Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Alls hafa 118 einstaklingar þegið styrk frá Vinnumálastofnun, VMST, til að sækja sér aukin ökuréttindi til leigubílaaksturs, en einnig önnur réttindi svo sem meirapróf á vörubifreiðar. Ætla má að langflestir hafi sótt námskeið til aksturs leigubíla, en það er Ökuskólinn í Mjódd sem heldur námskeið fyrir þá sem sækjast eftir slíkum réttindum.
Þar er bæði um að ræða svokallaða „harkara“ sem og þá sem sækjast eftir leyfi til reksturs leigubíla. Um 60% þessara manna eru útlendingar og eru þeir af 24 þjóðernum. Þetta kemur fram í svari Vinnumálastofnunar við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Ekki eru tiltækar upplýsingar um þjóðerni styrkþega til leigubílaaksturs, eldri en frá október í fyrra, þannig að þeir 118 sem hér um ræðir hafa allir sótt námskeið síðustu 12 mánuði rúma.
VMST hefur heimild til styrkveitinga af þessu tagi skv. reglugerð, sem heimilar að veita atvinnuleitanda fjárstyrk til að sinna starfstengdu námi eða námskeiði sem er líklegt að sé til þess fallið að skila viðkomandi árangri við að finna sér starf. Aðeins þeir geta fengið styrk sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Heildarfjárhæð veittra styrkja sl. ár er tæplega níu milljónir króna, en fjárstyrkurinn getur að hámarki verið 75% af námskeiðsgjaldi, þó aldrei hærri en 80.000 kr. á ári til hvers og eins.
Af styrkþegum eru íslenskir ríkisborgar 49 talsins, en útlendingar 69. Flestir útlendinganna, 30 talsins, eru frá Póllandi, næstflestir eru frá Írak, en þeir eru 5 og 4 eru frá nágrannaríkinu Íran. Frá Sýrlandi og Afganistan eru 3 frá hvoru landi, 2 frá Palestínu, Egyptalandi, Rúmeníu, Lettlandi og Portúgal. Þá er 1 frá hverju eftirtalinna landa: Egyptalandi, Marokkó, Jemen, Nígeríu, Serbíu, Kína, Pakistan, Eistlandi, Úkraínu, Svíþjóð, Finnlandi, Frakklandi, Spáni og Þýskalandi.
Rétt er að halda til haga að framangreindar upplýsingar taka aðeins til þeirra sem rétt höfðu til atvinnuleysisbóta, þannig að vísast hafa fleiri sótt téð námskeið til að afla sér leigubílaréttinda. Styrkirnir hafa verið veittir frá 2020, en reglugerð þar um var sett í september það ár.