RUSI Sturla Sigurjónsson sendiherra, Peter Jones hjá RUSI, Þórdís Kolbrún og Benedikt Gíslason bankastjóri.
RUSI Sturla Sigurjónsson sendiherra, Peter Jones hjá RUSI, Þórdís Kolbrún og Benedikt Gíslason bankastjóri. — Ljósmynd/Orri Úlfarsson
Andrés Magnússon andres@mbl.is

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra gerði breytta stöðu og nýjar ógnir á að umtalsefni í framsögu sinni í hringborðsumræðum um öryggismál á norðurskautsslóðum, sem RUSI (Royal United Services Institute), ein elsta og virtasta hugveita heims á sviði öryggis- og varnarmála, efndi til í samstarfi við sendiráð Íslands og Arion banka í Whitehall í Lundúnum á þriðjudag.

Auk Þórdísar voru við hringborðið þau Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Tim Henry varaaðmíráll, James Gray, fv. þingmaður, og fræðimaðurinn Richard Whitman, en Peter Jones frá RUSI, Sturla Sigurjónsson sendiherra og Jóhanna Jónsdóttir, varamaður sendiherra, lögðu einnig orð í belg.

Þórdís rifjaði upp ágengni og árásarhneigð Rússlands, líkt og netárásina á Eistland, innrásina í Georgíu og innlimun Krímskaga, sem hefðu verið augljós merki um hvert stefndi en samt hefði innrásin í Úkraínu komið flestum Vesturlöndum á óvart. Ekki þó öllum.

„Eystrasaltsríkin höfðu varað okkur við þessu. Við heyrðum það allt en við hlustuðum ekki. Við viðurkennum það núna, en þá þurfum við líka að gera eitthvað í því núna.“

Það sagði Þórdís að gæti ekki beðið, enda héldu Rússar uppi auknum þrýstingi á norðurhjara, sem væri ekki lengur það lágspennusvæði sem menn hefði dreymt um. Þrátt fyrir að Rússlandsher hafi orðið fyrir talsverðum áföllum í Úkraínu, væri rússneski flotinn og loftherinn enn öflugir og ógnuðu sem fyrr öryggi í norðurhluta Evrópu. Það sæju menn á upplýsingaöflun, fjölgun rússneskra herflugferða og ekki þó síst aukinni hernaðaruppbyggingu á Kólaskaga, sem væri líkt og í kalda stríðinu mesta víghreiður heims.

Ráðherrann lýsti einnig áhyggjum af auknum áhrifum Kína og vísaði til stuðnings þess við hernað Rússlands í Úkraínu og aukins áhuga á heimskautasvæðum. Hins vegar mætti ekki gera of mikið úr bandalagi Rússa og Kínverja sem um margt væri að hentugleikum fremur en hugsjónum eða sameiginlegum hagsmunum. Markmiðin væru misjöfn og því þyrfti að bregðast við þeim með ólíkum hætti.

Þrátt fyrir að spenna hafi aukist mjög á norðurslóðum og raunar um alla Evrópu og víðar minnti Þórdís á að Atlantshafsbandalagið (NATO) hefði – þvert á fyrri hrakspár – styrkst í kjölfar þessara ógnana. Við hefðu bæst ný aðildarríki og ljóst að innkoma Finnlands og Svíþjóðar hefði aukið öryggissamstarf vestrænna þjóða og styrkt varnir á norðurvæng Vestur-Evrópu til muna.

Svæðisbundnar aðgerðir, svo sem norræna varnarsamstarfið (NORDEFCO) og Sameiginlega viðbragðssveitin (JEF), hefðu einnig styrkt tengslin milli norðurslóða, Norður-Atlantshafs og Eystrasalts. Þessi samstarfsverkefni miða að því að samræma sig stefnu NATO og tryggja að bandalagið væri sveigjanlegt.

Þórdís minnti á að hvernig landfræðileg lega Íslands skipti enn máli og því hefði landið sérstöku hlutverki að gegna, um það færu hagsmunir Íslendinga og bandamanna þeirra saman. Hið herlausa Íslands reiddi sig á bandamenn, NATO og hið tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin, sem væru lykilstoðirnar tvær í öryggismálum landsins. Varnarviðbúnaður hefði aukist á umliðnum árum, frá Keflavíkurflugvelli færi fram víðtækt kafbátaleitareftirlit, hér væri virkt lofthelgiseftirlit á vegum NATO-ríkjanna og unnt að taka við herliði með skömmum fyrirvara, en eins hefði þjónusta við kafbáta verið tekin upp.

Til framtíðar hvatti Þórdís til aukins varnarsamstarfs milli Íslands og Bretlands, löndin ættu margvíslegra sameiginlegra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi og bæði löndin einhuga um vörn og varðveislu sameiginlegra lýðræðislegra gilda.

Í því samhengi minnti hún á mikilvægi þess að Vesturlönd styddu við Úkraínu, líkt og Bretar hefðu gert óhikað allt frá upphafi innrásar Rússa. Þar yrðu öll vestræn lýðræðisríki að standa saman gegn yfirgangi Rússa.

Þórdís var spurð að því hvort alþingiskosningar og ný ríkisstjórn kynnu að valda stefnubreytingu að þessu leyti, en það taldi hún ósennilegt. Víðtæk samstaða væri um utanríkisstefnuna og hana hefði ekki borið á góma í kosningabaráttunni.