Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Rússar hertu á loftárásum sínum á Kænugarð í fyrrinótt og sendu bæði sjálfseyðingardróna og skutu eldflaugum á borgina. Er þetta í fyrsta sinn í rúma tvo mánuði sem Rússar ráðast á borgina með bæði drónum og eldflaugum. Einn særðist þegar brak úr dróna lenti á honum, en auk þess kviknuðu eldar eftir árásina.
Flugher Úkraínu sagði að loftvarnasveitir landsins hefðu skotið niður fjórar eldflaugar og 37 dróna þá um nóttina. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði árásina um nóttina sýna mikilvægi þess að Úkraínumenn gætu varið sig gegn hryðjuverkum Rússlands, en Selenskí og aðrir úkraínskir ráðamenn hafa beðið vesturveldin undanfarin misseri að senda fleiri loftvarnarkerfi til landsins.
Kalli á hörð viðbrögð
Árásin kom á sama tíma og stjórnvöld í Bandaríkjunum, Úkraínu og Suður-Kóreu sögðu ljóst að norðurkóreskir hermenn tækju nú þátt í hernaðaraðgerðum gegn Úkraínu í Kúrsk-héraði, en Rússar hófu þar nýlega sóknaraðgerðir gegn innrás Úkraínumanna.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, sagði í gær að sú ákvörðun að senda norðurkóreska hermenn til bardaga í Úkraínu kallaði á hörð viðbrögð frá vesturveldunum. Blinken var í gær staddur í Brussel, þar sem hann ætlaði að taka þátt í fundi Norður-Atlantshafsráðsins og ræða við leiðtoga Evrópusambandsins um þær leiðir sem eru færar til þess að auka hernaðaraðstoð við Úkraínu áður en Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, tekur við embætti 20. janúar næstkomandi.
Blinken ræddi m.a. við Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, um norðurkóresku hermennina. Rutte ræddi þar einnig um það hlutverk sem Kínverjar hefðu gegnt við að styðja við innrás Rússa og efnahag þeirra.
Þá ræddu þeir um vopnasölu Írana til Rússlands, en að það fé sem Rússar hefðu greitt til klerkastjórnarinnar fyrir vopnin hefði nýst þeim við að grafa undan stöðugleika í Mið-Austurlöndum.