Alþingi Frumvörp um eldi og fiskveiðar kunna að heyra sögunni til.
Alþingi Frumvörp um eldi og fiskveiðar kunna að heyra sögunni til. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Mjög fátt bendir til þess að Alþingi afgreiði umdeild frumvörp fráfarandi ríkisstjórnar um stjórnun fiskveiða og eldisgreinar og er óljóst hvort verður af þeim breytingum sem boðaðar voru eftir kosningar

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Mjög fátt bendir til þess að Alþingi afgreiði umdeild frumvörp fráfarandi ríkisstjórnar um stjórnun fiskveiða og eldisgreinar og er óljóst hvort verður af þeim breytingum sem boðaðar voru eftir kosningar. Kostnaður ríkissjóðs og þar með skattgreiðenda við gerð frumvarpanna er tæpar 217 milljónir króna.

Árið 2022 hrinti þáverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, af stað víðtæku stefnumótunarferli undir merkjum „Auðlindin okkar“ sem skila átti heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu og stuðla að aukinni samfélagslegri sátt um íslenskan sjávarútveg. Voru 46 einstaklingar skipaðir í fjóra starfshópa, eina verkefnisstjórn og eina samráðsnefnd.

Verkefninu „Auðlindin okkar“ lauk með birtingu frumvarpsdraga í samráðsgátt stjórnvalda og var kostnaður við verkefnið 109,8 milljónir króna að því er fram kemur í svari matvælaráðuneytisins.

Mikil gagnrýni

Óhætt er að segja að frumvarpsdrögin hafi fengið misgóðar viðtökur og sættu þau gagnrýni bæði stéttarfélaga sjómanna og hagsmunasamtaka útgerða og víða í samfélaginu. Frumvarpið fékkst ekki afgreitt á síðasta þingi en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem nýverið lét af störfum sem matvælaráðherra, hugðist leggja það fram á ný í október síðastliðnum, samkvæmt þingmálaskrá stjórnarráðsins. Ekkert varð úr þeirri áætlun enda var stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri-grænna slitið.

Enginn flokkur sem nú býður fram til þings hefur sérstaklega boðað að taka málið upp að nýju og bendir því flest til þess að frumvarpið heyri alfarið sögunni til.

Þvældist fyrir ríkisstjórn

Öðru stefnumótunarverkefni kom Svandís í framkvæmd 2023 í þeim tilgangi að móta stefnu um fiskeldi og leggja fram tillögu að nýjum heildarlögum um lagareldi (samheiti fyrir eldis- og ræktunargreinar). Heildarkostnaður við stefnumótun um lagareldi var 106,9 milljónir króna, segir í svari matvælaráðuneytisins.

Stefnt var að því að leggja frumvarpið fyrir Alþingi á vorþingi 2024 og kynnti Bjarkey frumvarpsdrögin í byrjun maí síðastliðins. Ekki fengu þau blíðar viðtökur og var sérstaklega gagnrýnt að afhenda skyldi nýtingarrétt eldissvæða til langs tíma, þrátt fyrir að vonir hafi staðið til að það myndi réttlæta frekari gjaldtöku á sjókvíaeldi.

Óeining innan ríkisstjórnarinnar um innihald frumvarpsins, m.a. sektarfjárhæðir fyrir brot gegn ákvæðum laganna, leiddi til þess að framlagningu þess var frestað fram á haust. Sem fyrr segir slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu og er ekki að sjá að frumvarpið verði til umfjöllunar í þinginu fyrir kosningar 30. nóvember.

Eining virðist vera um það á vettvangi stjórnmálanna að þörf sé á skýrum lagaramma um lagareldi á Íslandi, en það bíður nýrrar ríkisstjórnar og nýs þings að finna lendingu í málinu. Óljóst er hversu mikið af þeirri vinnu sem þegar var unnin mun skila sér í endanlega útfærslu nýrra laga.