Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Það stendur mikið til í Reykjanesbæ, sem fagnar nú 30 ára afmæli. Þann 16. nóvember kl. 17 verða haldnir miklir galatónleikar í tilefni af afmælinu og er það Óperufélagið Norðuróp sem stendur fyrir þeim í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar með 18 einsöngvurum, kór, barnakór og sinfóníuhljómsveit. Fluttar verða þekktar óperuaríur á borð við Nessun Dorma, Casta Diva og Habanera og dúettar og kórverk úr óperum á borð við La Boheme, Cavalleria Rusticana og Hans og Grétu.
Eins og fram kemur á vef Tix.is,
þar sem miðasala fer fram, mun fjöldi einsöngvara koma fram og má þar nefna Arnheiði Eiríksdóttur mezzosópran sem hlaut nýverið titilinn „Rísandi stjarna óperuheimsins“ á Alþjóðlegu óperuverðlaununum í München og Dísellu Lárusdóttur sópran sem vakið hefur athygli fyrir fagran söng sinn í Metropolitan-óperunni í New York. Einnig koma fram Hanna Olgeirsdóttir sópran, sigurvegari í einsöngvarakeppninni Vox Domini fyrr á árinu, og Davíð Ólafsson bassi sem sungið hefur bæði hér á landi og erlendis við góðan orðstír. Einnig ber að nefna barítóninn Aron Cortes, Cesar Alonzo Barrera tenór og barítónsöngvarann Guðmund Eiríksson en Guðmundur hefur sungið óperuhlutverk bæði hér á Íslandi og á Ítalíu.
Söngvaraveisla
Einsöngvarar sem tengjast landsvæðinu, þ.e. Suðurnesjum, með einum eða öðrum hætti munu einnig syngja og má af þeim nefna Alexöndru Chernyshovu sópran, Braga Jónsson bassa, Rósalind Gísladóttur mezzosópran og síðast en ekki síst meðlimi úr óperustúdíói Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, þau Birnu Rúnarsdóttur sópran, Bryndísi Schram Reed mezzosópran, Jelenu Raschke sópran, Júlíus Karl Einarsson tenór, Lindu Pálínu Sigurðsdóttur sópran, Steinunni Björgu Ólafsdóttur sópran og tenórinn Marius Kraujalis sem er frá Litáen. Hátíðarkór Norðuróps mun bæði flytja þekkta kórþætti og syngja með einsöngvurum og raddir barna fá líka að óma því barnakórinn Regnbogaraddir frá Keflavíkurkirkju og Barnakórar Sandgerðisskóla og Gerðaskóla verða með í atriði úr óperunni Hans og Grétu.
Sinfóníuhljómsveit skipuð 27 manns, nemendum og kennurum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, sér um hljóðfæraleik undir stjórn Jóhanns Smára Sævarssonar og konsertmeistari er Una Sveinbjarnardóttir. Æfingapíanisti tónleikanna er svo Antonia Hevesi.
Allt að smella
Jóhann Smári fyrrnefndur er listrænn stjórnandi Norðuróps sem heldur tónleikana og sér því líka um allt utanumhald, til viðbótar því að vera hljómsveitarstjóri á tónleikunum. Það mæðir því mikið á honum þessa dagana en hann er brattur og segir æfingar hafa gengið vel. „Það var æðisleg æfing í gær og þetta er allt að smella,“ segir hann og á þar við sunnudaginn 10. nóvember en þá bættust í hópinn hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og tóku þátt í æfingum. „Hljómsveitin er 27 manna og rúmlega helmingur er fólk sem við fáum úr Reykjavík, Sinfó og Kammersveitinni og svoleiðis, hitt eru kennarar og lengst komnu nemendurnir úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þegar við bætast kanónur eins og Una Sveinbjarnardóttir fara hlutirnir að ganga betur,“ útskýrir Jóhann.
Barnakór kemur fram á tónleikunum og segir Jóhann að búið sé að undirbúa börnin í þrennu lagi, sem sé heldur óvenjulegt. Börnin skipta með sér röddum og komu saman í fyrsta sinn á æfingu um helgina og segir Jóhann þá æfingu hafa gengið virkilega vel.
„Mjög sætt atriði“
Tónleikarnir fara fram í Stapa í Hljómahöllinni og segir Jóhann Smári að salurinn sé með um 300 sæti og að byggja þurfi framan á sviðið, bæta tveimur metrum við þann hluta sem einsöngvararnir standa á. „Þetta er mjög spennandi og við erum með alveg frábæra einsöngvara,“ segir Jóhann og nefnir þær Arnheiði og Dísellu. Ekki sé Davíð Ólafsson síðri eða tenórinn Cesar Barrera sem syngja mun hið gullfallega Nessun dorma.
Atriði tónleikanna eru fjórtán talsins og þar af „a capella“-kór, þ.e. án undirleiks, úr Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar. „Við tökum atriði úr Hans og Grétu, þar sem þrjár söngkonur af svæðinu syngja Óla lokbrá og Hans og Grétu og svo endurtökum við dúettinn með barnakórnum á íslensku. Það er mjög sætt atriði,“ segir Jóhann.
Hann líkir tónleikunum í heild við flugeldasýningu, slík sé dýrðin. „Þetta er búið að vera brjálað verkefni, mikil vinna en ofboðslega gaman. Ég stofnaði óperustúdíó í haust hérna fyrir sunnan og þar eru 17 efnilegir nemendur og sumir búnir með háskólanám erlendis. Þau eru að syngja minni hlutverkin og við erum að plana með þeim að setja upp La boheme næsta haust. Þess vegna tökum við annan þátt La boheme, til að opna þær dyr og sjá hvað við getum.“
Mikið verk að útvega nótur
Jóhann segir tónleikana skipulagða í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. „Við fáum aðstöðu þar og aðgang að kennurum og nemendum,“ segir Jóhann og að Karen J. Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri hafi bjargað öllum nótum fyrir hljómsveitina, sem hafi ekki verið hlaupið að.
Hann er að endingu spurður hvernig húsið, Stapi, henti fyrir tónleika á borð við þessa. „Það er bara mjög fínt. Það eru teppi á veggjum þegar haldnir eru rokktónleikar til að dempa hljóðið en þegar búið er að taka það og setja upp hljóðskerma er þetta alveg stórfínt og virkar alveg,“ svarar hann.
Miðasala á tónleikana fer fram á tix.is og í afgreiðslu Hljómahallar.