Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta frá árinu 2011 eru um sjö þúsund færri en áður var áætlað. Hins vegar hafa tæplega þúsund færri íslenskir ríkisborgarar flust frá landinu umfram aðflutta á sama tímabili en áður var áætlað.
Þetta má lesa úr endurskoðuðum tölum Hagstofu Íslands um búferlaflutninga en nýjar og eldri tölur eru bornar saman á grafi hér fyrir ofan. Niðurstaðan er að frá árinu 2011 hafa 10.233 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess en ekki 11.220 eins og áður var ætlað. Munar nærri þúsund manns.
Sjö þúsund færri en ætlað var
Þá áætlar Hagstofan nú að 66.496 erlendir ríkisborgarar hafi flutt frá landinu frá árinu 2011 en ekki 73.560 eins og áður var ætlað. Munar þar 7.064 og eru þá líka taldir með tveir brottfluttir erlendir ríkisborgarar á árinu 2004. Frá síðustu áramótum hafa svo 70 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess og 3.820 fleiri erlendir ríkisborgarar flust til landsins en frá því.
15.245 færri en talið var
Hagstofa Íslands birti í mars síðastliðnum greinargerð um nýja aðferð við mat á íbúafjölda á Íslandi: „Hagstofa Íslands hefur endurbætt aðferð sína við útreikninga á mannfjölda. Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár. Niðurstaðan er sú að 1. janúar 2024 hafi íbúar verið um 15.245 þúsund færri en eldri aðferð gaf til kynna og má það ofmat að mestu rekja til innflytjenda frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins,“ sagði þar. Skv. Hagstofunni bjuggu 388.790 manns á Íslandi í lok 3. ársfjórðungs en skv. þjóðskrá búa nú 405.907 einstaklingar á Íslandi.