Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Njörður Holding ehf. hefur til skoðunar að reisa sjálfbæra magnesíumverksmiðju á Grundartanga, sem er einn af þeim lóðarkostum sem verið er að skoða innan Evrópu.
Verksmiðjan vinnur magnesíum úr sjó með nýrri aðferð sem Njörður hefur þróað og er sjálfbær og umhverfisvæn.
Stefán Ás Ingvarsson forstjóri Njarðar segir í samtali við Morgunblaðið að félagið sé nú þegar búið að sækja um lóð á Grundartanga. „Grundartangi er skilgreindur sem grænn iðngarður og hefur sjálfbærnistefnu sem samræmist vel okkar áformum,“ segir Stefán.
Félagið hefur kynnt áformin fyrir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar og bæjarstjórn Akraness.
Áætluð stærð verksmiðjunnar er 45.000 fermetrar og lóðin er 58.600 fermetrar.
Áætlað er að 170 bein störf skapist auk fjölda afleiddra starfa.
Reynslumiklir aðilar
Eins og Stefán útskýrir standa reynslumiklir aðilar að verkefninu með mikla þekkingu sem nýtast mun á þessu sviði. Sjálfur er Stefán rafmagnsverkfræðingur með rannsóknaraðstöðu við Stanford-háskóla í Kaliforníu þar sem hann býr og starfar.
Skandinavíska verkfræðistofan AFRY sér um hönnun. Stofan hefur sérþekkingu og áratugareynslu í hönnun og ráðgjöf við uppbyggingu málmverksmiðja, að sögn Stefáns.
Silfurberg ehf. leiðir fjármögnun en innan fyrirtækisins er mikil reynsla við uppbyggingu iðnfyrirtækja eins og Stefán útskýrir einnig.
Hann segir að helstu kostir magnesíummálms séu léttleiki hans og styrkur. „Nýlegar tækniframfarir í magnesíummálmvinnslu hafa aukið styrktareiginleika málmsins sem er nú sambærilegur áli, en magnesíum er mikið notað í álblöndur. Tæringarþol magnesíummálms gerir hann endingarbetri og lengir líftíma hans samanborið við hefðbundnar málmblöndur. Þessir eiginleikar eru eftirsóknarverðir meðal annars í flugvéla-, raftækja- og bílaframleiðslu.“
Engin í Evrópu
Engin magnesíumframleiðsla er í Evrópu í dag að sögn Stefáns en þó er eftirspurn eftir málminum gríðarleg. „Árið 2023 keyptu evrópsk fyrirtæki u.þ.b. 400 þúsund tonn, eða 40%, af heildarframleiðslu magnesíums. Kína framleiðir 85% heimsframleiðslunnar og árið 2021 var gífurlegur magnesíumskortur í Evrópu sem kom niður á bílaiðnaðinum. Evrópusambandið hefur litið málið mjög alvarlegum augum og kom á fót stofnuninni EU-Critical Raw Materials Act til þess að efla birgðakeðju mikilvægra málma innan Evrópu. Þar er magnesíumframleiðsla meðal forgangsverkefna. Stofnunin styður við uppbyggingu á magnesíumverksmiðjum. Það sýnir enn frekar mikilvægi málmsins fyrir evrópsk fyrirtæki. Ég tel því stofnun magnesíumframleiðslu á Íslandi vera skynsamlega ákvörðun og einstakt tækifæri fyrir land og þjóð,“ segir Stefán.
Spurður nánar um fjármögnunina segir Stefán að Silfurberg muni leiða hana fram að uppbyggingarkostnaðinum. „Hvernig við gerum þetta þegar þar að kemur verður að koma í ljós og fer meðal annars eftir endanlegri staðsetningu rekstrarins.“
Áætlaður uppbyggingarkostnaður verksmiðjunnar er 200 milljónir evra, jafnvirði tæpra 30 milljarða íslenskra króna.
Spurður út í mögulegar tekjur verksmiðjunnar segir Stefán að það muni sveiflast eftir heimsmarkaðsverði hverju sinni. „Það hefur sveiflast nokkuð síðustu ár og var í hæstu hæðum árið 2021 í 21 þúsund bandaríkjadölum tonnið. Í dag kostar tonnið 3.500 dali. Ef við miðum við ársframleiðslu upp á 50 þúsund tonn verða árstekjur fyrirtækisins 175 milljónir bandaríkjadala, eða rúmlega 24 milljarðar króna.“
Um ástæðu þess að magnesíum er mestallt framleitt í Kína í dag segir Stefán að framleiðslu hafi verið hætt fyrir um 30 árum í Evrópu og Bandaríkjunum þegar aðföng hækkuðu í verði og rekstrarkostnaður varð of hár.
Hann segir að Kínverjar noti svokallaða „pidgeon“-tækni. Málmurinn sé unninn úr magnesíumríkum steinum og kol notuð til frekari úrvinnslu. Sú aðferð sé gífurlega mengandi en hagkvæm, sérstaklega í landi þar sem kol og vinnuafl sé ódýrt.
Góður tímapunktur
Hann segir tímapunktinn núna vera góðan til að koma inn á markaðinn einkum í ljósi hinnar nýju og umhverfisvænu tækni en einnig vegna hinnar miklu eftirspurnar í Evrópu.
„Annars eru þrjár magnesíumverksmiðjur áætlaðar í Evrópu á næstu árum sem nota aðferð svipaða þeirri kínversku.“
Spurður að því hvort búið sé að sannreyna hina nýju framleiðslutækni Njarðar segir Stefán að svo sé. Næsta skref sé að setja upp framleiðslulínu til prufu, vonandi á Íslandi.
„Ég hef mestan áhuga á að setja prufulínuna upp á Íslandi, en við sjáum hvernig það fer. Ef verksmiðjan rís hér á endanum verður hún fyrsta græna málmframleiðsla í heimi, með samspili sjálfbærrar framleiðslu og endurnýjanlega orkugjafa landsins.“
Um tímalínuna í verkefninu segir Stefán að lokum að stefnt sé að fyrstu skóflustungu árið 2026.