Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Jákvæð þróun varð bæði í ávísunum og afgreiðslu á ópíóíðum á síðasta ári. Leystu færri út lyf í flokki ópíóíða á árinu 2023 en árið á undan. Einnig var um að ræða minnsta magn ópíóíða á síðasta ári, miðað við mannfjölda, sem afgreitt hefur verið frá upphafi skráningar í lyfjagagnagrunn.
Þetta kemur fram í greiningu Védísar Helgu Eiríksdóttur og Jóhanns M. Lenharðssonar á þróun notkunar ópíóíða sem afgreiddir voru gegn ávísun á árinu 2023 miðað við fyrri ár, sem birt er í Talnabrunni, fréttabréfi embættis landlæknis.
„Fækkun varð milli ára á fjölda einstaklinga sem leystu út lyfjaávísun á ópíóíða, úr 69.228 einstaklingum árið 2022 í 62.545 árið 2023. Hlutfall einstaklinga sem leystu út að minnsta kosti eina ávísun á ópíóíða árið 2023 var 162/1.000 íbúa sem er líkara því hlutfalli sem var árið 2020 (156/1.000 íbúa) en fyrir þann tíma hafði notkun ópíóíða dregist saman frá því hún var mest árið 2016. Sem fyrr er umtalsverður munur á notkun ópíóíða eftir kyni og eru konur meirihluti notenda. Árið 2023 leystu 18,8% allra kvenna (188/1.000 konur) út ávísun á ópíóíða samanborið við 13,2% karla (132/1.000 karla) [...],“ segir í greininni í Talnabrunni.
Notkunin fer vaxandi með hækkandi aldri
Rifjað er upp að vinnuhópur landlæknis og fleiri embætta, sem skoðaði á síðasta ári gögn um sölu og afgreiðslu á ópíóíðum vegna vaxandi misnotkunar ópíóíða, komst að raun um að fjölgun þeirra sem leystu út lyf í flokki ópíóíða á árinu 2022 var rakin til notkunar á Parkódíni í tengslum við covid-faraldurinn. Á þeim tíma fengu lyfjafræðingar í apótekum tímabundna heimild til að afgreiða tíu stykkja pakkningar af Parkódíni án ávísunar frá lækni vegna útbreiðslu covid-19. Til að aðgreina þessi áhrif covid-19 á notkun ópíóíða skoða höfundar greinarinnar í Talnabrunni notkunarmynstrið án tíu stykkja pakkninganna og kemur þá í ljós að af þeim ríflega 62 þúsund einstaklingum sem leystu út ópíóíða í fyrra voru tæp þrjú þúsund sem leystu eingöngu út tíu stykkja Parkódínpakkningar.
Fram kemur í greininni að notkun ópíóíða vex með hækkandi aldri en á árinu 2023 leystu rúmlega 34% einstaklinga yfir áttræðu út ávísun á ópíóíða.
Samdráttur varð í notkun ópíóíða á síðasta ári í öllum aldursflokkum miðað við árin 2021 og 2022, að undanskildum aldurshópnum 67-79 ára.
Ef skoðað er afgreitt magn ópíóíða í skilgreindum dagskammti lyfja á hverja þúsund íbúa (DDD) kemur á daginn að í fyrra var afgreitt magn hið minnsta sem afgreitt hefur verið frá því að miðlæg skáning á lyfjanotkun hófst í lyfjagagnagrunn. Lyf í flokki blöndu af kódeíni og parasetamóli eru mest notuðu lyfin í flokki ópíóíða, eða tæp 68% af heildarmagninu í fyrra. Parkódín og Parkódín forte eru í þessum lyfjaflokki.
Notkun oxýkódóns eykst
Einnig má sjá í Talnabrunni að í fyrra fjölgaði þeim sem fengu afgreidd sterk verkjalyf sem innihalda morfín, oxýkódon eða blöndu oxýkódons/naloxóns. Höfundar lýsa áhyggjum af vaxandi notkun oxýkódons í samantekt greinarinnar.
„Fleiri fengu ávísað oxýkódoni eða blöndu af oxýkódoni og naloxóni árið 2023 samanborið við fyrri ár og aukning varð á afgreiddu magni þessara lyfja. Vísbendingar eru um að þeir sem fengu ávísað oxýkódoni eða blöndu af oxýkódoni og naloxóni hafi fengið lítið magn afgreitt. Þetta má ráða af því að hlutfallsleg aukning varð á fjölda þeirra sem fá 0-9 dagskammta afgreidda (79% af heild) á meðan færri fá afgreidda háa dagskammta af oxýkódoni eða blöndu af oxýkódoni og naloxóni (6%). Þrátt fyrir þetta er áhyggjuefni að notkun oxýkódons fari vaxandi,“ segir í greininni.
Svipuð þróun annars staðar á Norðurlöndum
Ísland er efst í samanburði á seldu magni ópíóíða við önnur norræn ríki, sem stafar fyrst og fremst af meiri notkun lyfja hér á landi sem innihalda blöndu parasetamóls og kódeíns.
„Sala á ópíóíðum á Íslandi fer nú aftur minnkandi eftir að hafa staðið í stað eða aukist lítillega í tengslum við COVID-19 faraldurinn á árunum 2021 og 2022. Þessi þróun er í samræmi við það sem á sér stað í hinum Norðurlöndunum en þar hefur verið stöðugur samdráttur í sölu þessara lyfja frá árinu 2010, þó í mismiklum mæli,“ segir í greininni.
Fram kemur að yfirstandandi innleiðing miðlægs lyfjakorts muni gera læknum enn auðveldara um vik að koma í veg fyrir óhóflegar ávísanir ávana- og fíknilyfja.