Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson
Ekki er síður sláandi að í ágúst sl. var atvinnuleysi hjá ungu fólki í ríkjum Evrópusambandsins að meðaltali 14,3%, þar af á Spáni 24,7%.

Baldur Guðlaugsson

Á árinu 2003 varð upplýsinga- og áróðursmálaráðherra Saddams Husseins frægur að endemum þegar hann lýsti því yfir í beinni útsendingu frá Bagdad í miðju Íraksstríðinu að hersveitum Íraks hefði tekist að brjóta sveitir bandamanna á bak aftur. Án þess að ráðherrann áttaði sig á því gátu áhorfendur þá hins vegar í bakgrunninum séð bandaríska skriðdreka komna inn í höfuðborgina og nálgast myndverið óðfluga.

Ekki verður betur séð en að talsmönnum Viðreisnar hafi nú tekist að toppa seinheppni íraska ráðherrans. Aðeins tveimur mánuðum eftir að birt er ítarleg skýrsla um samkeppnishæfni Evrópu þar sem höfundurinn, Mario Draghi, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu, forsætisráðherra Ítalíu og þekktur Evrópusambandssinni, gefur Evrópu og Evrópusambandinu falleinkunn og segir álfuna vera að dragast hröðum skrefum aftur úr bæði Bandaríkjunum og Kína hvað varðar samkeppnishæfni, hagvöxt og framleiðni, lýsir Viðreisn því yfir að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði af flokksins hálfu ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku. Íraski ráðherrann hafði það þó sér til málsbóta í sjónvarpsútsendingunni frægu að hann sá ekki það sem var að gerast fyrir aftan hann. Í tilviki Viðreisnar er engu slíku til að dreifa. Hin nýútkomna skýrsla Marios Draghis er opinbert plagg sem fengið hefur mikla umfjöllun. Hún bætist við áður fyrirliggjandi upplýsingar um efnahagsástandið í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Samt draga stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu stöðugt upp þá mynd að grasið sé grænna þar á bænum en hér á landi, væntanlega í þeirri von að áherslan á aðildarviðræður skili atkvæðum í komandi kosningum. Ekki sakar því að benda á nokkrar efnahagslegar staðreyndir.

Í síðasta mánuði var atvinnuleysi hér á landi 3,4%. Á Spáni var atvinnuleysi í september sl. hvorki meira né minna en 11,2%, á Grikklandi var það 9,3%, á Ítalíu 6,1% og í Evrópusambandinu í heild að meðaltali 5,9%. Ekki er síður sláandi að í ágúst sl. var atvinnuleysi hjá ungu fólki í ríkjum Evrópusambandsins að meðaltali 14,3%, þar af mest á Spáni, 24,7%. Ekki mjög heillandi heimur. Verðbólga í ríkjum Evrópusambandsins er að vísu lægri en á Íslandi um þessar mundir, en fyrir tveimur árum var verðbólga í ríkjum Evrópusambandsins að meðaltali 11,5%, eða nokkru hærri en verðbólga hér á landi. Talsmenn Evrópusambandsaðildar hamra gjarnan á því hvað vextir séu miklu lægri í ríkjum Evrópusambandsins en hér á landi. Vextir af húsnæðislánum eru vissulega víða lægri en hér. Á því eru margvíslegar skýringar. En það er ekki nóg að einblína á vexti af húsnæðislánum. Það þarf einnig að horfa til vaxta af öðrum lánum einstaklinga, svonefndum neytendalánum. Í júlí sl. voru vextir af neytendalánum þannig að meðaltali 7,77% á evrusvæðinu, hæstir í Eistlandi, 14,4%, 13,6% í Lettlandi, 11% á Grikklandi og 8,1% í Þýskalandi.

Fyrir fáeinum árum kom út hér á landi barnabók sem bar heitið Bannað að ljúga. Greinarhöfundur ætlar forystumönnum Viðreisnar og öðrum Evrópusambandssinnum ekki þá dul að þeir segi vísvitandi ósatt um meint ágæti Evrópusambandsaðildar. Þeir mættu þó leggja meiri áherslu á vinnuregluna bannað að blekkja.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Baldur Guðlaugsson