni að umfangi.
Næstu heimsleikar Special Olympics eru vetrarleikar sem verða í Torínó á Ítalíu í mars 2025. Þar mun Ísland eiga fimm keppendur sem þátt taka í listhlaupi á skautum, dansi og skíðum. Í tengslum við leikana verður haldin ráðstefna ungmenna en þar verður íslenskur fulltrúi, Magnús Orri Arnarsson, með erindi þar sem hann segir sína sögu.