Garðbæingar Við athöfnina sl. þriðjudag og hér stendur fólk sem tengist finnsku húsunum við steininn úr Eyjum. Hilmar Hjartarson er t.v., næst skildinum.
Garðbæingar Við athöfnina sl. þriðjudag og hér stendur fólk sem tengist finnsku húsunum við steininn úr Eyjum. Hilmar Hjartarson er t.v., næst skildinum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hvergi er betra að búa en einmitt hér. Hverfið á sér líka merka sögu og henni var mikilvægt að halda til haga,“ segir Hilmar Hjartarson íbúi í Ásbúð í Garðabæ. Nú fyrr í vikunni var á opnu svæði í Búðahverfi í Garðabæ afhjúpað…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hvergi er betra að búa en einmitt hér. Hverfið á sér líka merka sögu og henni var mikilvægt að halda til haga,“ segir Hilmar Hjartarson íbúi í Ásbúð í Garðabæ. Nú fyrr í vikunni var á opnu svæði í Búðahverfi í Garðabæ afhjúpað endurnýjað minnismerki um uppruna finnsku húsanna svonefndu sem eru þarna. Líkt og í fleiri byggðum á höfuðborgarsvæðinu voru eftir Vestmannaeyjagosið árið 1973 reist í Garðbæ allmörg einingahús, ætluð Eyjafólki á hrakhólum.

Eyjafólk í helmingi húsa

Norðurlandaþjóðirnar studdu vel við Íslendinga í Eyjagosinu og í Garðabæ, við göturnar Ásbúð og Holtsbúð, voru reist 35 hús frá Finnlandi. Eitt þeirra – hús með innbúi og öllu sem þurfti – var gjöf Finna til Íslendinga. Hin voru keypt af Viðlagasjóði sem setti húsin í sölu 1974. Eyjamönnum voru ætlaðar byggingar þessar en ári eftir gos var endurreisn hafin í Eyjum svo fólk þaðan flutti inn í aðeins um helming húsanna í Garðabæ. Önnur voru seld á frjálsum markaði.

„Fyrir hálfri öld var ég að koma þaki yfir mig og mína og þótti slíkt vera talsvert mál. Mér fannst því alveg frábært að geta keypt tilbúið hús og flutt inn. Þetta var gæfuspor og hér hefur fjölskyldunni liðið vel,“ segir Hilmar Hjartarson sem býr í Ásbúð 17.

Á reit milli gatna

Í ágúst árið 1977 var Urho Kekkonen þáverandi Finnlandsforseti í heimsókn á Íslandi og afhjúpaði þá minnismerki um húsin frá heimalandi sínu. Því var komið fyrir á stórum steini, fengnum úr Eyjum, sem er á reit milli gatna. Skjöldur með helstu upplýsingum var á steininum en fyrir um tuttugu árum var honum hnuplað og hefur ekki fundist. Þetta segir Hilmar að hafi runnið sér til rifja eins og fleirum.

Úr varð að fyrir nokkrum misserum fóru Hilmar og Lárus Lárusson, lengi nágranni hans við Ásbúð, á fund Almars Guðmundssonar bæjarstjóra í Garðbæ og óskuðu eftir því að nýr skjöldur með sömu áletrun og var yrði settur upp á steininum stóra. Að slíku væri sómi. Málaleitan þessi fékk góðar undirtektir og síðasta þriðjudag var efnt til látlausrar athafnar þar sem merkið var afhjúpað að nýju.

Búðahverfið var úti í sveit

„Finnsku húsin eru úr góðu timbri og hafa enst mjög vel. Þau eru hlý og hentug að öllu leyti,“ segir Sigurður Örn Bernhöft sem býr í Ásbúð 9. Foreldrar hans, þau Örn Bernhöft og Svava Jóhanna Péturdóttir, sem bæði eru látin, keyptu húsið af Viðlagasjóði árið 1974 og áttu þar sitt heimili. Fyrir allmörgum árum keyptu Sigurður og Katrín Gunnarsdóttir kona hans húsið, sem þau hafa tvívegis stækkað og breytt á ýmsa lund í samræmi við þarfir fjölskyldu sinnar.

„Búðahverfið var úti í sveit þegar ég var að alast hér upp. Umhverfið var einn stór leikvöllur, hér voru malargryfjur og á Vífilsstaðatúni voru kýr á beit. Þessi staður er í dalkvos svo stundum verður hér kalt á veturna. En á móti kemur að hér er skjólsælt, enda hafa sprottið upp mjög stæðileg tré á stórum lóðum húsanna,“ segir Sigurður.

Flestir frumbyggjanna í Ásbúð, fólk sem setti sig þarna niður fyrir um hálfri öld, er nú ýmist flutt á brott eða horfið af sviðinu. „Fólk vill vera hér og líkar vel. Á sínum tíma var gerð athugun á samfélagi og húsum í Viðlagasjóðsbyggðinni við Ásbúð og því hvernig til hefði tekist. Þar kom fram að þetta hefði orðið, í stuttu máli sagt, fínt samfélag fólks sem byggi í góðum húsum. Undir slíkt get ég tekið,“ segir Sigurður.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson