Ólafsdalur Reisuleg bygging á einstökum minjastað við afskekktan fjörð.
Ólafsdalur Reisuleg bygging á einstökum minjastað við afskekktan fjörð. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir spennandi möguleikar til vaxtar og sóknar geta falist í því að stofna þjóðgarð í Ólafsdal við Gilsfjörð. Þetta segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, fulltrúi í sveitarstjórn Dalbyggðar, hvar tillögur um þjóðgarð verða nú teknar til umræðu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Margir spennandi möguleikar til vaxtar og sóknar geta falist í því að stofna þjóðgarð í Ólafsdal við Gilsfjörð. Þetta segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, fulltrúi í sveitarstjórn Dalbyggðar, hvar tillögur um þjóðgarð verða nú teknar til umræðu. Starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins kynnti á dögunum hugmyndir sínar um eflingu byggðar í Dalabyggð með tilliti til þeirra málaflokka sem ráðuneytið sinnir. Meðal annars er lagt til að leggja nýjan rafstreng frá Stykkishólmi í Dali og tryggja þannig betri flutningsgetu raforku á svæðið. Einnig að stutt verði við græna atvinnuuppbyggingu á svæðinu með átaksverkefni í jarðhitaleit.

Tenging við nærsamfélagið er mikilvæg

Af því sem starfshópurinn kynnti vekur þjóðgarðshugmyndin mesta athygli. Þar er lagt til að byrjað verði smátt; það er í Ólafsdal sem er innarlega í sunnanverðum Gilsfirði. Í kynningu er greint frá að staðurinn sé einstakur með tilliti til landbúnaðar- og atvinnusögu Íslands. Þar starfrækti Torfi Bjarnason fyrsta bændaskóla á Íslandi á árunum 1880-1907 og frá þeim tíma eru ýmsar minjar á svæðinu.

Þá hafa í fornleifauppgreftri í Ólafsdal fundist ýmsar merkar minjar; meðal annars landnámsskáli frá 10. öld. Þessi sögulegi arfur sé nokkuð til að byrja á; og svo megi alltaf stækka þjóðgarðinn út í samræmi við aðstæður og áhuga.

„Þjóðgarður og starfsemi hans þarf að hafa góða tengingu við nærsamfélagið og atvinnuhætti þess. Ég tel reyndar að þarna verði vel fyrir slíku séð,“ segir Eyjólfur Ingvi. Ferðaþjónusta sé vaxandi vegur í Dölum og þar geti þjóðgarður verið aðdráttarafl, enda séu góðir innviðir með gönguleiðum og slíku byggðir upp á svæðinu. Annars sé landbúnaður mikilvægur þáttur í atvinnulífi í Dölum, þá einkum sauðfjárrækt. Mikilvægt sé að tillit sé tekið til þess meðal annars í friðlýsingarskilmálum þjóðgarðs svo allir geti unað við sitt.

„Þjóðgarði þurfa ekki endilega að fylgja stíf boð eða bönn. Alltaf má fara milliveginn og ná sátt um hlutina. Ég hugsa til dæmis að afurðir bænda á svæðinu gætu út á þetta fengið kynningu og orðið virðismeiri. Enda er hér gósenland,“ segir Eyjólfur Ingvi.

Tilgáta og landafundir

Hvað varðar hugsanlega stækkun þjóðgarðsins út fyrir Ólafsdal í fyllingu tímans segir Eyjólfur möguleikana marga. Sérstæð náttúra sé á hinni söguríku Skarðsströnd og við Klofning. Fyrir utan sé Breiðafjörðurinn með sínum óteljandi eyjum; sérstakur heimur hvort sem litið sé til náttúrufars eða menningar. Þá megi nefna að skammt frá Ólafsdal sé ekið úr Gilsfjarðarbotni upp á Steinadalsheiði. Þar er vegslóði yfir hálsinn á þeim haus sem Vestfirðir eru á landakortinu. Þarna úr Gilsfirði í Dölum og niður í Kolafjörð á Ströndum eru aðeins 10-15 kílómetrar þvert yfir Ísland; einstök leið sem sagði frá hér í Morgunblaðinu í sumar sem leið.

Rétt eins og Eyjólfur Ingvi nefnir, að landbúnaðarafurðir úr Dölum geti hugsanlega orðið verðmætari séu þær kynntar í tengslum við þjóðgarð, nefnir starfshópur umhverfisráðherra ýmsa möguleika á þeim nótum. Landbúnaður, menning og ferðaþjónusta geti spilað vel saman.

Matvælavinnslan í fjósinu að Erpsstöðum sé fjölsóttur ferðamannastaður – og sama megi segja um Eiríksstaði í Haukadal. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir og þar stendur tilgátubær, hugsanlega í sama stíl og sá þar sem Eiríkur rauði bjó áður en hann hélt til landafunda í Vesturheimi rétt fyrir árið 1000.

Söguhringur og hafernir

Ráðherrahópurinn gerir einnig að umtalsefni þá möguleika til eflingar byggð á Skarðsströndinni, sem fyrr er nefnd. Þar, á Söguhringnum svonefnda, sé einstök náttúrufegurð í fjölbreyttu umhverfi. Þar sé mikið dýra- og fuglalíf, meðal annars eitt af helstu búsvæðum hafarnarins. Einnig fjölmargir sögufrægir staðir sem vert sé að gefa gaum.

Stjórn og friðlýsing á forsendum heimafólks

Fjöll, fjaran og fjörðurinn

„Skilmálar um vernd og friðlýsingu lands geta verið með ýmsu móti og í samræmi við aðstæður á hverjum stað. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga ef til þess kemur að stofnaður verði þjóðgarður í Dölum. Þá þurfa málin að vera á forsendum heimafólks,“ segir Halla Sigríður Steinólfsdóttir í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Hún átti sæti í þeirri nefnd á vegum umhverfisráðherra sem lagði til stofnun þjóðgarðs svo og eflda nýtingu ýmissa landsins gæða í Dalabyggð.

„Ég vona að tillögum um þjóðgarð verði ekki stungið undir stól,“ tiltekur Halla. Í þeim undirbúningi sem fyrir liggur segir hún mikilvægt inntak að landvernd í þjóðgarði og landbúnaður fari saman. Slíkt eigi líka að ganga upp sé undirbúningur réttur. „Margir óttast að ekki verði hægt að búa með sauðfé í þjóðgarði njóti refur og minkur verndar þar. Mikilvægt er að dýrbít sé haldið í skefjum, ella eru fé og fuglar í hættu.“

Skógrækt og varðveisla menningarminja eru mikilvæg landbótamál í Dölum og að þeim mætti vinna í þjóðgarði. Í því sambandi getur Halla þess að víða í Dölum séu sögustaðir og mektarbú sem vert sé að gefa gaum. „Fjöll, fjara og fjörður; þetta allt gæti verið í þjóðgarði sem hefur mikla möguleika til stækkunar út frá Ólafsdal. Hér í Dölunum er svo margt eftirtektarvert að gerast,“ segir Halla sem jafnhliða sauðfjárbúskap heldur stóra hjörð af geitum sem skila góðum afurðum.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson