Landsliðið Sverrir Ingi Ingason ræddi við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í Alicante á Spáni í gær.
Landsliðið Sverrir Ingi Ingason ræddi við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í Alicante á Spáni í gær. — Morgunblaðið/Jóhann Ingi
Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, gekk í raðir gríska stórliðsins Panathinaikos frá Midtjylland í Danmörku síðasta sumar. Varnarmaðurinn kann afar vel við sig í Grikklandi en hann var í tæp fimm ár hjá PAOK þar í landi áður en hann skipti til Midtjylland

Í Alicante

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, gekk í raðir gríska stórliðsins Panathinaikos frá Midtjylland í Danmörku síðasta sumar. Varnarmaðurinn kann afar vel við sig í Grikklandi en hann var í tæp fimm ár hjá PAOK þar í landi áður en hann skipti til Midtjylland. Eftir stutt stopp í Danmörku er hann kominn aftur til Grikklands.

„Ég er ánægður að vera kominn aftur. Ég er búinn að spila mikið og það hefur verið uppgangur í þessu hjá okkur,“ sagði Sverrir Ingi í samtali við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í Alicante á Spáni, þar sem liðið undirbýr leik við Svartfjallaland í Þjóðadeildinni á laugardag.

„Við byrjuðum ekkert frábærlega í deildinni en höfum verið að safna stigum núna og við erum í ágætismálum. Það kemur hörkuprógramm eftir þessa landsleiki og næstu vikur eru spennandi,“ sagði Sverrir.

Hann viðurkenndi að það hefði ekki verið á stefnuskránni að koma aftur til Grikklands svo stuttu eftir að hann yfirgaf PAOK enda gerði hann fimm ára samning við Midtjylland.

„Það var ekki planið en fótboltinn er þannig að það koma aðstæður þar sem þú þarft að líta í kringum þig. Panathinaikos var það félag sem mér leist best á í sumar. Ég er ánægður með að vera kominn þangað aftur. Ég þekki Grikkland og grísku deildina mjög vel og mér leið vel í Grikklandi,“ sagði Sverrir.

Hörður hjálpað mikið

Hörður Björgvin Magnússon er liðsfélagi Sverris í Panathinaikos en þeir hafa ekkert leikið saman vegna meiðsla Harðar, sem sleit krossband fyrir 14 mánuðum. Hörður er byrjaður að æfa en er ekki klár í keppnisleiki.

„Hörður er búinn að vera að æfa á fullu og að komast af stað. Vonandi nær hann að vera með liðinu innan skamms. Hann hefur verið að æfa vel en við vitum að krossbandsslit eru erfið. Þau taka langan tíma og það er mikilvægt að hann sé ekki að fara af stað of snemma. Hann kemur sterkur til baka eftir nokkrar vikur,“ sagði Sverrir.

Íslendingarnir eru góðir vinir og Sverrir er þakklátur að hitta fyrir Íslending hjá nýju félagi.

„Við eigum stelpur á svipuðum aldri og við reynum að vera mikið saman, sem er frábært. Hörður er búinn að vera þarna í einhver þrjú ár og það er gott að vera með Íslending innan þinna raða sem getur bent þér á ýmislegt. Hann hefur hjálpað mér mikið síðan ég kom,“ sagði hann.

Það er gríðarleg spenna á toppi grísku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. Aris, AEK og Olympiacos eru jöfn á toppnum með 21 stig. Panetolikos er í sjötta sæti með 18 stig. Sverrir og félagar eru í fimmta sæti með 19 stig, tveimur stigum frá toppliðunum.

„Þetta er í fyrsta skipti síðan ég kom í grísku deildina að þetta er svona jafnt. Venjulega áttu ekki séns ef þú byrjar ekki vel, því þú ert skilinn eftir. Öll liðin eru að tapa stigum núna þar sem minni liðin hafa verið að styrkja sig með sterkari leikmönnum en áður. Deildin verður skemmtilegri fyrir vikið,“ útskýrði Sverrir.

Erfitt að skilja hvað gerðist

Sverrir og liðsfélagar hans hjá Panathinaikos urðu fyrir miklu áfalli 9. október síðastliðinn er George Baldock leikmaður liðsins drukknaði á heimili sínu. Hann var aðeins 31 árs þegar hann lést. Sverrir og Baldock voru nánir og um áfall fyrir íslenska landsliðsmanninn að ræða.

