Umræðu-, frétta- og viðtalsþættir Dagmála á mbl.is eru nú orðnir 1.000 talsins, eins og fram kemur hér ofar á síðunni.
Frá fyrsta degi hafa Dagmál fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af umræðunni í íslensku samfélagi. Dagmál hófu fyrst göngu sína hinn 26. febrúar árið 2021 og í þeim hefur allar götur síðan verið fjallað um helstu málefni íslensks samfélags ásamt því að setja brýn mál á dagskrá sem teygja anga sína víða.
Fyrsti þáttur Dagmála var í umsjón Stefáns Einars Stefánssonar, þáverandi fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu og nú stjórnanda Spursmála, sem tók Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka, tali. Þar var efnahagslífið til umræðu og staða bankans rædd í samhengi við tugmilljarða arðgreiðslur sem þá stóð til að greiða til hluthafa.
Þáttarstjórnendur hafa fengið til sín þúsundir viðmælenda úr ýmsum geirum samfélagsins til að fara yfir það sem efst er á baugi hverju sinni. Viðtölin hafa mörg hver vakið athygli. Hafa áskrifendur Morgunblaðsins fengið að lesa brot úr viðtölum Dagmála sama dag og þau hafa síðan birst á mbl.is.