Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Stefán Jónsson er á meðal eftirminnilegra persóna sem koma fyrir í minningabók Steingríms J. Sigfússonar af Fólki og flakki. Þar rifjar hann upp ferð um kjördæmið með Stefáni, þar sem gekk á með sögum og gamanmálum daginn langan. Á leið norður var hægt á ferðinni þegar komið var að Akri til að Stefán gæti sagt frá bændahöfðingjanum Jóni Pálmasyni og rifjað upp vísu sem hann orti í hans orðastað:
Mér himneskt ljós í hjarta skín
er hugsa ég til þín rakur.
Blessuð sértu sveitin mín
og sérstaklega Akur.
Eins og nærri má geta er nokkuð um vísur í bókinni, þar á meðal vísa sem Steingrímur orti þegar hann sá séra Hjálmar Jónsson dotta undir ræðuhöldum á langdregnum norrænum fundi:
Ýmislegt fánýtt er nú rætt
og ósköp er leiðinlegt stundum.
En þá er það ekkert sem svæfir jafn sætt
og sænskur krati á fundum.
Þegar söngelski þingmaðurinn Friðjón Þórðarson hætti á þingi orti Steingrímur:
Sé ég eftir söngnum þeim
sem var jafnan bestur
er kvæðamaður heldur heim,
heim í Dali vestur.
Jón á Akri var einnig prýðilega hagmæltur. Einhverju sinni var hann á mölinni og rekst þar á kunningja, sem hafði engan tíma til að spjalla. Ástæðan var sú að hann var að flýta sér á „Konur annarra“, en það var leikrit sem var á fjölunum á þeim tíma. Þá varð Jóni að orði:
Flýti ég mér og fer af stað
fylltur glæstum vonum.
Ég hef keypt mér aðgang að
annarra manna konum.
Þegar Jón var með Karli Kristjánssyni á næturskemmtun í þingmannaboði í London sló hann á létta strengi:
Enginn vafi er um það:
Ungum burt frá hrundum
fíkjuviðar fýkur blað
fyrr en varir stundum.
Karl svaraði að bragði:
Gerum enga yfirsjón
er það fararkvöðin.
Horfðu á brosin hýru, Jón
heldur en fíkjublöðin.
Skjónumálinu þegar hann átti í málarekstri við Jón í Öxl út af skjóttu hrossi sem gengið hafði í Löngumýrarstóðinu:¶Ekki kosta minna mátti¶málabrasið þar.¶Þjófurinn kærði þann sem átti¶það sem stolið var.¶Allar kveðjur og ábendingar vel þegnar, ekki síst í bundnu máli.