Stýrivextir Jón Bjarki aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir aðhald peningastefnunnar enn mjög mikið, eins og það speglast í raunvöxtum.
Stýrivextir Jón Bjarki aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir aðhald peningastefnunnar enn mjög mikið, eins og það speglast í raunvöxtum. — Morgunblaðið/Eggert
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti á fundi sínum í gær um 0,5 prósentustiga stýrivaxtalækkun. Stýrivextir standa því nú í 8,5%. Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að vaxtalækkunin hafi verið eðlilegt viðbragð við þeirri…

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti á fundi sínum í gær um 0,5 prósentustiga stýrivaxtalækkun. Stýrivextir standa því nú í 8,5%.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að vaxtalækkunin hafi verið eðlilegt viðbragð við þeirri hjöðnun verðbólgu og lækkun verðbólguvæntinga sem orðið hefur síðustu vikur og mánuði.

Hann segir að peningastefnunefndin sé greinilega orðin vissari í sinni sök um að verðbólguþrýstingurinn sé að minnka almennt frekar en að þróunin fyrr í haust sé einhvers konar skammtímasveifla.

„Greinilegt er að þau vilja ekki kynda um of undir væntingum um hraða lækkun vaxta. Þau eru samt trúlega orðin bjartsýnni en áður um að hægt sé að ná niður verðbólgu án þess að þurfa að kalla fram verulegan samdrátt með háum raunvöxtum,“ segir Jón Bjarki.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók fram á kynningarfundinum að þörf væri á þéttu raunvaxtaaðhaldi næsta kastið til þess að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu. Með tímanum skapast þó væntanlega skilyrði fyrir minnkandi aðhaldi á þann kvarða.

Jón Bjarki segir að þrátt fyrir vaxtalækkunina nú sé aðhald peningastefnunnar, eins og það speglast í raunvöxtum, ennþá býsna mikið. Gildir það hvort sem horft er til raunstýrivaxta, miðað við hina ýmsu mælikvarða á vænta verðbólgu, eða vaxtastig á verðtryggðum skuldabréfum og útlánum.

„Ef maður horfir til þess að spenna á vinnumarkaði er að minnka, íbúðamarkaður að róast og hagvöxtur er hægur um þessar mundir sýnist mér að núverandi vaxtastig endurspegli tiltölulega þétt aðhald,“ segir Jón Bjarki.

Hann bætir við að trúlega verði því svigrúm til að lækka stýrivexti áfram á fyrstu mánuðum næsta árs án þess að peningalegt aðhald minnki verulega frá því sem verið hefur.