Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Inga Sæland, Flokki fólksins, talaði mest allra þingmanna á 155. löggjafarþinginu sem frestað var á mánudaginn. Hún er því ræðudrottning þingsins. Inga hefur ekki áður hampað þessum titli.
Þetta var óvenjustutt þing, stóð frá 10. september til 18. nóvember, eða í 70 daga. Kosningar verða sem kunnugt er hinn 30. nóvember.
Inga Sæland flutti 52 ræður og athugasemdir (andsvör) og talaði samtals í 363 mínútur, eða í rúmar sex klukkustundir.
Næst komu Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra 89/242, Guðmundur Ingi Kristinsson 28/195, Andrés Ingi Jónsson 42/170, Eyjólfur Ármannsson 57/154, Njáll Trausti Friðbertsson 35/139, Steinunn Þóra Árnadóttir 45/125 og Willum Þór Þórsson 41/125.
Margfaldur ræðukóngur fyrri ára, Björn Leví Gunnarsson, hafði hægt um sig á þessu þingi. Tók hann til máls í 39 skipti og talaði í 82 mínútur.
Óvenjustutt þing
Alls voru fluttar 974 þingræður sem stóðu yfir í samtals 55,80 klukkustundir. Athugasemdir voru 446 athugasemdir og stóðu yfir í 12 klukkustundir.
Sem fyrr segir var 155. löggjafarþingið óvenjustutt enda þingið rofið tiltölulega snemma og boðað til kosninga.
Skrifstofa Alþingis tók saman tölfræðilegar upplýsingar um þinghaldið að því loknu.
Þingfundir voru samtals 27 og stóðu í 84 og hálfa klukkustund. Meðallengd þingfunda var um þrjár klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í tíu klukkustundir og 23 mínútur. Lengsta umræðan var um fjárlög 2025 en hún stóð samtals í 19 klukkustundir og tíu mínútur. Þingfundadagar voru alls 23.
Af 151 frumvarpi urðu alls 17 að lögum og 134 voru óútrædd, einu var vísað til ríkisstjórnar. Af 111 þingsályktunartillögum voru tvær samþykktar og 109 tillögur voru óútræddar.
Fimm skriflegar skýrslur voru lagðar fram. Fjórar beiðnir um skýrslur komu fram, þar af tvær til ráðherra og tvær til ríkisendurskoðanda.
Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 66. Fyrirspurnir til munnlegs svars voru sex og var engri svarað en ein kölluð aftur. Tvær fyrirspurnir voru felldar niður vegna ráðherraskipta.
Alls voru 60 skriflegar fyrirspurnir lagðar fram og var 16 þeirra svarað og 11 felldar niður vegna ráðherraskipta. 33 skriflegar fyrirspurnir biðu svars er þingi var frestað.
Þingmál til meðferðar í þinginu voru 337 og tala prentaðra þingskjala var 416. Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 28. Sérstakar umræður voru þrjár. Samtals höfðu verið haldnir 86 fundir hjá fastanefndum þegar þingi var frestað.
Þegar þingi var frestað 18. nóvember flutti forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, ávarp við þingfrestun en hann lætur nú af þingmennsku eftir 21 ár og sjö mánuði á Alþingi.
Guðmundur Ingi Kristinsson, 9. þingmaður Suðvesturkjördæmis, flutti ávarp fyrir hönd þingmanna. Færði hann Birgi Ármannssyni blómvönd í kveðju- og þakklætisskyni.
„Eins og jafnan áður hefur nokkur hópur þingmanna ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri og aðrir hafa ekki hlotið sæti svo ofarlega á framboðslistum að líkur séu á að þeir nái kjöri. Við bætist svo auðvitað sú óvissa sem jafnan fylgir þingkosningum,“ sagði Birgir Ármannsson m.a. þegar hann frestaði þinginu.
Sagði Birgir að allt væri þetta kunnuglegt og mannaskipti af þessu tagi fastur liður í stjórnmálalífinu.
Í nokkrum undanförnum kosningum, allt frá árinu 2007, hafi orðið mikil endurnýjun á þingheimi í hverjum kosningum, mest árið 2016 þegar 32 nýir þingmenn (af 63) tóku sæti að loknum þingkosningum.
Á þessu tímabili, frá 2016, hefur endurnýjunin raunar oftast verið milli 40 og 50%.
Býst við mikilli endurnýjun
„Tæpur fjórðungur þingmanna á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka sækist ekki eftir endurkjöri í komandi kosningum og er sá sem hér talar í þeim hópi,“ sagði Birgir.
„Hins vegar má geta þess að mér telst til að 41 sitjandi þingmaður sitji í fyrsta eða öðru sæti á framboðslistum stjórnmálaflokkanna og í þessum hópi, í tveimur efstu sætunum, eru einnig átta fyrrverandi þingmenn sem ekki hafa átt hér sæti á yfirstandandi kjörtímabili. Fleiri núverandi þingmenn eru auðvitað í sætum á framboðslistum, sem gætu skilað þeim áframhaldandi setu á þingi, en hvernig sem fer 30. nóvember eru allar líkur á því að það verði mikil endurnýjun í þingmannahópnum.“