Hreinskilni Emmsjé Gauti leggur mikla áherslu á hreinskilni og samkennd í samskiptum og viðskiptum.
Hreinskilni Emmsjé Gauti leggur mikla áherslu á hreinskilni og samkennd í samskiptum og viðskiptum. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það var líf og fjör þegar Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, mætti í Bráðavaktina hjá Evu Ruzu og Hjálmari Erni. Gauti fór um víðan völl í viðtalinu og kynnti nýjustu afurðir sínar – þar á meðal ný spil sem hafa vakið…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

„Það var líf og fjör þegar Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, mætti í Bráðavaktina hjá Evu Ruzu og Hjálmari Erni. Gauti fór um víðan völl í viðtalinu og kynnti nýjustu afurðir sínar – þar á meðal ný spil sem hafa vakið athygli og nýtt lag sem hann samdi með grunnskólabörnum í samstarfi við verkefnið Málæði, sem hefur það markmið að hvetja unglinga til að leika sér með íslenskuna.

Læti, Blæti og „spilasessíon“ í beinni

Gauti kynnti nýjustu útgáfuna af spilinu Læti, sem sló í gegn á síðasta ári, ásamt nýju spili sem hann kallar Blæti – töluvert dónalegri útgáfu.

Gauti varaði hlustendur við áður en Eva og Hjálmar hófu að prófa spilið í beinni, enda má segja að það hafi verið nálægt því að vera óviðeigandi í útvarpi. Þau fengu engu að síður að taka þátt í „spilasessíoninu“ og það var mikið um hlátur þegar þau reyndu að fylgja reglunum.

Eva lýsti yfir ánægju sinni með hversu þægilegt væri að taka Blæti með sér, sérstaklega í ferðalög: „Þetta er ekkert Risk – það er spilið sem nánast eyðilagði fjölskylduna mína,“ svaraði Gauti, og útskýrði að fjölskyldan væri enn að jafna sig eftir slíka reynslu.

„Ég seldi enga miða!“

Gauti ræddi einnig um viðhorf sitt um mikilvægi heiðarleika og umburðalyndis í viðtalinu en hann sagði meðal annars frá því þegar hann þurfti að hætta við tónleika vegna slakrar miðasölu á dögunum.

„Ég ákvað að vera bara hreinskilinn og segja frá því að engir miðar seldust – frekar en að segjast vera veikur eða eitthvað,“ sagði hann. Gauti og Hjálmar rifjuðu einnig upp þegar Læti kom út og sló í gegn á síðasta ári en þá gaf Hjálmar einnig út spilið Heita sætið, sem varð álíka vinsælt. Þeir minntust þess hvernig þeir höfðu „barist“ um sölutölur fyrir spilin. Gauti sagði frá því hvernig hann ákvað að setja heiðarleikann í fyrirrúm og hringja í Hjálmar til að spyrja hvort honum væri sama þó Læti væri kynnt sem „mest selda spilið“ þrátt fyrir að mjótt hefði verið á munum. Eva hrósaði honum fyrir heiðarleikann og bætti við að karmastig Gauta væru sannarlega í hæstu hæðum.

Ættu að fá þrjár milljónir á mánuði

Gauti ræddi einnig um þátttöku sína í verkefninu „Málæði“ sem hefur það að markmiði að efla íslenskuna hjá ungu fólki. Í samstarfi við verkefnið, sem er á vegum Listar fyrir alla, samdi hann nýtt lag með nemendum í Brekkuskóla á Akureyri, sem verður frumflutt á RÚV á degi íslenskrar tungu. Gauti lýsti því hvernig hann eyddi heilum degi með nemendum í skólanum og fékk þar innsýn í krefjandi starf kennara.

„Ég hugsaði strax: Ég ætti að vera á betri launum!“ sagði hann og hló en bætti við: „Þetta fólk á að vera með þrjár milljónir á mánuði, í alvöru talað. Vitiði álagið sem er á kennurum? Ég er með þrjú börn heima, og það er vinna. Þú ert með börn sem þú elskar ekki, allan daginn.“

Hann tók einnig fram að eiginkona hans væri kennari og að honum væri því enn kærara að styðja þennan málstað.

Kom hitalaus heim

Í spjallinu deildi Gauti einnig skondinni reynslu sinni af því að vera á tónleikum þrátt fyrir
veikindi og lýsti því hvernig hann tók þrjú gigg á einu kvöldi á dögunum, þrátt fyrir hita og magapest. Á einu gigginu hitti hann einmitt Evu Ruzu og Hjálmar, sem sáu langar leiðir að hann var fárveikur.

„Ég vildi ekki segja ykkur það þá en þetta var ekki bara hiti. Þetta var upp og niður og alls konar. En það var nóttina áður,“ viðurkenndi Gauti og lýsti því hvernig væri að reyna að halda uppi stemningunni og hækka í gleðinni þegar manni líður virkilega illa. Hann sagðist þó hafa gert mikilvæga uppgötvun þetta kvöld.

„Ég þarf eiginlega að láta rannsaka þetta. Ég tók þrjú gigg þetta kvöld og tók hitamæli með mér,“ sagði Gauti og lýsti því hvernig hitinn virtist lækka eftir hvert einasta gigg.

„Ég kem heim hitalaus. Ég er ekki að djóka! Þá var ég bara: Ég ætla að hringja í Kára Stefánsson og segja honum að ég sé með lækninguna við hita. Það er bara rapp. Og það þarf að rappa strax!“ lýsti Gauti kíminn og tók undir að það gæti verið flókið að vera tónlistarmaður og þar af leiðandi verktaki með enga veikindadaga.

„Það er of mikil einföldun að tala um tölur en þetta var rosa fínt kvöld af því að ég var með þrjú gigg. Umboðsmaðurinn minn hringdi í mig og spurði mig hvort ég vildi ekki bara vera heima. Ég sagði: Ég ætla ekki að fá bæði niðurgang og engan pening. Þú veist. Það er tvöföld niðurlæging,“ lýsti hann kíminn.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir