Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
Á heimasíðu sinni fjallar Björn Bjarnason um nýfallinn dóm héraðsdóms um að breyting á búvörulögum hafi strítt gegn stjórnarskrá: „Fyrirtækið Innnes stefndi samkeppniseftirlitinu með kröfu um inngrip eftirlitsins í háttsemi framleiðendafélaga kjötafurða

Á heimasíðu sinni fjallar Björn Bjarnason um nýfallinn dóm héraðsdóms um að breyting á búvörulögum hafi strítt gegn stjórnarskrá:

„Fyrirtækið Innnes stefndi samkeppniseftirlitinu með kröfu um inngrip eftirlitsins í háttsemi framleiðendafélaga kjötafurða. Eftirlitið sagðist ekki hafa heimild til inngrips eftir breytingu á búvörulögunum. Niðurstaða héraðsdómarans er að frumvarpinu um nýjar samkeppnisreglur í búvörulögunum hafi verið breytt svo mikið í meðförum þingsins að það hafi ekki farið í gegnum þrjár umræður á þingi eins og krafist sé í 44. gr. stjórnarskrárinnar.

Tekur dómarinn sér fyrir hendur að vega og meta meðferð málsins í atvinnuveganefnd þingsins og tækifæri sem hagaðilum utan þings voru gefin til að gera athugasemdir. Telur hann setningu laganna brjóta gegn stjórnarskránni.

Þrískipting valdsins vekur spurningar um hvort dómarar hafi heimild til að ákveða hvernig þingmenn fari með vald sitt innan þings þótt óumdeilt sé að dómarar geti úrskurðað hvort efni laga brjóti í bága við stjórnarskrá.

Óhjákvæmilegt er að hæstiréttur fjalli um þetta mál að lokum. Samkeppniseftirlitið hafði ekki heimild til inngrips í þágu Innness. Nú er spurning hvort héraðsdómarinn hafði heimild til þess inngrips í störf löggjafans sem felst í dómi hans.“