„Það var gríðarlega erfitt. Þetta gerðist í síðasta landsliðsverkefni. Við George náðum virkilega vel saman og við eyddum tíma saman utan vallar. Hann var einn af þeim leikmönnum sem stóðu næst mér.

Þetta var rosalegt sjokk og maður trúði þessu varla til að byrja með. Ég átti erfitt með að skilja hvað hafði gerst. Stundum gerast hlutir í þessu lífi þar sem er lítið um svör. Það var hræðilegt atvik sem varð til þess að við misstum hann,“ sagði Sverrir.

Það hjálpaði Sverri og öllum innan Panathinaikos að fá að vera viðstaddir jarðarför Baldocks.

„Fyrstu tvær, þrjár vikurnar á eftir voru mjög erfiðar. Við í liðinu ferðuðumst saman í jarðarförina hans, sem var gott. Það var gott fyrir liðið að fá að vera nálægt fjölskyldu hans og vinum og ná að kveðja hann almennilega. Þetta er erfitt mál og skrítið í alla staði. Það er ömurlegt að hann skuli ekki vera með okkur í dag,“ sagði hann.

Gott að fá að kveðja hann

Panathinaikos ætlar að halda áfram að greiða fjölskyldu leikmannsins laun út samningstíma hans.

„Félagið er búið að standa sig gríðarlega vel og hefur gert allt hvað það getur til að standa við bakið á fjölskyldunni. Lífið er þannig að það koma upp erfið málefni sem þarf að takast á við. Við höfum tekist á við þetta sem einstaklingar og lið undanfarnar vikur. Þetta hefur verið skrítið,“ sagði Sverrir.

Hann viðurkenndi að það hefði verið erfitt að spila fyrstu leikina eftir áfallið en það kom upp þegar Sverrir var á Íslandi í landsliðsverkefni.

„Þetta gerðist tveimur dögum fyrir Wales-leikinn og ég hef aldrei áður lent í því að missa einhvern náinn mér, ég var með honum daglega og þekki konuna hans og börn. Hugurinn leitaði alltaf þangað á meðan maður var að reyna að halda fókus á vellinum.

Oft taka stærri hlutir við í höfðinu á þér. Maður lærir að lifa með þessu og lærir að lifa áfram. Maður sá að það var mikil sorg innan liðsins. Fólk átti erfitt með þetta, sem er skiljanlegt. Síðustu vikur höfum við verið að læra að lifa með þessu. Að fá að kveðja hann var gott,“ sagði Sverrir um George Baldock heitinn.

Spennandi að fá úrslitaleik

Sverrir lék ekki fyrri leikinn gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni, þar sem Ísland vann 2:0-sigur og spilaði vel.

„Það var flottur leikur hjá okkur. Við skoruðum tvö mörk úr föstum leikatriðum, héldum hreinu og það var sterkur sigur. Það var fyrsti leikur beggja liða í Þjóðadeildinni og bæði lið hafa verið að bæta sig. Þetta er gott lið með fína leikmenn. Bæði við og þeir erum á betri stað en síðast þegar við mættumst.

Frammistaðan hjá okkur hefur verið góð og stigafjöldinn gefur ekki endilega rétta mynd af því hvernig við höfum spilað. Við verðum að nýta okkur það sem við gerðum vel í síðustu leikjum og ná að laga það sem mátti betur fara. Þá höfum við fína möguleika,“ sagði Sverrir.

Eftir leikinn við Svartfjallaland tekur við leikur við Wales á útivelli. Fari svo að Ísland vinni í Svartfjallalandi og Wales tapi gegn Tyrklandi á útivelli leika Ísland og Wales hreinan úrslitaleik í Cardiff um annað sæti riðilsins og sæti í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar.

„Við ætlum að vinna í Svartfjallalandi og vonandi dugar það til að fá úrslitaleik í Wales. Það væri mjög spennandi og við teljum okkur vera með nógu gott lið til að það geti orðið að veruleika,“ sagði Sverrir.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson