Viðbragð Björgunarfólk á æfingu á flugvelli. Slíkar eru haldnar reglulega, þar sem lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir og hjúkrunarfólk taka þátt.
Viðbragð Björgunarfólk á æfingu á flugvelli. Slíkar eru haldnar reglulega, þar sem lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir og hjúkrunarfólk taka þátt. — Ljósmynd/ISAVIA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugvél með eld í hreyfli hlekkist á við lendingu og brotlendir svo eldur brýst út. Hundrað manns sem eru um borð í vélinni sakar. Þetta er sviðsmyndin sem unnið verður samkvæmt í flugslysaæfingu sem haldin verður á Keflavíkurflugvelli næstkomandi laugardag, 16

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Flugvél með eld í hreyfli hlekkist á við lendingu og brotlendir svo eldur brýst út. Hundrað manns sem eru um borð í vélinni sakar. Þetta er sviðsmyndin sem unnið verður samkvæmt í flugslysaæfingu sem haldin verður á Keflavíkurflugvelli næstkomandi laugardag, 16. nóvember. Isavia og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að æfingunni, sem reglum samkvæmt er haldin þriðja til fjórða hvert ár.

„Þetta er verkefni sem kallar á viðamikinn og flókinn undirbúning, enda þótt komin sé ágæt reynsla í því að setja upp svona verkefni. Alls koma um 400 manns hið minnsta að æfingunni; um 100 manns leika þolendur en hitt eru viðbragðsliðar til dæmis frá flugvellinum, slökkviliði, lögreglu, björgunarsveitum, Rauða krossinum, Landhelgisgæslunni og fleirum,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnisstjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia.

Í æfingunni á laugardag verður bílflökum stillt upp og eldur borinn að. Í þessum aðstæðum verður fólk sem leikur slasaða – og hlutverk björgunarliða þarna er meðal annars að klippa til járn, losa um fólkið og flytja á söfnunarsvæði. Þar verða ráð lögð á um aðhlynningu þess, meðal annars á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ. Einnig tekur Landspítalinn þátt í æfingunni, en viðbúnaðaráætlanir þær sem gilda fyrir Keflavíkurflugvöll gera ráð fyrir að í flugslysi sendi þeir starfsmenn til aðstoðar og verði sjúklingar í talsverðum mæli sendir þangað.

Áætlanir og skráðir ferlar

„Fyrir alla helstu flugvelli landsins eru til viðbúnaðaráætlanir og skráðir ferlar um hvernig bregðast skuli við. Þetta þarf að æfa og er gert mjög reglulega á þeim völlum þangað sem er áætlunarflug. Nýlega höfum við verið á Hornafirði, Gjögri og Grímsey og nú er komið að Keflavík, þar sem eðlilega eru umfangsmestu æfingarnar,“ segir Elva.